Hvað gerir SÍNE?

Samband íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, var stofnað þann 13. ágúst 1961.

Alla tíð síðan hefur félagið starfað að víðtækri hagsmunagæslu fyrir íslenska námsmenn á erlendri grund. SÍNE hefur öðlast traustan sess í íslenska stjórnkerfinu. SÍNE er ábyrgur aðili sem hlustað er á og leitað til um álit á málum er varða námsmenn almennt. Sem SÍNE-félagi getur þú því haft raunveruleg áhrif á mikilvæg málefni.

Málgagn SÍNE, Sæmundur, kemur út  rafrænt 1-2 sinnum á ári. Greinar um hagsmunamál, fréttaannálar úr starfi félagsins og aðrar gagnlegar upplýsingar eru meðal efnis í blaðinu.

Eitt hlutverk SÍNE er að standa vörð um lánakjör íslenskra námsmanna erlendis, m.a. með aðild sinni að stjórn Menntasjóðs námsmanna. Menntasjóður námsmanna, áður LÍN, hefur tengst baráttumálum SÍNE í gegnum tíðina. Í samvinnu við hinar námsmannahreyfingarnar hefur jákvæðum breytingum verið komið til leiðar. SÍNE félagar hafa verið duglegir að koma með ábendingar og hafa leitað til SÍNE með sín áhyggjuefni og vafamál. Þessar ábendingar hafa svo seinna orðið undirstaðan að leiðréttingu á þeirra hag og annarra í sömu stöðu.

Öflugt hagsmunapólítískt starf er forsenda fyrir viðunnandi lánakjörum íslenskra námsmanna erlendis. Því stærri hópur sem stendur að baki SÍNE, því meiri áhrif geta samtökin haft á pólitískar ákvarðanir sem snerta fjárhag hvers og eins.

Reynsla annarra af hagnýtum atriðum varðandi búsetu í öðrum löndum hefur oft orðið til að létta námsfólki á leið út í nám róðurinn. SÍNE getur oft komið tilvonandi námsmönnum í samband við þá sem þegar eru við nám víða um heim, sem gætu veitt námsmönnum upplýsingar.

SÍNE félagar njóta afsláttarkjara við flutning á búslóð erlendis.



Top