Tungumálapróf (TOEFL o.fl.)

Til að komast inn í skóla erlendis þarf getur þurft að sýna fram á tungumálakunnáttu með því að framvísa niðurstöðum úr tungumálaprófum. Misjafnt er eftir skólum hvaða tungumálapróf eru tekin gild og því er gott að kynna sér það vel áður en próf eru valin. Athugið að sum próf er ekki hægt að taka á Íslandi og bjóði þau ekki upp á rafræna möguleika þarf einstaklingur að ferðast til annars lands til að taka prófið. Hér fyrir neðan er listi yfir helstu tungumálapróf:

1. TOEFL – Test of English as a Foreign Language

Skráning í TOEFL prófin fer fram beint í gegnum rafræna skráningarsíðu ETS.org. Nauðsynlegt er að skrá sig minnst 7 dögum fyrir áætlaðan prófdag í rafræn próf, TOEFL IBT – en skráning fyrir staðpróf er alla jafna með meiri fyrirvara. Athugið að greiða þarf fyrir prófin við skráningu. Til þess að geta tekið prófið þarf að skrá sig og kaupa mismunandi dýra pakka. Verðið getur breyst og því er best að athuga á heimasíðu ETS.org.

 • Athugið að greiðslukort þurfa að vera með öryggisvottun hjá viðkomandi kortafyrirtæki; hafið samband við kortafyrirtækin ykkar.

Þau sem vilja biðja um lengri próftíma, t.d. vegna lesblindu eða þurfa sérstakt aðgengi vegna fötlunar, þurfa yfirleitt að sækja um prófin með lengri fyrirvara.

 • Sjá inn á upplýsingasíðu TOEFL. Dæmi eru um að það hafi tekið allt að tvo mánuði að fá slíka umsókn í gegn.

Staðpróf eru haldin hjá PROMENNT, Skeifunni 11b (skrifið Promennt í fellilistan yfir prófsstaði til að velja dagsetningu).

Upplýsingastofa um nám erlendis lánar út kennslubækur fyrir prófið. Borga þarf tryggingagjald þegar bók er tekin að láni (5000 kr.), sem fæst endurgreitt þegar bókinni er skilað. Eingöngu er hægt að borga í peningum og sækja þarf bækurnar í skrifstofu upplýsingastofunnar að Borgartúni 30, 105 Reykjavík.

Á vef Toefl má svo einnig finna æfingapróf.

Prófið skiptist í eftirfarandi hluta:

 1. Lesskilningur (reading) – 60–100 mín.
 2. Hlustun (listening) – 60–90 mín
 3. Munnleg færni (speaking) – 20 mín
 4. Skrifleg færni (writing) – 50 mín. 

2. IELTS -English Language Testing System

Líkt og TOEFL, prófar IELTS stöðu fólks í akademískri ensku. Munurinn á þessum tveimur liggur aðallega í því að munnlegi þáttur prófsins fer fram með prófdómara.

 • Ekki er hægt að taka prófið hér á landi. Íslendingar sem taka prófið hafa þurft að ferðast erlendis til að taka prófið. Í einstaka tilvikum getur verið að skólarnir samþykki önnur tungumálapróf með umsókn en krefjast þess þá oft að IELTS prófið sé tekið við komuna til landsins. Þetta er ekki algilt og því þarf að athuga í hverju tilfelli fyrir sig.

Á vef prófsins má finna upplýsingar um sjálft prófið, dagsetningar prófa á ýmsum stöðum í heiminum og krækju á skráningu.

Prófinu er skipt í fjóra hluta:

 1. Hlustun – 30 mín
 2. Lesskilningur – 60 mín
 3. Skriflegur hluti – 60 mín
 4. Munnlegur hluti – 15 mín

Prófgjaldið er mismunandi eftir því hvar prófið er tekið, 150-200 £.

3. TestDaf – Test Deutsch alt Fremdsprache

Alþjóðlegt þýskupróf, fyrir þá sem ætla í háskólanám til Þýskalands. TestDaF prófið er að öllu jöfnu haldið tvisvar á ári hjá Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands, í apríl og í nóvember. Nánari upplýsingar veitir Tungumálamiðstöð HÍ, Veröld – Hús Vigdísar: 525 4593, ems(hjá)hi.is og TestDaf-Institut.

Skráning í prófið fer fram rafrænt á vef TestDaf.
Mælst er til þess að próftaki fylli vandlega út umsóknareyðublaðið, mjög mikilvægt er að engar upplýsingar vanti.  Ath. að gefa þarf upp vegabréfsnúmer og mæta með vegabréf í prófið.

Upplýsingar um prófgjald má finna á vef tungumálamiðstöðvarinnar eða heimasíðu TestDaf-Institut og er greitt rafrænt við skráningu. Hægt er að greiða með bæði Visa og Master Card.

Upplýsingastofa um nám erlendis lánar út kennslugögn (bók og geisladisk) fyrir TestDaF prófið gegn tryggingagjaldi, 2.500 kr. sem fæst endurgreitt þegar bók er skilað.

Prófinu er skipt í fjóra hluta:

 1. Lesskilningur: Samanstendur af þremur textum þar sem þú átt að sýna fram á að þú skiljir innhald þeirra – 60 mín.
 2. Hlustun: Samanstendur af þremur textum þar sem þú átt að sýna að þú skiljir einnig talaða þýsku – 60 mín.
 3. Skriflegur hluti: Ritgerð – 60 mín.
 4. Munnlegur hluti: Fer stundum fram með prófdómara en annars er talað í míkrófón á tölvu – 30 mín.

4. TCF – Test de connaissance du français

Próf í færni á frönsku sem haldið er úti af franska menntamálaráðuneytinu. Nokkrar mismunandi útgáfur eru til af prófinu og því er mikilvægt að passa að velja þá útgáfu sem skólinn krefst. Á Íslandi er hægt að taka prófið hjá Alliance Française en á vef þeirra má finna nánari upplýsingar um prófið ásamt lista yfir prófdagsetningar.

Prófið skiptist í eftirfarandi hluta:

 1. Munnlegur skilningur
 2. Skriflegur skilningur
 3. Málnotkun/munnleg færni
 4. Skrifleg færni.

Prófgjald er misjafnt, eftir því hversu margir hlutar prófsins eru teknir og best að kynna sér verðið í hverju tilviki fyrir sig.

5. DELF-DALF stöðupróf í frönsku

Alliance Française í Reykjavík býður upp á stöðupróf í frönsku sem erlendu máli til að meta hæfni í tungumálinu, allt frá fyrstu stigum námsins að efri stigum:

 • DELF : vottorð um nám í franskri tungu (A1, A2, B1, B2)
 • DALF : vottorð um ítarlegra nám í franskri tungu (C1, C2)

Nánari upplýsingar um skráningu, dagsetningar og gjald á vefsíðu Alliance Française.

6. SIELE – Servicio Internacional de Evaluación de la Lengua Española

Tungumálamiðstöð HÍ býður nú upp á rafrænt stöðupróf í spænsku: SIELE.
SIELE er alþjóðlegt, rafrænt spænskupróf sem skipulagt er af Instituto Cervantes, Universidad Autónoma de México, Universidad de Salamanca og Universidad de Buenos Aires.

Prófið skiptist í fjóra hluta:

 1. lesskilningur
 2. hlustun
 3. ritun
 4. talmál

Hægt er að taka staka prófhluta eða alla. Prófið tekur mið af Evrópska tungumálarammanum (CEFR).

Skráning og greiðsla prófgjalds fer fram rafrænt á vef SIELE. Prófgjald er misjafnt eftir því hvort allt prófið er tekið eða einungis einstakir hlutar þess.
Nánari upplýsingar hjá Tungumálamiðstöð HÍ , Veröld – Hús Vigdísar: 525 4593, ems(hjá)hi.is.

7. HSK – Hanyu Shuiping Kaoshi

Ef þú hyggur á nám í Kína getur verið nauðsynlegt að taka HSK prófið sem prófar færni þína í kínversku. HSK stigin eru 6. Reikna má með 2 til 3 árum af kínverskunámi til þess að ná stigi 4-5 (sem er gjarnan krafan ef stunda á grunnnám á kínversku). Ef stunda á meistaranám á kínversku er krafan hins vegar 5-6 stig.

Prófgjaldið er misjafnt eftir stigum en frekari upplýsingar um prófin og prófdaga má finna á vef Konfúsíusarstofnunarinnar.

8. CILS – Certificate di Italiano Come Lingua Straniera

Mikilvægt er að hafa góða kunnáttu í ítölsku til að geta stundað háskólanám á Ítalíu. Einstaka listaskólar og viðskiptaháskólar eru þó með nám á ensku og hafa Íslendingar sótt nokkuð í það. Tveir háskólar á Ítalíu eru með sérstakar deildir fyrir útlendinga, sem vilja læra ítölsku, þ.e. háskólinn í Perugia og Siena. Einnig eru fleiri háskólar með ítölsku fyrir útlendinga, en auk þess eru þar í landi Dante Alighieri stofnanir og fjölmargir málaskólar.

Flestir ítalskir háskólar krefjast þess að nemendur hafi ákveðna kunnáttu í ítölsku áður en þeir hefja nám. Háskólarnir veita sjálfir upplýsingar um hvort þeir fara fram á tungumálapróf og þá hvaða próf þeir fara fram á.

CILS prófið er viðurkennt af flestum háskólum. Það skiptist í fimm hluta:

 • hlustun
 • lesskilning
 • ritun
 • munnlega tjáningu
 • samskipti

Taka þarf prófið á Ítalíu. Á vef þess eru engar upplýsingar um hvað kostar að taka prófið.

Önnur sambærileg próf eru:

 • CELI (Certificati di conoscenza della Lingua Italiana)

 • PLIDA (Progetto Lingua Italiana Dante Alighieri)

9. TRKI/TORFL – Test of Russian as a Foreign Language

Prófað er í fjórum hlutum:

 • ritun
 • orðaforði og málfræði
 • lestur
 • hlustun og færni í talmáli

Venjulega fer prófið fram á tveim dögum á mismunandi stöðum. Hér er krækja á Háskólann í Pétursborg þar sem finna má frekari upplýsingar. Prófgjald er 4.200-6.900 rússneskar rúblur, eftir stigum.

10. JLPT – Japanese Language Proficiency Test

Prófið skiptist í þrjá parta:

 1. Þekkingu á tungumálinu (orðaforði og málfræði)
 2. Hlustun
 3. Lesskilningur

Prófið er tekið í sérstökum prófamiðstöðvum (engin þeirra er á Íslandi) á tölvu og er hvorki munnleg né skrifleg færni prófuð. Hér má finna frekari upplýsingar og krækju á skráningu, ásamt upplýsingum um próftökustaði. Prófgjald er í kringum 5.500 japönsk jen en getur verið breytilegt eftir því hvar prófið er tekið.

11. Studieprøven – Dönskupróf fyrir útlendinga 

Í sumum dönskum háskólum er gerð sú krafa að nemendur frá Íslandi taki sérstakt stöðupróf í dönsku (Studieprøven) sem forkröfur í grunnnám. Þetta er vegna þess að grunnnám er oftast kennt á dönsku. Studieprøven er sérstakt próf í dönsku fyrir útlendinga.

Prófið skiptist í

 1. Skriflegan hluta (lesskilning og ritun)
 2. Munnlegan hluta (tal og hlustun)

Þegar prófið er tekið í fyrsta skipti skal sækja um að taka bæði skriflegan og munnlega hluta prófsins. Ef lágmarkseinkunn næst ekki í öðrum hlutanum er hægt að taka sækja um að taka þann hluta aftur. Þess vegna er hægt að bóka prófhlutana í sitt hvoru lagi.

Studieprøven þarf að bóka sérstaklega hjá ákveðnum stofnunum sem bjóða upp á það. Best er að athuga vel hjá þeim háskóla þar sem nemandi hyggst á nám, hvar mælt sé með að taka prófið. Í Kaupmannahöfn er t.d. í boði að taka prófið hjá prófamiðstöðvunum Clavis og UCplus.Top