Flautunám á meistarastigi í Pittsburgh, PA

Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Sigríður Hjördís.

 

Ó hversu dásamlegt það var að fá samþykkta inngöngu inn í draumanámið hjá kennara drauma minna í Carnegie Mellon University (CMU) í Pittsburgh. Ég hafði kannski ekki beint slegið því á frest að fara í masternám en stefna mín var óljós eftir útskrift mína úr BA námi á Íslandi árið 2017. Sem hljóðfæranemandi ertu alltaf að elta þá kennara sem veita þér innblástur með spilamennsku sinni, sem Lorna McGhee fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar í Pittsburgh gerir svo sannarlega fyrir mig.

Fyrst var það þannig að ég sæki um mastersnám í Den Haag í Hollandi. Ég er efins með að fá inngöngu og ákveð að senda Lornu tölvupóst, athuga hvort það sé mögulega pláss fyrir mig hjá henni. Ég er svo heppin að prufuspil eru haldin eftir þrjá daga í gegnum zoom og hér er ég í dag. Við fjölskyldan, maðurinn minn og tvö börn, fluttum inn í tóma íbúð í fjölskylduvænu hverfi í Pittsburgh, borðuðum á gólfinu og sváfum á einni dýnu til að byrja með. Við vorum fljót að sanka að okkur húsgögnum og því sem við þurftum þar sem fólkið hér í kring hjálpaði mikið til. Hér fer líka allt út á götu á sunnudögum sem á að henda og oft voru þar gömul húsgögn sem voru vel nothæf sem mátti taka, þú þurftir bara að vera á undan ruslabílnum.

Mikill munur á Íslandi og Bandaríkjunum

Skólinn er stór og er skiptur í margar byggingar og deildir. Almennt er fólkið hér virkilega opið, almennilegt og tekur manni eins og maður er, þó svo ég finni líka fyrir svolítilli yfirborðskenndri kurteisi. Hér er ég ekki að alhæfa en þar sem Kaninn er hræddur um að hann verðir kærður fyrir allt og ekkert þá passa þeir sig að koma vel fram og segja réttu orðin en það er stundum eins og það sé orðið automatískt hjá þeim og þeir meini lítið með því.
Aftur á móti finn ég fyrir miklum skilningi og stuðningi í náminu bæði frá kennurum og samnemendum, sem kemur sér vel þegar maður er í mastersnámi með tvö lítil börn með í för.

Það sem mér finnst mest áberandi hvað varðar menningarmun er alþjóðlegur fjölbreytileiki. Hér er fólk frá öllum heimshornum, og svo skyndibitinn! Þú keyrir ekki í næstu lúgu og pantar þér eitthvað sæmilega hollt að borða, hér erum við að tala um McDonalds og Wendys, sem er sami hluturinn fyrir mér, frekar ógirnilegt. Einnig kemur það mér á óvart hvað Kaninn er aftarlega á merinni með svo margt sem hefur verið að herja á alla jörðina, eins og til dæmis flokkun og endurvinnslu. Einnig er gert ráð fyrir að hér sé allt farið á einkabíl. Heilbrigðiskerfið er að sjálfsögðu allt öðruvísi hér en heima. Þú ert illa staddur ef þú ert ekki tryggður eða átt fullt af pening. Aftur á móti finnst mér Pittsburgh vera frekar framarlega með samfélagslega hjálp. Eldri stelpan mín fær til dæmis að fara frítt í Pre-Kindergarten program þar sem við erum námsmenn í landinu og höfum engar tekjur, þar á meðal er þessi skóli með úrræði fyrir foreldra og börn þeirra sem hafa ekki efni á því að senda þau í einkarekna leikskóla.

 

Þakklæti eftst í huga
Ég er þakklát fyrir að börnin mín fái að kynnast þessum mikla fjölbreytileika sem við sjáum hér. Að fara í nám erlendis fær öll mín meðmæli. Það er ekki hægt að tapa á námi og reynslu erlendis. Peningar koma og fara og ekki er hægt að taka þá með sér í gröfina. Það er reynslan, lærdómurinn og vitneskjan sem situr eftir, sem verður aldrei tekin af manni. Það er það sem skiptir máli. Hvað þá ef þú gengur í gegnum þessa reynslu með maka og/eða fjölskyldu, það er ómetanleg., Maður kynnist uppá nýtt í öllum áskorununum og ég þekki manninn minn og börnin mín betur eftir að við fluttum út.

For people in pyjamas sitting in front of a christmas tree. Two are adults, two are children. The floor is wooden and the walls are beige. They are smiling.