Brasilía
Fólksfjöldi: rúmar 212 milljónir
Tungumál: Portúgalska
Gjaldmiðill: Ríal
Höfuðborg: Brasilía
Sambandslýðveldið Brasilía (República Federativa do Brasil) er stærsta og fjölmennasta land Suður-Ameríku og hið fimmta stærsta í heiminum bæði að flatarmáli og fólksfjölda. Landið er yfir 8.5 milljónir km² að flatamáli og teygir sig frá ströndum Atlantshafsins að rótum Andesfjalla og innan landamæra þess er megnið af Amazon-regnskóginum, stærsta regnskógi heims, en einnig víðáttumikil landbúnaðarsvæði. Strandlína Brasilíu er 7. 367 km löng. Brasilía var portúgölsk nýlenda frá 1500 en síðan 1822 hefur það verið sjálfstætt.
Að sækja um
Margs konar stofnanir teljast til háskólastofnana í Brasilíu; eiginlegir háskólar, háskólasetur, stofnanir fyrir æðri menntun og tækniháskólar. Alls eru þessar stofnanir yfir 2.000 talsins og eru ýmist í opinberri eigu eða einkaeigu. Opinberu skólarnir njóta meira álits og þykja bjóða upp á betri menntun. Námið skiptist ekki upp í einingar eins og þær sem við þekkjum en eitt háskólaár er frá 800 til 1.200 kennslustundir. Skólaárið hefst í mars og því lýkur í desember.
Umsóknafrestur er misjafn milli skóla sem og aðgangskröfur og kröfur um gögn sem þarf að skila. Hafið samband beint við viðkomandi skóla til að fá frekari upplýsingar. Íslenskt stúdentspróf ætti að nægja til inngöngu en þó getur verið að beðið sé um t.d. próf í portúgölsku til þess að sýna fram á málakunnáttu. Eina viðurkennda prófið er CELPE-Bras sem ekki er hægt að taka hér á landi; næsta prófmiðstöðin er við King’s College í London. Nokkrir háskólar bjóða upp á undirbúningsnám fyrir útlendinga í málinu. Hafa ber í huga að nám við opinbera háskóla er fyrst og fremst ætlað landsmönnum og fólki frá nágrannalöndunum og því eru mjög fáir Evrópubúar þar við nám.
Námsgráður
Háskólanám í Brasilíu skiptist í grunnám og framhaldsnám. Í grunnnámi (Bacharelado) er hægt að velja um:
- Hug- og náttúruvísindi sem yfirleitt taka fimm ár.
- Verkfræði sem nær alltaf tekur fimm ár þótt hugbúnaðarverkfræði taki aðeins fjögur.
- Læknisfræði sem tekur sex ár og önnur heilbrigðisvísindi sem taka fimm ár.
- Hjúkrunar- og lyfjafræði sem tekur fimm ár.
- Annað nám sem miðar að starfsréttindum sem yfirleitt tekur fimm ár.
Framhaldsnámið skiptist í:
Stricto sensu viðurkennd framhaldsmenntun sem leiðir til eftirfarandi gráða:
- Mestrado, tekur venjulega 2 ár og byggist á kunnáttu í a.m.k. einu erlendu tungumáli. Lýkur með meistararitgerð og veitir aðgang að doktorsnámi.
- Mestrado Profissional er starfsmiðuð sérhæfing sem nýtur sömu stöðu og Mestrado en veitir ekki aðgang að doktorsnámi.
- Doutorado er doktorsnám sem tekur að lágmarki 2 ár eftir Mestrado.
Lato sensu er ekki talið eiginlegt háskólanám en nýtur eigi að síður mikillar virðingar í einkageiranum. MBA-nám telst til Lato Sensu. Lato Sensu gráða gefur ekki réttindi til að halda áfram í doktorsnám.
Skólagjöld
Opinbert háskólanám í Brasilíu er ókeypis. Nám í einkaskólum er hins vegar mjög dýrt, frá 700.000 ÍSK og upp í 2.800.000 ÍSK á ári.
Leit að námi
Cadastro Nacional de Cursos e Instituições de Educação Superior (Cadastro e-MEC) er brasilísk námsleitarvél. Allar upplýsingar eru á portúgölsku.
Nám á ensku
Nám á ensku heyrir til algerra undantekninga og er það þá fremur í formi einstakra námskeiða en heilla námsleiða.
Menntasjóður
Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur fyrir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt hefur verið fram á innritun í lánshæft nám í framhaldinu í sama landi eða málsvæði. Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Brasilíu. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.
Að flytja til
Dvalarleyfi:
Erlendir nemendur verða að sækja um dvalarleyfi hjá brasilíska sendiráðinu í Osló (sjá hér fyrir neðan) áður en þeir fara til Brasilíu og þurfa þá senda eftirfarandi gögn:
- Vottað ljósriti af vegabréfi sem gildir a.m.k. næstu 6 mánuði. Best er að taka ljósrit og fara með það ásamt vegabréfi til næsta sýslumanns og fá hann til að votta ljósritið.
- Umsóknareyðublað í tvíriti. Hafið samband við sendiráðið til þess að fá eyðublaðið.
- Tvær passamyndir.
- Íslenskt sakavottorð á ensku, ekki eldra en 3 mánaða. Senda þarf frumrit og eitt ljósrit.
- Vottorð þess efnis að viðkomandi hafi ráð á því að búa í landinu meðan á náminu stendur. Hægt er að fá slíka staðfestingu annað hvort hjá Menntasjóði eða viðskiptabanka. Brasilískt yfirvöld taka einnig gilda yfirlýsingu frá foreldrum um að þeir muni sjá fyrir námsmanninum.
- Læknisvottorð.
- Staðfesting á skólavist frá háskóla í Brasilíu. Athugið að þetta þarf að vera skóli sem viðurkenndur er af innlendum yfirvöldum.
Tekið getur dágóðan tíma að fá dvalarleyfi þannig að best er að ganga frá og senda inn umsókn um leið og skólalvist er tryggð.
Innan 30 daga frá komu til landsins þarf að skrá landvist hjá lögregluyfirvöldum . Oft eru þau lögregluembætti sem sjá um slíka skráningu staðsett á alþjóðaflugvöllum en ekki inni í borgunum og því getur verið hentugast að ganga frá skráningunni á flugvellinum um leið og komið er til landsins.
Húsnæði:
Erasmusu – leit að húsnæði í Río de Janeiró
Sendiráð: