Friðgeir Ásgeirsson Hönnun

1.Segðu mér frá náminu þínu?
Námið sem ég er í heitir ‘Mobile creative’ og þar er hönnun fyrir snjalltæki (síma, úr, spjaldtölvur o.s.frv) kennd. Það er lögð mikil áhersla á skapandi ferla og hvernig nýta má þá í starfi og hugmyndavinnu, einnig er lögð mikil áhersla á að þekkja og skilja sjálfan sig og hvað það er og þýðir að vinna í hóp.
Það eru engir kennarar við skólann heldur eru fengnir inn einstaklingar sem skara framúr á sínu sviði til að halda fyrirlestra. Nemendur ásamt ráðgjafaráði skólans, en ráðgjafaráðið samanstendur af öflugum einstaklingum úr atvinnulífinu, ákveða hvaða áherslur eru lagðar hverju sinni og því eru engin tvö kennsluár eins og námið þróast með faginu.

2.Afhverju ákvaðstu að fara í nám erlendis?
Ég er með tvær háskólagráður fyrir, eina í arkitektúr og aðra í tölvunarfræði. Ég hef unnið í hugbúnaðargeiranum í meira en 10 ár og mér fannst kominn tími til að breyta aðeins til. Ég vildi reyna að sameina betur þessar tvær menntanir sem ég hafði og skapandi hönnunarnám eins og Hyper Island býður uppá var einmitt það sem ég þurfti.

3.Hvernig hefur þér fundist að stunda nám þitt erlendis?
Ég hef áður stundað nám erlendis og ég hef búið í Hollandi á meðan konan mín tók mastersgráðu í sálfræði við háskólann í Maastricht. Það er auðgandi upplifun að búa á nýjum stað og kynnast nýju fólki og nýrri menningu. Hvert sem ég hef komið, hvort sem það er sem ferðalangur eða sem íbúi, tekur fólk manni opnum örmum og býður manni velkomið. Það opnar nýjar víddir og nýja sýn á lífið og tilveruna að hafa séð aðra fleti á mannlegri tilvist en þá sem við höfum heima á Íslandi. Ég get ekki mælt nægilega mikið með því að sækja nám erlendis, kynnast nýrri menningu og læra nýtt tungumál. Hvort sem það er Stokkhólmur eða Singapore

4.Eitthvað sem hefur komið þér á óvart
Hyper Island leggur mikla áherslu á að nemendur læri að þekkja sjálfan sig og hvernig maður bætir sig sem einstakling. Áður en ég byrjaði í skólanum hefði ég afskrifað svona pælingar sem einhverskonar nýaldar þrugl en þetta hefur verið eitt af því sem ég hef lært hvað mest af hér í skólanum og þetta hefur hjálpað mér að fá meira út úr náminu mínu. Skólinn vinnur einnig mikið með hvað það er að vinna í hóp og hvernig maður þróar hópinn og bætir. Það hefur komið mér á óvart hversu öflugt þetta er og í raun nauðsynlegt til að fá sem mest út úr sinni vinnu og þeim sem maður vinnur með. Enda sýnir það sig að nemendur frá þessum skóla eru eftirsóttir í vinnu út um allan heim.

5.Hefur verið erfitt að fjármagna námið þitt?
Nei, ég er heppinn að geta sinnt verkefnum meðfram skólanum og því hef ég ekki þurft á námslánum að halda.

6.Einhverjar skemmtilegar sögur eða atvik sem þú hefur lent í?
Eitt það skemmtilegasta sem ég hef lennt í var þegar við bjuggum í Maastricht í Hollandi á meðan konan mín var í mastersnámi. Ég kynntist fólki sem hafði tekið yfir verksmiðju (hústökufólk) 10 árum áður og breytt henni í listasetur. Þau héldu miklar listasýningar, voru með skapandi listasmiðjur fyrir börnin, brúðuleikhús, ráku veitingahús og ‘eldaðu sjálfur’ kvöldverði ásamt því að reglulega vera með tónleika þar sem þau fengu listamenn hvaðanæfa úr heiminum til að koma og spila í verksmiðjunni. Við fórum oft þangað, bæði út að borða og á tónleika, en líka með börnin. Ég sakna mikið þessa staðar og fyrir mér stendur hann fyrir öllu þeim mikla sköpunarkrafti sem hægt er að leysa úr læðingi ef réttar aðstæður eru skapaðar til þess.

7.Hvar sérðu þig fyrir þér í framtíðinni?
Námið hérna í Hyper Island hefur opnað margar dyr fyrir mig og mér hefur verið boðin vinna út um allan heim á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér en ég er svo heppinn að vinna fyrir eitt skemmtilegasta og framsæknasta fyrirtæki landsins, Meniga, og okkur fjölskyldunni líður vel á Íslandi. Ég fer því aftur til Meniga þegar námi mínu er lokið hér í Svíþjóð. Ef svo ólíklega vill til að ég í framtíðinni fæ leið á Meniga þá bý ég að því að hafa í gegnum nám mitt hérna úti mikið tengslanet sem ég get leitað til vanti mig nýjar áskoranir.

8.Góð ráð handa þeim sem hyggja á nám erlendis?
Það er erfitt að gefa almenn ráð til þeirra sem ætla út í nám þar sem hver einstaklingur og áfangastaður er mismunandi. Besta ráðið sem ég get gefið er að vera óhrædd við að leggja út í nám, jafnvel þó það kosti meira en að vera í námi heima, reynslan og upplifunin af því að læra erlendis er margfalt erfiðisins virði.

Top