Þýskaland

Staðreyndir um Þýskaland

Höfuðborg: Berlín
Tungumál: Þýska
Gjaldmiðill: Evra
Fólksfjöldi: 82.4 milljónir

Sambandslýðveldið Þýskaland (Bundesrepublik Deutschland) er sjöunda stærsta ríki Evrópu og spannar rúmlega 357 þúsund km².   Í dag er Þýskaland eitt mesta iðnveldi heims og er efnahagskerfi landsins eitt það stærsta í heimi. Þýskaland liggur í Mið-Evrópu og nær frá Ölpunum í suðri til stranda Norðursjávar og Eystrasalts í norðri.  Eftir Heimsstyrjöldina síðari misstu Þjóðverjar mikil landsvæði í austri þar sem nú er Pólland og þurftu milljónir Þjóðverja að flytja sig frá þessum svæðum. Því svæði sem eftir var var skipt í hernámssvæði Bandaríkjamanna, Breta, Frakka og Sovétmanna. Þegar kalda stríðið hófst var Þýskalandi skipt í tvennt þar sem hernámssvæði Sovétmanna myndaði Þýska alþýðulýðveldið (Deutsche Demokratische Republik) eða Austur-Þýskaland og hernámssvæði hinna þjóðanna myndaði Sambandslýðveldið Þýskaland (Bundesrepublik Deutschland) eða Vestur-Þýskaland. Í lok kalda stríðsins voru þýsku ríkin sameinuð á ný.

Krækja á upplýsingar á ensku um uppbyggingu þýska menntakerfisins og önnur á upplýsingar um nám fyrir erlenda þegna.

Skólakerfið

Að sækja um

Alls eru um 330 skólar á háskólastigi í Þýskalandi. Skólaárið skiptist í tvö sex mánaða misseri – vetrarönn og sumarönn. Námsleiðir geta ýmist byrjað á vetrarönn eða sumarönn. Dagsetningar geta verið mismunandi eftir háskólum, en eftirfarandi er algengast:

 • Við „Universitäten“: Sumarönn: apríl – september (námskeið hefjast 15. apríl). Vetrarönn: október – mars (námskeið hefjast 15. október). Athugið þó að í Bæjaralandi byrja annirnar alltaf hálfum til einum mánuði seinna. Í München byrjar t.d. kennslan 1. nóvember. Umsóknarfrestur fyrir sumarmisseri er til 15. janúar og fyrir vetrarmisseri til 15. júlí. 
 • Við „Fachhochschulen“: Sumarönn: mars – ágúst (námskeið hefjast 15. mars). Vetrarönn: september – febrúar (námskeið hefjast 15. september).

Umsóknarfrestur í grunnnám í þýska háskóla er í flestum tilfellum til 15. júlí fyrir vetrarönn og fá umsækjendur svar í ágúst eða september. Fyrir sumarönn er fresturinn til 15. janúar og fá umsækjendur svar í febrúar eða mars. Í mörgum bachelor og master námsleiðum er aðeins hleypt inn á vetrarönn. Frestir geta verið breytilegir eftir skólum og það er mikilvægt að ganga úr skugga um dagsetningar í hverju tilfelli fyrir sig.

Umsóknareyðublöð er hægt að fá hjá „Akademisches Auslandsamt“ í viðkomandi háskóla, en einnig í Þýska sendiráðinu. Með umsóknum þarf að fylgja staðfest afrit af prófskírteini, sem fæst hjá nemendaskrifstofu viðkomandi háskóla. Einnig þarf að fylgja fjárhagsvottorð (fæst m.a. hjá LÍN) og stutt æviágrip á þýsku, „Lebenslauf“, þar sem lýst er námsferli og starfsreynslu.
Starfsþjálfun er oft hluti af tækninámi og ef menn hafa unnið við störf skyld náminu er sjálfsagt að spyrjast fyrir um hvort og hvernig hægt sé að fá þau metin.

Inntökuskilyrði og takmarkanir

Stúdentspróf þarf til að komast í þýska háskóla. Nemendur með íslenska háskólagráðu, sem hafa fengið inngöngu í framhaldsnám, ættu að athuga vandlega hvort nám þeirra, sem þeir hafa stundað hér á landi, sé metið að fullu. Fjöldatakmarkanir, „Numerus Clausus“, eru í ýmsum greinum, svo sem í læknisfræði, tannlækningum, dýralækningum, lyfjafræði, líffræði, næringarfræði, sálfræði, arkitektúr og landbúnaðarfræðum.

„Hochschulzugangsberechtigung“ eru réttindi sem umsækjandi þarf að hafa til að geta stundað háskólanám í Þýskalandi. Á Íslandi er veitir stúdentspróf slík réttindi. Einnig er þess krafist að umsækjandi búi yfir góðri þýskukunnáttu. Það er sannað með því að taka stöðluð stöðupróf í þýsku, eins og TestDaf prófið, sem er haldið í Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Líka er hægt að taka DSH próf (Deutschen Sprachprüfung für den Hochschulzugang ausländischer Studienbewerber), sem haldið er af háskólunum sjálfum fyrir byrjun misseris. Nánari upplýsingar um þýskupróf.

Þrír mismunandi aðilar taka við umsóknum (þ. Antrag auf Zulassung):

 • ZVS (Zentralstelle für die Vergabe von Studienplätzen) ef þú ert að sækja um í fögin líffræði, læknisfræði, lyfjafræði, sálfræði og tannlækningar.
 • uni-assist e.V. ef þú hefur aldrei stundað nám í Þýskalandi og skólinn sem þú sækir um er einn af 85 meðlimum í uni-assist. Flestir útlendingar sem sækja um nám í Þýskalandi fara gegnum uni-assist. Þú getur sótt um marga háskóla í einu og greiðir aðeins einu sinni umsóknargjaldið, u.þ.b. 30 evrur.
 • Háskólarnir sjálfir, ef þú hefur stundað nám í Þýskalandi og/eða skólinn sem þú sækir um notast ekki við uni-assist.

Athugið!

 • að sækja um á réttum stað með því að lesa vel upplýsingar á heimasíðu skólans
 • að borga umsóknargjald ef beðið er um það
 • að umsóknin sé rétt fyllt út og öll tilskilin gögn fylgi með
 • að uppfylla allar kröfur fyrir námið, þ.m.t. hvað varðar þýskukunnáttu.

Námsgráður

Þjóðverjar eru í auknum mæli að taka upp Bachelor og Master gráður eins og flest Evrópulönd vegna Bologna yfirlýsingarinnar, sem er samkomulag um meðal annars samræmingu háskólagráða innan Evrópulanda. Enn eru þó í boði við marga háskóla hinar hefðbundnu þýsku gráður, Magister og Diplom. Bacholor og Master námið samanstendur í flestum tilfellum af módúlum (Modulsystem), en hvert módúl er myndað úr nokkrum námskeiðum, sem geta ýmist verið málstofur, próf eða starfsnám. Lokaeinkunn í slíkum námsleiðum er reiknuð út frá árangri yfir öll námsárin.

Almennt má tala um þrenns konar skóla á háskólastigi í Þýskalandi:

 • „Universitäten“ eru hinir hefðbundnu háskólar með margar deildir á flestum sviðum. Undir þennan hóp flokkast einnig tækniháskólar (þ. Technische Universitäten/Hochschulen). Alls eru um 102 háskólar í Þýskalandi. Gráður: Bachelor, Master, Diplom, Magister, Promotion, Staatsprüfung für das Lehramt (kennsluréttindi), Staatsexamen.
 • „Fachhochschulen“ eru um 167 talsins og bjóða upp á nám meira tengt atvinnulífinu, sem felur oftast í sér starfsnám, t.d. á sviði tæknigreina, viðskipta- og hagfræði, fjölmiðlafræði, upplýsingatækni og ýmissa heilbrigðisgreina. Gráður: Bachelor, Master, Diplom.
 • „Kunst-, Musik- und Filmhochschulen“ eru listaháskólar sem bjóða upp á nám í myndlist, hönnun, ljósmyndun, kvikmyndagerð, leiklist, leikstjórn, tónlist o.s.frv. Listaháskólar, sem eru 52 talsins, velja úr stórum hópi umsækjenda, sem oft þurfa að sanna færni sína með möppu, meðmælum og/eða inntökuprófum. Gráður: Bachelor, Master, Diplom, Magister, Promotion, Staatsprüfung für das Lehramt (kennsluréttindi).

Skólagjöld

Árið 2014, voru afnumin skólagjöld í öllum 16 sambandsríkjum Þýskalands af grunnháskólanámi í öllum ríkisháskólum Þýskalands. Það þýðir að núna geta bæði innlendir og alþjóðlegir nemendur stundað háskólanám sitt án þess að greiða skólagjöld, en þurfa hins vegar aðeins að greiða lágt gjald fyrir umsýslukostnað á hverri önn.

Hvað er í boði?

Leit að námi

Umtalsverðir styrkir bjóðast erlendum nemendum í Þýskalandi. Sótt er um í gegnum DAAD kerfið. Umsóknarfrestur um styrki er nokkuð mismunandi eftir tegund náms:

 • sumarnám í þýsku: 1. desember
 • námsstyrkur í framhaldsnám (t.d. meistaranám): 1. desember
 • rannsóknastyrkir fyrir doktorsnám og post.doc. nám í eitt ár 1. desember
 • rannsóknastyrkir fyrir doktorsnám og post.doc. nám í 6 mánuði 31. Ágúst og 1. apríl
 • Cotutelle rannsóknastyrkir fyrir doktorsnám og post.doc. nám í hámark 18 mánuði 1. desember
 • rannsóknadvöl fyrir vísindamenn 31. Ágúst og 1. apríl
 • styrkir til frekara náms þeirra sem þegar hafa þegið styrk einu sinni 31. Ágúst og 1. apríl
 • sérstakir styrkir til framhaldsnáms í arkitektúr fyrir fólk með erlenda menntun 30. september
 • sérstakir styrkir fyrir erlenda nema til framhaldsnáms í listum, hönnun, myndrænni miðlun og kvikmyndum: 30. September.

LÍN

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Mikilvægt varðandi LÍN: 
Veitt er lán til undirbúningsnáms í tungumálinu í eitt misseri (tvo fjórðunga þar sem það á við) en athugið að lánið er bundið því skilyrði að áframhaldandi nám verði stundað í Þýskalandi. Skilyrði fyrir útborgun lánsins er að vottorði um inngöngu í áframhaldandi nám sé skilað inn til lánasjóðsins.

Styrkir

Hagnýtar upplýsingar

Að flytja til

Deutscher Bildungsserver -  Á þessari síðu er hægt að finna upplýsingar um skóla á öllum skólastigum í Þýskalandi, svo sem grunnskóla, framhaldsskóla og fullorðinsfræðslustofnanir.

Dvalarleyfi:

Þar sem Ísland er hluti af Evrópska efnahagssvæðinu þurfa Íslendingar hvorki vegabréfsáritun (þ. Visum) né landvistarleyfi (þ. Aufenthaltserlaubnis). Hins vegar þarftu að skrá þig inn í landið innan tveggja vikna frá því að þú kemur til Þýskalands. Þetta er gert á skrifstofum sem nefnast Einwohnermeldeamt eða Bürgeramt. Meðal þess sem þú gætir þurft að sýna er vottorð um sjúkratryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins, sönnun á því að þú getir haldið þér uppi fjárhagslega og leigusamningur með undirskrift leigusala. Eftir skráningu færðu vottorð upp á það að þú megir dvelja í landinu til að stunda nám (þ. Aufenthaltserlaubnis zum Studium). Um vegabréfsáritanir og dvalarleyfi almennt má lesa á síðu DAAD. Ráðlegt er að spyrjast fyrir á alþjóðaskrifstofunni (þ. Akademischer Auslandsamt)  í háskólanum þínum hvaða gögn þú þurfir að sýna hjá Einwohnermeldeamt.

Húsnæði:

Flestir þýskir háskólar bjóða upp á herbergi á stúdentagörðum (þ. Studentenwohnheime), en einnig er algengt að stúdentar leigi sér íbúð á almennum leigumarkaði. „Wohngemeinschaft“ kallast það þegar nokkrir taka sig saman og leigja nokkurra herbergja íbúð þar sem hver fær sitt herbergi en allir deila baðherbergi og eldhúsi.

Félagsstofnanir fyrir stúdenta (þ. Studentenwerke) sjá um að útdeila herbergjum á stúdentagörðum. Á síðuDeutsches Studentenwerk má finna yfirlit yfir slíka þjónustu í Þýskalandi.

Að lokum má benda á almenna umfjöllun um húsnæði fyrir námsmenn á síðu DAAD.

Reynslusögur og tengiliðir

 • DAAD styrkir í Þýskalandi

  Nám í Þýskalandi – Spennandi tækifæri fyrir íslenska námsmenn Viðtal við þýska sendiherrann á Íslandi, Herbert Beck og DAAD sendikennara við Háskóla Íslands Aune Stolz. Á köldum vordegi heimsótti ég þýska sendiráðið í Reykjavík til að kynna mér betur þau tækifæri sem eru í boði fyrir íslenska námsmenn við þá nærri 400 háskóla sem hægt […]
  Lesa nánar...
 • Arkitektaám í Þýskalandi

  Ellert Björn Ómarsson er arkitekt frá Listaháskóla Íslands. Hann fór í skiptinám til Berlínar og notaði tækifæri til þess að rifja upp þýskuna sem hann læri sem barn. Kennsluaðferðirnar komu honum á óvart og nú stefnir hann á meistaranám erlendis.
  Lesa nánar...
 • Sjálfboðaliði í Þýskalandi

  Sjálfboðastarf erlendis – Þýskaland Hafþór Freyr Líndal segir frá: Eins og svo mörgum öðrum samnemum mínum langaði mig að loknu stúdentprófi að byrja nýtt og spennandi líf erlendis. Það var einhvern veginn á allra vörum; sumum langaði að ferðast, öðrum langaði að flytja og sumir vildu eitthvað allt annað. Það sem við áttum flest sameiginlegt […]
  Lesa nánar...

Tenglar

Top