Belgía

Fólksfjöldi: 11,7 milljónir

Tungumál: Franska, flæmska og þýska

Gjaldmiðill: Evra

Höfuðborg: Brussel

Country Flag

Belgía (hollenska: België; franska: Belgique; þýska: Belgien) er konungsríki í Vestur-Evrópu sem á landamæri að Hollandi, Þýskalandi, Lúxemborg og Frakklandi. Auk þess liggur strönd Belgíu að Norðursjó. Belgía liggur á mörkum germönsku og rómönsku Evrópu. Í norðurhluta landsins, Flandri (Vlaanderen), er töluð flæmska (sem er náskyld hollensku), en í syðri hlutanum, Valloníu (Wallonie) er töluð franska. Þýska er töluð í austurhluta landsins. Brussel, hin tvítyngda höfuðborg Belgíu, liggur í Flandri, nálægt mörkum að Vallóníu. Belgía er ein af stofnþjóðum Evrópusambandsins og eru höfuðstöðvar þess í Brussel. Evrópskar höfuðstöðvar NATÓ eru einnig staðsettar í landinu og EFTA samtökin eru með stórt útibú þar.

Að sækja um

Skólaárið í Belgíu hefst í byrjun október og lýkur í lok júní og skiptist í tvö misseri.

Umsóknarfrestur í háskólana í Flandern er yfirleitt 1. maí fyrir næsta skólaár. Ekki er um að ræða neitt sameiginlegt umsóknareyðublað, heldur er umsókn send beint til viðkomandi skóla. Í frönskumælandi háskóla þarf að sýna fram á frönskukunnáttu.

Námsgráður

Háskólar í Flandern: í Flandern eru 33 skólar á háskólastigi, 10 Universiteit og 23 svokallaðir Hogescholen. Stærsti háskólinn er Katholieke Universiteit Leuven með yfir 20.000 stúdenta. Kandidaat kallast fyrsta háskólagráðan, sem tekur 2-3 ár að ljúka. Næsta gráða heitir Licentiaat, 2-3 ára nám eftir Kandidaat. Doctoraat tekur 2-6 ár að loknu Licentiaat.

Háskólar í Vallóníu: Annars vegar er um að ræða Universités, sem eru háskólar með margar deildir og hins vegar Hautes écoles sem eru sérskólar á háskólastigi. Fyrsta gráða er oftast Candidature sem fæst eftir tveggja til þriggja ára nám, síðan Licence eftir 4 til 5 ár. Grade de docteur fæst síðan eftir minnst tvö til sex ár í viðbót við Licence.

Skólagjöld

Skólagjöld eru ekki innheimt í ríkisháskólum í Belgíu, en stúdentar borga innritunargjald sem er yfirleitt á bilinu 500 til 700 evrur fyrir árið.

Belgía. Mynd tekin af Héctor Martínez

Leit að námi

Leit að námi í Flandern     
Háskólanám í Vallóníu
Háskólar í Belgíu – tengingar við heimasíður skólanna. Velja “World listing” og síðan “Belgium”

Nám á ensku

Nærri allt nám í Belgíu fer fram á þjóðtungunum þremur, flæmsku, frönsku og þýsku. Þó má finna allt að 50 námskeið hér á ensku en lesa þarf um hvern skóla fyrir sig.

Menntasjóður

Menntasjóður

Veitt er lán til undirbúningsnáms í tungumálinu í eitt misseri (tvo fjórðunga þar sem það á við) en athugið að lánið er bundið því skilyrði að áframhaldandi nám verði stundað í Belgíu. Skilyrði fyrir útborgun lánsins er að vottorði um inngöngu í áframhaldandi nám sé skilað inn til menntasjóðs.

Grota Markt, Belgía. Mynd tekin af Yannis Papanastasopoulos

Að flytja til

Húsnæði:

Í Brussel er húsnæði dýrt en mun ódýrara í hinum háskólabæjunum. Þó er húsnæði misdýrt eftir hverfum og oft er hægt að fá ódýrt húsnæði í innflytjendahverfunum. Við flesta háskóla eru stúdentagarðar en erfitt er að komast inn á þá, skólarnir reka einnig húsnæðismiðlanir. Almennt er erfitt að fá húsnæði, sérstaklega fyrir fjölskyldur og eru námsmenn hvattir til að finna sér húsnæði áður en skóli hefst. Það má byrja að athuga allt að ári áður.

Sjá einnig CasaSwap.com – International youth & student accommodation network. Hérna geta stúdentar í leit að húsnæði erlendis skráð sig í húsnæðisleit og einnig skráð sitt húsnæði til leigu eða skipta. Casa Swap er styrkt af Evrópusambandinu.

Dvalarleyfi:

Belgía er á Evrópska efnahagssvæðinu og þá gilda eftirfarandi reglur: Þegar komið er út þarf að skrá sig inn í landið innan 8 daga. Þá er mikilvægt að hafa með sér vottorð um skólavist (acceptance letter) og fjárhagsvottorð (t.d. frá Menntasjóði eða banka) um að þú getir fjármagnað dvöl þína í landinu. Einnig er mikilvægt að hafa með sér Evrópska sjúkratryggingakortið, gilt vegabréf og 3-5 vegabréfsmyndir. Ekki þarf sérstakt atvinnuleyfi til að vinna í öðru EES landi.

Sendiráð:

Íslenskt sendiráð er í Brussel en belgíska sendiráðið er í Osló. 

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar