Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands er námsmaður sem á lögheimili hér á landi og dvelst erlendis við nám áfram tryggður meðan á námi stendur, ef hann er ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Það sama gildir um maka námsmanns og börn.

Einstaklingar sem fara í nám til Norðurlandanna þurfa yfirleitt að taka upp búsetu þar og falla því undir almannatryggingareglur viðkomandi lands. Aðstoð er veitt samkvæmt reglum í viðkomandi landi og getur þjónusta og kostnaður verið ólík milli landa.

Nemendur í Evrópu (EES löndum) utan Norðurlandanna eiga að geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Ef þörf krefur eiga námsmenn og fjölskyldur þeirra rétt á læknishjálp hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi viðkomandi lands í samræmi við EES reglurnar um almannatryggingar en framvísa þarf evrópska sjúkratryggingakortinu til að eiga rétt á því. 

Námsmenn sem stunda nám í löndum utan EES og fjölskyldur þeirra geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Unnt er að fá útgefna tryggingaryfirlýsingu um sjúkratryggingar hér á landi.
Hún er í raun viljayfirlýsing um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í þeim sjúkrakostnaði sem námsmaður kann að verða fyrir á meðan á námi erlendis stendur. Námsmenn, makar þeirra og börn greiða sama verð og einstaklingar greiða fyrir sambærilega heilbrigðisaðstoð hér á landi.

Líklegt er að háskólar t.d. í Bandaríkjunum og Kanada fari fram á það að nemendur kaupi sér auka sjúkratryggingu. Einfaldast er þá að bæta slíkri tryggingu við heimilistryggingu (sína eigin eða foreldra). Nauðsynlegt er því að kynna sér kröfur hvers skóla fyrir sig.