Með grunnnámi er átt við byrjunarnám á háskólastigi, þ.e. nám til bachelor gráðu. Einnig getur grunnnám átt við um diplómagráðu á grunnstigi sem yfirleitt er eins til tveggja ára nám.
Önnur inntökupróf eru t.d. inn í listaháskóla. Hvort sem hugmyndin er að leggja fyrir sig myndlist, hönnun, arkitektúr, tónlistarnám eða aðra list, þarf yfirleitt að taka inntökupróf og/eða senda verk sín í möppu til skólans sem sótt er um. Einnig er mikilvægt fyrir þau sem hyggjast fara í grunnnám í listnámi erlendis að taka einhver grunnnámskeið í listfögum á framhaldsskólastigi.
Val á námsbraut í framhaldsskóla getur skipt miklu máli. Algengt að þau sem ætla í verkfræði, læknisfræði og önnur fög á Norðurlöndum vanti einingar í stærðfræði, raunvísindum, (eðlis, efnafræði, líffræði) og stundum ensku.
Bachelor gráða tekur yfirleitt 3 ár í Evrópu, en fjögur ár í Bandaríkjunum og þrjú til fjögur ár í Kanada. Aðgangskrafan í grunnnám við erlenda háskóla er oftast stúdentspróf en auk þess getur þurft lágmarkseiningar í einstökum fögum.
Mikil ásókn er í háskóla víða um heim og eru t.d. norrænir háskólar meðal þeirra vinsælustu. Þegar nemendur eru valdir úr hópi umsækjenda er yfirleitt farið eftir meðaleinkunn á stúdentsprófi. Því hærri sem hún er, því meiri eru líkurnar á að komast inn.
Í Danmörku er stundum einnig tekið tillit til starfsreynslu eða einstakra námskeiða á háskólastigi (svonefndur kvóti 2), þó eingöngu ef það tengist viðkomandi námi. Það borgar sig að telja fram allt slíkt sem styrkt getur umsóknina.
Þegar sótt er um grunnnám í Bandaríkjunum fær fólk oft eitt ár, eða jafnvel meira, metið af íslensku stúdentsprófi. Ef sótt er strax um sem “transfer student” er hugsanlegt að viðkomandi sleppi við að taka SAT prófið, í þeim skólum þar sem það er krafa.