Króatía
Fólksfjöldi: 4 milljónir
Tungumál: Króatíska
Gjaldmiðill: Kuna
Höfuðborg: Zagreb
Króatía er land á Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Slóveníu og Ungverjalandi í norðri, Serbíu í austri og Svartfjallalandi á örstuttum kafla allra syðst. Króatía á einnig landamæri að Bosníu og Hersegóvínu en hún umlykur það land að mestu. Eftir seinni heimstyrjöldina varð Króatía eitt af fylkjum sósíalíska sambandsríkisins Júgóslavíu. Króatía lýsti yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu 1991 eftir að borgarastyrjöldin í Júgóslavíu hófst. Króatía er hátekjuland með háa lífsgæðavísitölu og tveir þriðju vergrar landsframleiðslu liggja í þjónustugeiranum. Iðnframleiðsla er aðallega bundin við skipasmíðar, matvælaframleiðslu, lyfjaframleiðslu,upplýsingatækni, líftækni og timbur. Króatía er líka vinsælt ferðamannaland. Króatía gerðist aðili að Evrópusambandinu árið 2013.
Að sækja um
Í Króatíu eru 7 háskólar, 13 opinberir verknámsskólar á háskólastigi (polytechnics), 3 sambærilegir einkaskólar, 3 opinberir tækniháskólar og 25 einkaskólar á sama sviði.
Skólaárið er frá byrjun október til janúarloka og byrjun mars til júní. Sumarfrí er frá miðjum júní og til loka september. Próf eru í janúar og ágúst.
Útlendingar sækja einkum til Króatíu til að fara í listnám og er Academy of Fine Arts Zabreb þekktasti háskólinn á því sviði.
Sótt er um grunnnám (Bachelor) í gegnum vefgáttina Postani student og meistaranám í gegnum vefgáttina e-Gradani. Allar upplýsingar eru eingöngu á króatísku. Í öllum háskólum eru hins vegar alþjóðaskrifstofur sem veita upplýsingar um það nám sem fram fer á ensku og geta leiðbeint um umsóknarferlið.
Nær allt nám fram á króatísku þó boðið séð upp á einstaka námsgreinar á ensku, þýsku og ungversku. Umtalsverðrar kunnáttu í króatísku er krafist og nauðsynlegt er að leggja fram prófskírteini um kunnáttu í málinu. Hér er krækja á sumarskóla þar sem hægt er að læra króatísku.
Umsókn um framhaldsnám þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
- Ferilskrá
- Afrit af prófskírteinum
- Yfirlit yfir einkunnir úr síðasta námsferli
- Bréf sem útskýrir hvers vegna umsækjandi hafi áhuga á að læra við viðkomandi skóla
- Tvenn meðmæli frá háskóla í heimalandi.
- Prófskírteini úr króatískuprófi – fyrir þá sem ætla að stunda nám á króatísku.
Öll þessi skjöl skulu vera á króatísku (eða ensku ef námið fer fram á ensku), ásamt frumritum á því máli sem þau voru gefin út.
Námsgráður
Tvenns konar menntakerfi er enn við líði í króatískum háskólum:
Gamla kerfið:
- Grunnnám (preddiplomski sveučilišni studij) í króatískum háskólum tekur yfirleitt þrjú ár og einstaka námsleið fjögur ár.
- Framhaldsnám (diplomski sveučilišni studij) er venjulega tvö ár.
- Doktorsnám (poslijediplomski sveučilišni studij) tekur í flestum tilvikum þrjú ár.
Nýja kerfið, sem háskólarnir hafa verið að taka upp smátt og smátt á undanförnum árum:
- Bachelornám
- Meistaranám
- Doktorsnám
Sömu háskólarnir geta notað mismunandi kerfi fyrir ólíkar gráður.
Skólagjöld
Skólagjöld eru mismunandi á milli skóla og best er að hafa samband við viðkomandi skóla til að nálgast upplýsingar.
Leit að námi
Listi yfir háskóla í Króatíu
Leitarvél á ensku að námi í Króatíu
Nám á ensku
Á vefnum Study in Croatia eru upplýsingar og krækjur á það nám sem boðið er upp á á ensku.
Menntasjóður
Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt er fram á innritun í frekara lánshæft nám í sama landi eða málsvæði. Ekki er lánað til tungumálanáms til undirbúnings ef um er að ræða ensku.
Að flytja til
Dvalarleyfi
Ef námsdvöl er styttri en 90 dagar (innan 6 mánaða tímabils) þá þarf ekki að sækja sérstaklega um námsmannadvalarleyfi.
Ef námsdvöl er lengri en 90 dagar þurfa námsmenn hins vegar að staðfesta dvalarleyfi sitt í Króatíu áður en þeir fara þangað í viðeigandi sendiráði. Fyrir Íslendinga þá er það sendiráð Króatíu í Kaupmannahöfn.
Húsnæði
Erfitt getur reynst að finna húsnæði, lítið er um stúdentagarða og leiguhúsnæði er af skornum skammti. Best er að byrja á því að spyrjast fyrir um stúdentagarða í háskólanum. Þess ber þó að geta að aðeins þeir nemendur sem koma til landsins sem skiptistúdentar eiga rétt á því að leigja slík herbergi, aðrir verða að útvega sér húsnæði á almennum markaði.
Hægt er að auglýsa eftir húsnæði í stúdentablöðum og á vefjunum Oglasnik og Njuskolo. Þar eru auglýsingar vitaskuld á króatísku þannig að e.t.v. þarf aðstoð innfæddra. Hér eru svo nokkrir vefir með upplýsingum um húsnæði á ensku:
- Real estate Croatia
- Crozilla
- Rost
- CasaSwap.com – International youth & student accommodation network. Hérna geta stúdentar í leit að húsnæði erlendis skráð sig í húsnæðisleit og einnig skráð sitt húsnæði til leigu eða skipta. Casa Swap er styrkt af Evrópusambandinu.
Sendiráð
Íslenskt sendiráð er í Berlín og króatískt sendiráð í Kaupmannahöfn.