Framhaldsnám erlendis

Með framhaldsnámi er átt við háskólanám eftir grunnnám, þ.e. meistaranám eða doktorsnám. Aðgangskrafa í framhaldsnám er yfirleitt grunnnám (bachelor gráða) í viðkomandi fagi eða skyldu fagi.

  • Í Bretlandi kallast framhaldsnám “Postgraduate” nám.
  • Í Bandaríkjunum kallast framhaldsnám “Graduate” nám. Hér eru upplýsingar um helstu inntökupróf í Bandaríkjunum.
  • Á Norðurlöndunum heitir framhaldsnám oft “kandidatsstudium” eða meistaranám. Í Svíþjóð er kandidatsstudium þó grunnnám.
  • Í sumum löndum Evrópu skiptist námið ekki niður í grunn- og framhaldsnám heldur er 5 – 6 ára nám í einni lotu og að því loknu er tekið lokapróf.

Val á nemendum í meistaranám er yfirleitt í höndum hverrar deildar fyrir sig. Lokaeinkunn í grunnnámi (bachelor gráðu) skiptir miklu máli en gott kynningarbréf (e. motivation letter) sem skýrir hvers vegna viðkomandi velur viðkomandi nám getur einnig haft áhrif á val umsækjenda. Áður en slíkt bréf er skrifað er gott að vera búinn að kynna sér hvað viðkomandi deild/skóli leggur áherslu á og hvað áhugaverðir kennarar þar leggja áherslu á.

Skólar tilgreina alla jafna hvort þurfi að taka inntökupróf á heimasíðum hverrar deildar fyrir sig og þar er líka oftast tekið fram hvert fyrirkomulagið á prófunum er, t.d. hvort prófin séu rafræn eða á staðnum, hvenær þau séu haldin og hvað þau fela í sér.

Einingakerfi

Stefna Bologna áætlunarinnar svokölluðu er að öllu háskólanámi á evrópska efnahagssvæðinu verði skipt upp í þrjár gráður

  1. Bachelorgráða (eftir þriggja ára nám)
  2. Mastersgráða (eftir tveggja ára nám)
  3. Doktorsgráða

Flest Evrópulönd eru búin að taka upp þetta fyrirkomulag og einnig hinar svokölluðu ECTS einingar, þ.e. hvert ár í háskóla er 60 ECTS einingar og tveggja ára framhaldsnám er því 120 einingar. Þó eru ennþá lönd í Evrópu sem hafa ekki tileinkað sér þetta kerfi, til að mynda nota breskir og ítalskir háskólar yfirleitt ekki ECTS einingakerfið. Einingarnar í ítalska kerfinu samsvara þó ECTS einingum, en þær kallast CFU eða CFA.



Top