Fjölmiðlafræði í Boston University

Farabara.is er í samstarfi við SÍNE og þessi frásögn birtist fyrst í Sæmundi, tímarits SÍNE:

,,Ertu klikkuð?” 

,,Hvernig ætlarðu að fara að þessu?”

,,Að sjálfsögðu ferðu út.”

,,Þú verður allt önnur manneskja.”

,,Njóttu.”

,,Hvað ef mér mistekst?”

Allt eru þetta hlutir sem ég heyrði frá mínu nánasta neti eða sagði við sjálfa mig áður en ég ákvað að stökkva til Boston í nám. Það var orðið deginum ljósara að þetta snerist um að hrökkva eða stökkva. Hugsa ,,hvað ef” að eilífu eða láta þetta ganga upp. En hvernig komst ég þangað? 

Heimurinn í háskerpu 

Tengsl mín við Bandaríkin mynduðust árið 2015 þegar ég sótti um sumarnám í félagslegri frumkvöðlafræði í Norður-Karólínu með 35 Evrópubúum og 10 Bandaríkjamönnum. Þetta sumar var eins og vítamínsprauta fyrir mig, ég upplifði nýja menningu, lærði um nýja menningarheima í gegnum samnemendur mína, varð 18 ára og mikilvægast af öllu, steig stór skref í átt að þeirri manneskju sem ég vildi verða. Það var eins og hulunni hefði verið svipt og ég sæi loksins allt í háskerpu. Heimurinn varð allt í einu samtengdari, minni og fallegri, því nú átti ég 45 nýja vini og hófst handa við að safna í alþjóðafjölskylduna mína. 

Sumarið 2018 fékk ég síðan tækifæri til þess að upplifa þetta allt á ný nema í Tennessee. Þá var ég orðin 20 ára, að læra stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og fannst allt vera orðið fremur litlaust aftur. Sumarið kom og enn á ný fylltist lífið af lit og ég, sem og áður, safnaði í alþjóðafjölskylduna mína, en þegar heim var komið í þetta sinn var eitthvað öðruvísi. Í staðinn fyrir þann hefðbundna söknuð sem hafði einkennt sumarlokin 2015 bættist einhver fullvissa, magahnútur og þrjóska. Ég vissi að ég þyrfti að fara út aftur og láta reyna á drauminn sem ég hafði gengið með í maganum síðan 2015. Ég þyrfti að fara í mastersnám í Bandaríkjunum. Það var þó erfiðara en að segja það að ákveða 1. Hvað ég vildi læra 2. Hjá hvaða skólum ég vildi sækja um nám og 3. Hvernig í andskotanum ég ætlaði að fjármagna þetta allt saman. 

Undirbúningsferlið 

Við tók heiftarleg excelskjalagerð, sem ég mæli í raun ekki með fyrir neinn, nema þá allra hörðustu. Þá sem vilja leyfa rúðustrikuðum skjá að soga úr sér allan lífsvilja. En einhvern veginn þurfti ég nú að komast að niðurstöðu. 

Eftir allt of mikla rannsóknarvinnu, þónokkur ofsakvíðaköst, að minnsta kosti þrjár tilvistarkreppur, eitt stykki heimsfaraldur og B.A. ritgerð ákvað ég að ég vildi hefja nám við Boston University í fjölmiðlafræði. Þá var það bara að komast inn, og því meira sem ég lærði um skólann því stressaðri varð ég yfir því að mér yrði hafnað. Þarna byrjaði höfuðið að sogast ofan í niðurfallið. 

,,Segjum að ég komist inn, hvernig á ég að eiga efni á þessu?” 

,,Ég hef ekki einu sinni komið á skólalóðina, hvernig veit ég að þetta sé það sem ég vil?”

,,Hvað ef þetta er bara peningasóun? Ég er að skuldsetja mig til æviloka.”

Þessar hugsanir urðu til þess að ég náði að sannfæra sjálfa mig, yfirmenn mína hjá Vísi.is og allra helst mömmu mína um það að það væri sniðugt að kaupa mér flugmiða til Boston. Til þess að sjá hvort að ég vildi í raun vera þarna, hvort mér myndi nokkuð mislíka svo svakalega að ósýnilegi strengurinn á milli mín og þessa draums myndi slitna. Við vitum öll hvernig það endaði. 

Við tók einhver stærsta sjálfsblekking lífs míns. Ég taldi mér trú um að ég þyrfti ekki að sækja um nema um eitt nám í einum skóla, þetta væri í raun eini skólinn fyrir mig, annars væri draumurinn úti. Svo ég dreif mig í að skella í umsókn, hafði öll gögn tilbúin, undirbjó mig einum of mikið fyrir eitt tíu mínútna myndbandsviðtal og trúði því að þarna hefði ég gjörsamlega neglt þetta. Ég væri að fara að komast inn. 

Og viti menn. 

En þá hófst pappírsvinnan fyrir alvöru. Bólusetningar, læknisvottorð, vegabréfsáritanir, áfangaval, námslán, leigusamningur og svo margt fleira. Þetta ætlaði í raun engan endi að taka, og þegar ég hélt mér væri allri lokið, þegar vegabréfsáritunargáttin lokaðist í áttunda sinn, og ég þurfti að fylla allt út upp á nýtt, tókst þetta. Ég var á leiðinni út. 

Ég taldi niður dagana, setti dótið mitt í geymslu, kvaddi fólkið mitt, sumt því miður að eilífu, og hélt út. Með tárin í augunum og stærsta hnút sem nokkur hefði getað ímyndað sér í maganum. 

Síðan þá eru liðnir tæpir tíu mánuðir. Ég hef grenjað yfir miðvetrarverkefnum, rifist í tímum, hlegið með nýjum vinum. Farið á uppistönd, tónleika, hafnarboltaleiki og í helgarferðir til nærliggjandi ríkja. Ég hef vaxið sem einstaklingur, sem námsmaður, lent á veggjum, flutt inn í íbúð og flutt út. Fengið heimþrá, bölvað Íslandi og dásamað það í sömu setningu, grenjað enn meira yfir námslánum en mest af öllu víkkað sjóndeildarhringinn. 

Allt kemur þetta saman og myndar það sem hafa verið bestu tíu mánuðir lífs míns hingað til. Ég hef stækkað alþjóðafjölskylduna mína til muna, orðið sterkari einstaklingur, sannfærðari um eigin færni og getu og er einhvern veginn farin að taka lífinu eins og það kemur, beint úr pakkanum. 

Ég átta mig þó fyllilega á því að ég sjái síðustu tíu mánuðina í gegnum æpandi bleik sólgleraugu fjarlægðarinnar. Tilbúin til þess að horfa á allt sem einhverja lexíu eða lærdóm. Það er kannski bara allt í lagi? Daglegt amstur og vesen er svo sannarlega ekki horfið. Ég missi enn af almenningssamgöngum, sef yfir mig á verstu tímum, verð lasin í prófatíð og fæ kaldan svita þegar ég hugsa um skólagjöld næstu annar. En þegar öllu er á botninn hvolft og allt hefur verið vegið og metið, myndi ég fylla út öll eyðublöðin þrisvar sinnum til viðbótar, fara í gegnum vegabréfsáritunargáttina óteljandi sinnum og svitna fyrir framan tölurnar í excel skjalinu vikulega, ef það þýddi að ég gæti stundað þetta nám. Upplifað þessa borg. 

Ef þú spyrð mig hvort þú eigir að hrökkva eða stökkva, er svarið mitt alltaf, um ókomna tíð: 

,,Í guðanna bænum stökktu. Það er svo margt gott sem bíður.” 

En það mætti nú samt alveg hækka þak skólagjaldalánsins.