Algengar spurningar

Hvað er skattaleg heimilisfesti?

Hér er góð vefsíða sem að veitir upplýsingar um skattamál á Norðurlöndunum.

Einnig er gott að kynna sér vefsíðu Ríkisskattstjóra.

Hvað er skattaleg heimilisfesti?
Með skattalegri heimilisfesti eru námsmanni tryggð réttindi til að vera skattlagður eins og hann hefði verið heimilisfastur hér á landi allt árið. Þetta þýðir að við skattlagningu er tekið tillit til þeirra skattafslátta og bóta sem hann hefði átt rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér á landi. Má þar nefna persónuafslátt allt árið, vaxtabætur og barnabætur. Á sama hátt hafa tekjur og eignir erlendis áhrif á skattlagninguna og barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis koma til lækkunar á barnabótum hér á landi.

Hverjir eiga rétt á skattalegri heimilisfesti?
Íslenskur námsmaður sem flutt hefur lögheimili sitt úr landi til að stunda nám erlendis getur sótt um að fá að halda hér á landi skattalegri heimilsfesti, hafi hann verið búsettur hér á landi síðustu 5 árin áður en nám erlendis hófst. Dvelji maki námsmannsins eða börn hans eldri en 16 ára einnig erlendis og dvöl þeirra er bein afleiðing af námi hans, geta þau einnig sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti. Óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði skattalaga um samsköttun.

Nám erlendis sem uppfyllir skilyrði fyrir skattalegri heimilisfesti
Til að halda skattalegri heimilisfesti hér á landi þarf námið sem stundað er erlendis að uppfylla ákveðin skilyrði. Þessi skilyrði eru:
· að stundað sé reglulegt nám í viðurkenndri menntastofnun á framhalds- eða háskólastigi.
· að námið sé ætlað sem aðalstarf.
· að námið sé eigi skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári.

Til náms í þessu sambandi telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda, enda séu skilyrði þau sem sett eru að öðru leyti uppfyllt. Nám í grunnskólum, menntaskólum og sambærilegum menntastofnunum telst ekki til náms í þessu sambandi nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.

Umsókn um skattalega heimilisfesti
Sækja þarf um skattalega heimilisfesti á skattframtali. Ekki er gerð krafa um sérstakt eyðublað heldur nægir að greina frá búsetu erlendis í athugasemdadálki á 1. síðu framtals og vísa í tilskilin gögn sem fylgja eiga framtalinu. Gögnin sem þurfa að fylgja skattframtali eru eftirfarandi:

· Vottorð um nám erlendis. Árlega þarf að leggja fram staðfestingu frá skóla þar sem fram kemur hvaða nám var stundað og hve lengi á tekjuárinu, hvenær nám hófst og áætluð námslok.

· Upplýsingar um tekjur erlendis. Námsmaður og maki hans þurfa að leggja fram staðfestingu um tekjur eða tekjuleysi erlendis frá viðkomandi skattyfirvöldum. Nægilegt er að leggja fram staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram, skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum, erlenda álagningarseðla eða staðfestingu á skattauppgjöri.

· Staðfesting á barnabótum eða sambærilegum greiðslum fengnum erlendis á tekjuárinu.

Námsmenn erlendis fá ekki sent áritað skattframtal. Þurfa þeir eða umboðsmenn þeirra að snúa sér til skattstjóra til að fá nauðsynleg eyðublöð. Á skattframtali þarf að koma fram póstfang námsmannsins erlendis eða umboðsmanns hér á landi og hvert hafi verið síðasta lögheimili námsmanns hér á landi.

Réttindi veitt í eitt ár í senn
Námsmaður sem óskar eftir að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti þarf að sækja um það á framtali fyrir hvert ár á meðan námið er stundað. Á hverju ári þarf að leggja fram nýjar upplýsingar um námið ásamt staðfestingu frá skóla og tekjuvottorði frá skattyfirvöldum erlendis.

Skattstjóri annast ákvörðun
Skattstjóri í því umdæmi þar sem námsmaður og maki hans voru síðast búsettir tekur ákvörðun um rétt námsmanns til að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Almennar reglur um kærur til skattyfirvalda gilda í þessum tilvikum. Ef skattstjóri fellst ekki á að veita skattalega heimilisfesti er skattlagning miðuð við takmarkaða skattskyldu eigi námsmaður eignir eða hafi hér á landi tekjur eftir að lögheimili hefur verið flutt frá landinu.

Tekna aflað erlendis
Afli námsmaður tekna í landi sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við getur hann átt von á því að vera skattlagður í báðum löndum, hafi hann haldið skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Því getur borgað sig fyrir einstaklinga sem reiða sig fyrst og fremst á tekjur sem aflað er í ríki sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við, að sækja ekki um skattalega heimilisfesti hér á landi. Athugið þó að með slíku fyrirgerir viðkomandi rétti sínum til ýmissa bóta og persónuafsláttar hér á landi, auk þess sem hugsanlegar tekjur á Íslandi verða skattlagðar í báðum löndum. Einnig hefur flutningur lögheimilis áhrif á rétt viðkomandi til greiðslna frá almannatryggingum. Því er öllum ráðlagt að kynna sér þessi mál vandlega áður en ákvörðun um slíkt er tekin.

Þau lönd sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við eru:
· Bandaríkin
· Bretland
· Danmörk
· Eistland
· Finnland
· Frakkland
· Færeyjar
· Holland
· Kanada
· Kína
· Lettland
· Noregur)
· Portúgal
· Sviss
· Svíþjóð
· Þýskaland
Unnið er að því að gera samninga við fleiri ríki.

Fleiri spurningar

Top