Kaospilot nám í Danmörku

Ingibjörg Ferrer, nám í Danmörku

 

1. Hvað kom til að þú valdir að fara í nám erlendis?

Í fyrsta lagi valdi ég að fara í Kaospilotinn vegna þess að þetta var svo spennandi nám, mjög frábruðið því sem ég hafði áður kynnst. Námið er staðsett í Árósum, Danmörku og er byggt á fjórum stoðum, skapandi leiðtoga-, verkefnastjórnunar, viðskiptafræðis og ferlisstjórnunar hönnun. Einnig er námið byggt á því að læra með því að framkvæma. Að því sögðu er hver önn svo að fyrstu tveimur mánuðunum er varið í skólanum þar sem við lesum bækur tengdar önninni og fáum fyrirlesara alls staðar að úr heiminum sem eru sérfræðingar á sínu sviði til að kenna okkur. Þvínæst er einn og hálfur mánuður varinn í að finna fyrirtæki/stofnun til að framkvæma verkefni tengd önninni. Svo eru prófin byggð á þeim verkefnum sem við höfum þreytt, það sem fór vel og verr og skoðað hvað nemandinn lærði á því og tekur með sér frá því. Í öðru lagi fór ég til Danmerkur vegna þess að námið var ekki í boði á Íslandi en ég ætlaði mér aldrei að flytja til Danmerkur sem var samt svo það eina í stöðunni til að fara í drauma námið. Í þriðja lagi þá þráði ég að fytja út og kynnast því að búa í öðru landi.

2. Eyddir þú miklum tíma í undirbúning áður en þú fórst út?

Ég fékk boð um að sækja skólann í apríl 2013 og svo byrjaði skólinn í lok ágúst sama ár. Eftir boðið hófst strax undirbúningurinn sem fólst í að skoða fjárhagsaðstoðir til námsins og finna herbergi/íbúð til að búa í. Ég skoðaði lengi hvort ég gæti tekið SU (danska fjárhagsaðstoðin til náms í Danmörku) þar sem þá höfðu nýlega tekið við ný lög um hver ætti rétt á SU. Síðar komst ég að því að vegna eðli námsins væri það nær ógerlegt. Að því loknu leitaði ég mér allar upplýsingar um það hvernig hlutirnir virka hjá LÍN sem tók mun lengri tíma en ég hefði órað fyrir. En að því loknu fékk ég yndislegan þjónustufulltrúa hjá bankanum mínum til að hjálpa mér og hún er enn alltaf tilbúin þegar ég sendi henni spurningar. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar!
Varðandi íbúð/herbergi, þá tók það einnig mun lengri tíma en ég taldi að það þurfti. Ég skráði mig strax á lista yfir námsíbúðir og leitaði á öllum helstu síðum eftir stað en fékk ekki mitt eigið herbergi fyrr en í september en þá hófst kaflinn “Ingibjörg flytur á milli sjö staða í Árósum”. Það var svo ekki fyrr en í september á síðustu önn(2014) sem ég fékk loks varanlega stúdentaíbúð sem ég er enn í.

3. Hvað stendur upp úr?

Hvar á ég að byrja?! Námið er það sem stendur mest uppúr. Öll flóran af fyrirlesurum sem ég hef kynnst og því sem þau hafa miðlað hefur staðið frammúr mínum væntingum. Uppbygging skólans og þau ferðalög sem tengjast hverju verkefni fyrir sig hefur einnig virkað mjög vel fyrir mig og svalað ferðaþrá minni. Skólinn leggur svo mikið upp úr því að styrkja þig persónuega jafnt og fagmannlega sem hefur reynst mér mjög dýrmætt og þó að það sé ekki opinberlega í námskrá skólans þá er það þó risa stór partur af kennslunni. Einnig eru nemendur skólans og þeirra fjölbreytileiki gefið og kennt mér svo margt.

4. Hvað hefur verið erfiðast?

Í fyrsta lagi hefur mér þótt erfiðast að vera í burtu frá fjölskyldunni þegar erfiðir hlutir hafa skellt á og takast á við það fjarri vandamálunum. í öðru lagi hefur verið erfitt að vera í fjarsambandi en það hefur jafnframt styrkt sambandið mjög. í þriðja lagi tók það mjög á að flytja sjö sinnum á einu ári til að borga ekki næstum öll námslánin í leigu og allt þetta gerði hlutina mjög erfiða við að reyna að vera með allt á hreinu í skólanum.

5. Áttu góð ráð handa þeim sem eru að spá í að fara í nám erlendis?

Ég mæli með því að velja fyrst og fremst það nám sem ykkur langar mest að vera í, síðan kemur borgin/landið. Ef þið eruð ánægð með námið þá verður dvölin mun betri. Reynið að finna íbúð til að búa í með fólki sem er þaðan. Það mun einfalda ykkur að komast inn í menninguna og mun vera greiðari leið til að kynnast fleiri þaðan. Svo myndi ég reyna að tengjast fólki með því að skoða hvort það sé ekki hópur af fólki að stunda þau áhugamál sem talar mest til ykkar. Það var allavega mikilvægt fyrir mig að geta komist út úr skólamenginu og vera með eitthvað sem var aðeins mitt.

6. Annað sem þú vilt koma á framfæri?

Ég mæli eindregið með að fara til útlanda í nám. Sérstaklega til að öðlast reynslu, kynnast fólki frá öðrum löndum og kynnast því landi. Þetta var ein sú besta ákvörðun sem ég hef tekið, að læra erlendis. Það er ekki séns að ég hefði getað lært þetta á Íslandi og ég er eiginlega bara fegin að það hafi ekki verið hægt. Ég gæti ekki verið hamingjusamari með þann stað sem ég er á og ég óska þess að fleiri upplifi þessa snilld sem ég hef upplifað.

Top