Sviss

Fólksfjöldi: 8,8 milljónir

Tungumál: Þýska (svissnesk þýska), franska, ítalska og rómenska

Gjaldmiðill: Svissneskur franki

Höfuðborg: Bern

Country Flag

Sviss er landlukt land í Mið-Evrópuog er um miðbik Alpafjalla. Landið skiptist í 26 kantónur með umtalsverða sjálfstjórn. Sviss er þekkt fyrir hlutleysisstefnu sína og hefur ekki tekið þátt í neinum stríðsátökum á 20. eða 21. öld. Landið hefur talsverða sérstöðu á vesturlöndum sökum mikils beins lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslna. Sviss er ekki aðili að Evrópusambandinu en þar eru þó skrifstofur ýmissa alþjóðastofnanna, svo sem Sameinuðu þjóðanna. Sviss myndaðist ekki af einni þjóð, heldur sem bandalag mismunandi héraða sem ákváðu að tengjast af pólitískum ástæðum. Upphaflegu kantónurnar voru þýsku mælandi en eftir því sem fleiri héruð bættust við, bættust frönsku- og ítölsku mælandi íbúar við. Af sömu ástæðu eru einnig fleiri en eitt tungumál talað í landinu. 

Að sækja um

Æðri menntun í Sviss fer fram í:

  • háskólum (universities), sem eru 12. Studentspróf er nauðsynlegt en einnig þurfa nemendur að hafa náð 18 ára aldri og hafa gott vald á viðkomandi tungumáli. Flestir háskólar krefjast inntökuprófs í því máli sem kennt er á (þýska, franska). Háskólar geta einnig krafist þess að umsækjandi taki inntökupróf sem fer fram í byrjun hvers misseris við háskólann í Fribourg. Hægt er að sækja sérstök undirbúningsnámskeið við skólann. Nánari upplýsingar.
  • sérskólum á háskólastogi (universities of applied sciences) sem eru sex. Inntökuskilyrði eru þau sömu og í háskólunum.
  • tækniskólum (ingenieur ETH) og
  • „Höhere Technische Lehranstalt“ (ingenieur HTL). Til að komast í þá þarf ekki stúdentspróf en umsækjandi þarf að hafa verið á starfssamningi í viðkomandi fagi í fjögur ár.

Skólaárið er frá október og fram í júní eða júlí. Haustmisseri lýkur í febrúar og og vormisserið hefst í apríl og stendur fram í júní/júlí. Háskólarnir í Basel, Bern, St. Gallen, Luzern, Zürich og ETH Zürich kenna á þýsku. Í Lausanne, Geneve og Neuchatel er kennt á frönsku. Háskólinn í Freiburg/Fribourg kennir bæði á frönsku og þýsku. Universita della Svizzera Italiana kennir á ítölsku.

 

Umsóknarfrestur í háskólana er oftast í júní eða júlí fyrir næsta skólaár. Umsóknir í læknisfræði, dýralækningar, sálfræði og tannlækningar þurfa að berast skólum fyrr (í febrúar yfirleitt). Rétt er að leita upplýsinga hjá viðkomandi háskóla varðandi umsóknarfrest og fylgigögn. Hér eru þó upplýsingar um kröfur helstu háskóla í landinu. Sótt er um skriflega beint til háskólanna og neðangreind skjöl þurfa alltaf að fylgja með. Senda skal umsóknina í ábyrgðarpósti:

  • útprentað og undirritað afrit af umsóknareyðublaði
  • tvær passamyndir
  • ljósrit af vegabréfi
  • ljósrit af stúdentsprófsskírteini
  • upplýsingar um nám sem lokið er í háskóla (ef við á)
  • vottorð um kunnáttu í þýsku, frönsku og ensku
  • ferilskrá
  • kvittun fyrir greiðslu umsóknargjalda
  • kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna sótt er um viðkomandi nám.

Íslendingar hafa sótt nokkuð í þá ferðamannaskóla sem kenna á ensku. Til að komast inn í þá þarf tveggja ára nám eftir skyldunám, starfsreynsla í faginu er metin og einnig þarf góða enskukunnáttu. Auk þessara skóla eru margir skólar innan svissneska hótelskólasambandsins sem kenna annað hvort á þýsku eða frönsku og er stúdentsprófs krafist í suma þeirra.

Námsgráður

Námsgráður eru misjafnar á milli háskóla en almennt er boðið upp á svipað nám og á Íslandi: Diploma, Bachelor, Master og Doktorsnám.

Skólagjöld

Skólagjöld eru mjög misjöfn milli skóla, frá um 200 þúsund krónum til hálfrar milljónar á önn. Ef kennt er á ensku má búast við hærri skólagjöldum en ef kennt er á þýsku eða frönsku.

Arnisee, Gurtnellen, Sviss. Mynd tekin af Dino Reichmuth

Leit að námi

Leitarvél á þýsku að námi í Sviss (sláið inn nafn námsgráðu í litla gluggann sem birtist)

Nám á ensku

Flestir svissneskir háskólar bjóða nám á ensku. Hér er yfirlit yfir nám á ensku í níu helstu háskólum landsins.

Hér er önnur leitarvél að námi á ensku

Menntasjóður

Menntasjóður

Veitt er lán til undirbúningsnáms í tungumálinu í eitt misseri (tvo fjórðunga þar sem það á við) en athugið að lánið er bundið því skilyrði að áframhaldandi nám verði stundað í Sviss. Skilyrði fyrir útborgun lánsins er að vottorði um inngöngu í áframhaldandi nám sé skilað inn til lánasjóðsins.

Großer Mythen, Sviss. Mynd tekin af Seb Mooze

Að flytja til

Dvalarleyfi:

Til að fá dvalarleyfi þarf að snúa sér til útlendingaeftirlisins þegar út er komið og framvísa ýmsum skjölum. Þess má geta að fulltrúi frá útlendingaeftirlitinu er oft á staðnum við innritun í háskóla. Skjölin sem þarf að framvísa eru:

  • vegabréf
  • staðfesting um inntöku frá svissneskum háskóla
  • staðfestingu um að viðkomandi geti staðið undir kostnaði við námið, t.d. fjármálavottorð frá Menntasjóði.
  • staðfestingu á heimilisfangi í Sviss.

Best er að kynna sér þessi mál rækilega áður en haldið er út. Til dæmis er ekki sjálfgefið að maki og/eða börn fái dvalarleyfi með námsmanni. Dvalarleyfi er ekki atvinnuleyfi en slíkt leyfi er mjög erfitt að fá í Sviss.

Evrópska sjúkratryggingarkortið gildir í Sviss.

Húsnæði:

Samkvæmt upplýsingum á svissneska vef sem haldið er úti af Organisation of the Swiss abroad (OSA) er mjög erfitt að finna húsnæði í Sviss. Helst er stúdentum ráðlagt að spyrjast fyrir hjá sínum háskóla, skoða smáauglýsingar í dagblöðum og á netinu.

Sendiráð og ræðismenn:

Fastanefnd Íslands er með skrifstofu í Genf og svissneska sendiráðið er í Osló. 

Styrkir

Tenglar