Eistland
Fólksfjöldi: 1,3 milljónir
Tungumál: Eistneska
Gjaldmiðill: Evra
Höfuðborg: Tallinn
Eistland hefur verið byggt finnsk-úgrískum þjóðflokkum síðan á forsögulegum tíma. Landið var kristnað af þýskum riddurum og Dönum sem höfðu lagt það undir sig 1227. Erlend ríki sem stjórnað hafa Eistlandi í gegnum söguna eru Danmörk, Svíþjóð, Pólland og Rússland. Eftir hrun Rússneska keisaradæmisins vegna Októberbyltingarinnar lýsti Eistland yfir sjálfstæði sínu þann 24. febrúar 1918. Landið var svo innlimað í Sovétríkin með valdi í júní 1940 og var það eitt af lýðveldum Sovétríkjanna til 20. ágúst 1991 er þau liðu undir lok og Eistland lýsti yfir sjálfstæði sínu á ný. Rússneskur her var í landinu allt til 1994 en síðan þá hefur Eistland nýtt sér nýfengið frelsi til að mynda efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl við vestræn ríki.
Að sækja um
Í Eistlandi eru 6 ríkisháskólar. Sá elsti frá 1632 er Háskólinn í Tartu, sem er sá eini sem býður upp á nám í mörgum deildum. Hinir fimm eru: Lífsvísindaskólinn, Viðskiptaháskólinn, Listaháskólinn, Tækniháskólinn og Háskólinn í Tallinn.
Auk þess er einn háskóli í einkaeigu, 8 sérgreinaskólar í ríkiseigu og 5 einkaskólar á ýmsum sérgreinasviðum.
Oftast er kennt á eistnesku, en nokkuð er um nám kennt á ensku, annað hvort einstaka námskeið eða fullt nám til háskólagráðu (degree programmes) og undanfarið hefur verið talsverð aukning á framboði námsleiða.
Skólaárið í Eistlandi skiptist í tvö misseri, haust- og vormisseri og hefst í september og stendur fram í miðjan júní. Námið er almennt kennt á eistnesku en þó í vaxandi mæli á ensku. Þegar um nám á ensku er að ræða má gera ráð fyrir að þurfa að taka TOEFL próf eða IELTS enskupróf.
Algengur umsóknarfrestur í háskólanám er 1. júlí, það er þó ekki algilt.
Yfirleitt er aðgangskrafa í háskólanám stúdentspróf, en stundum er krafist lágmarksfjölda eininga í einstökum fögum og/eða ákveðna lágmarkseinkunn. Fjöldatakmarkanir eru í háskólana, eins og raunar í flestum löndum. Sótt er um í gegnum vefinn Dream Apply. Prenta skal út umsóknina og senda hana ásamt umbeðnum gögnum til þess háskóla sem er í fyrsta vali.
Námsgráður
Líkt of á Íslandi er fyrsta háskólagráðan bachelor gráða “Bakalaureusekraad”, sem tekur 3-4 ár. “Magistrikraad”, sem tekur 1-2 ár í framhaldi af Bakalaureuseraad. Mastersnáminu lýkur með sérverkefni (magistritöö). “Doktorikraad”, sem er doktorsgráða og tekur um 3-4 ár að ljúka.
Skólagjöld
Skólagjöld í Eistlandi eru á bilinu 1.600 til 7.500 € á ári. Meistaranám getur kostað allt að 11.000 € á ári. Doktorsnám er ókeypis.
Leit að námi
Háskólar í Eistlandi
Gæðaröðun háskóla í Eistlandi
Nám á ensku
Nokkrir háskólar bjóða upp á fullt nám eða einstök námskeið á ensku í Eistlandi (sjá á heimasíðu Study in Estonia) Gera þarf ráð fyrir að þurfa að sýna fram á enskukunnáttu með TOEFL eða IELTS prófi.
Menntasjóður
Námsmenn geta fengið námslán hjá Menntasjóði til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur fyrir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt hefur verið fram á innritun í frekara lánshæft nám í sama landi eða málsvæði.
Að flytja til
Dvalarleyfi:
Ekki þarf vegabréfsáritun inn í Eistland, en þegar komið er út þarf að skrá sig inn í landið og fá dvalarleyfi til að stunda nám. Þá er mikilvægt að hafa með sér vottorð um skólavist (acceptance letter) og fjárhagsvottorð (t.d. frá Menntastofnun eða viðskiptabanka) um að þú getir fjármagnað dvöl þína í landinu. Einnig er mikilvægt að hafa með sér Evrópska sjúkratryggingakortið og gilt vegabréf. Eftir 6 mánaða dvöl færðu síðan sömu réttindi og heimamenn varðandi sjúkratryggingu. Sótt er um dvalarleyfið í gegnum útlendingastofnun þeirra, Citizenchip and Migration Board.
Húsnæði:
Best er að leita upplýsinga hjá skóla sem stunda á nám við um stúdentagarða eða annað húsnæði.
Study in Estonia, upplýsingar á ensku varðandi húsnæðisleit.
Sjá einnig CasaSwap.com – International youth & student accommodation network. Hérna geta stúdentar í leit að húsnæði erlendis skráð sig í húsnæðisleit og einnig skráð sitt húsnæði til leigu eða skipta. Casa Swap er styrkt af Evrópusambandinu.
Sendiráð: