Ungverjaland

Fólksfjöldi: 9,6 milljónir

Tungumál: Ungverska

Gjaldmiðill: Forinta

Höfuðborg: Búdapest

Country Flag

Lýðveldið Ungverjaland (Magyarország) er landlukt ríki í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þúsund km2 að stærð og voru vesturlandamærin að Austurríki jafnframt hluti járntjaldsins. Landið var fyrsta austurevrópska ríkið til að ganga í NATO í mars 1999. 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Fyrir nokkrum árum voru margir Íslendingar við nám í læknisfræði í Ungverjalandi en eftir að skólagjöld voru hækkuð verulega hefur dregið úr aðsókninni.

Að sækja um

Í Ungverjalandi eru 18 ríkisreknir háskólar (Egyetem) en yfir 60 stofnanir sem bjóða upp á háskólamenntun, ýmist reknar af ríkinu, einkareknar eða af kirkjunni. Umsóknarferli er mismunandi á milli skóla. Upplýsingar um umsóknarferlið má nálgast á heimasíðum hvers skóla fyrir sig og sótt er um beint til skóla. Skólaárið hefst yfirleitt í september og því lýkur í maí.

Námsgráður

Flestir háskólarnir hafa þegar skipt námsgráðum í háskólunum skv. Bologna áætluninni, niður í Bachelor-, Master- og Doktorsgráður. Einnig eru nokkrir tækniskólar á háskólastigi sem veita Technikusi Oklevel gráður.  Mikil ásókn er í háskólanám og kemst ekki nema um helmingur allra umsækjenda inn. Íslenskt stúdentspróf er nægilegur undirbúningur en í sum fög eru tekin inntökupróf. Einingar eru gefnar upp í ECTS.

Skólagjöld

Skólagjöld í Ungverjalandi eru há sé kennt á ensku, eða frá 1.3 milljónum til tveggja milljóna króna á ári.

Leit að námi

Listi yfir háskóla í Ungverjalandi
Háskólanám í Ungverjalandi – af síðu menntamálaráðuneytisins. Velja “Higher education” til vinstri og síðan “Higher education programmes”.
Hungary schools – háskólar, sumarskólar, tungumálanám o.fl.

Nám á ensku

Nokkuð er um nám kennt á ensku í Ungverjalandi, t.d. læknisfræði, sálfræði, viðskiptafög, verkfræði o.fl. Hér er að finna nám kennt á enskuHér er einnig annar vefur með upplýsingum um nám á ensku.

Yfirleitt þarf að taka TOEFL enskuprófið til að fá inngöngu í þetta nám. Einnig eru sérstök inntökupróf í heilbrigðiðsfög, s.s. læknisfræðina og dýralækningar.

University of Debrecen-Medical School, læknisfræði – Margir Íslendingar hafa stundað nám við þennan skóla á undanförnum árum. Kennt er á ensku, skólagjöld eru um 16.000 USD á ári. Athugið sérstaklega að þetta er töluvert hærra en Menntasjóður hefur lánað til. Sami skóli býður einnig sumarnám á háskólastigi á ensku í listgreinum og tungumálum.

Menntasjóður

Menntasjóður

Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt er fram á innritun í frekara lánshæft nám í sama landi eða málsvæði. Ekki er lánað til tungumálanáms til undirbúnings ef um er að ræða ensku, dönsku, norsku eða sænsku.

Að flytja til

Dvalarleyfi

Sækja þarf um landvistarleyfi árlega og í fyrsta sinn innan þriggja mánaða eftir komu til landsins. Nauðsynlegt er að framvísa eftirfarandi gögnum:

  • vegabréfi
  • vottorði um skólavist
  • samningi um leigu á húsnæði sem vottað er tveim óvilhöllum aðilum. Ef búið er á stúdentagarði þarf þó ekki þessa votta
  • yfirlit yfir inneign á bankareikningi eða vottorð um námsstyrk
  • evrópska sjúkratyggingakortið
  • sérstök stimpilmerki (Illetékbélyeg) sem fást á pósthúsum að verðmæti 1.000 flórintur

Húsnæði

Stúdentaíbúðir og herbergi

Húsnæði í Debrecen

College International – Housing service, húsnæði fyrir háskólanemendur í Ungverjalandi.

Leigumiðlun í Búdapest.

CasaSwap.com – International youth & student accommodation network. Hérna geta stúdentar í leit að húsnæði erlendis skráð sig í húsnæðisleit og einnig skráð sitt húsnæði til leigu eða skipta. Casa Swap er styrkt af Evrópusambandinu.

Sendiráð

Utanríkisráðuneytið annast sendiráðsstörfin og ungverskt sendiráð er í Osló.

Íslendingafélög

Íslenskir læknanemar í Ungverjalandi halda úti upplýsingasíðum á samfélagsmiðlum. Hægt er að hafa samband við Félag íslenskra læknanema í Ungverjalandi á tölvupóstföngin ungverjaland@ungverjaland.com eða formadur@ungverjaland.com. Einnig er félagið með heimasíðuna www.ungverjaland.com og Facebook síðurnar Félag Íslenskra Læknanema í Ungverjalandi – FÍLU og Verðandi nemar við háskólann í Debrecen.

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar