Læknisfræði við Syddansk Universitet í Odense, Danmörku.

Frásögn er eftir Rannveigu Dóru Baldursdóttur og birtist fyrst í blaðinuSæmundi, sem gefið er út af SÍNE.

Ég er á mínu fimmta ári í  læknisfræði við Syddansk Universitet í Odense, Danmörku. Þetta er annað árið mitt í SDU þar sem ég tek kandídatshluta læknisfræðinnar. Þar áður lærði ég í Martin, Slóvakíu og kláraði þar það sem svarar til bachelor hluta læknisfræðinnar. Mér finnst ég frekar heppin að hafa náð að skipta þessu langa námi í tvennt, bæði fyrir fjölbreytileika og tækifæri til búa í tveimur mismunandi löndum. Það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir. 

Sá hluti læknisfræðinnar sem ég tók í Slóvakíu var mjög bóklegur og byggði góðan grunn fyrir áframhaldandi nám í Danmörku. Ég fann það þó að námsfyrirkomulagið í Danmörku hentaði mér betur. Á fjórða og fimmta ári eru þessar hefðbundnu haust- og vorannir. Önnunum er skipt í tvær lotur, sem eru byggðar upp af fyrirlestrum, verklegum tímum, umræðutímum og hóptímum. Tvær lotur kandídatsnámsins fara alfarið í verknám, annars vegar sex vikur þar sem verknám fer fram á geðdeild, barnadeild og á heilsugæslu og hinsvegar átta vikur sem skiptast í mánuð á skurðdeild og mánuð á lyflæknisdeild. Sjötta og síðasta árið sker sig svo aðeins úr þar sem fyrri önnin fer í ritgerðarskrif (d. kandidatsspeciale) og sú seinni fer í undirbúningsfyrirlestra og lestur fyrir embættisprófið eða OSCE.  Hægt er að velja á milli rannsóknar-, klíník-, paraklíník- og alþjóðlegs prófíls fyrir kandidatsspeciale, þar sem munurinn liggur í undirbúningi fyrir ritgerðarskrifin. Einnig er hægt vinna stærri rannsókn og taka svokallað prægraduat-ár en þá sækir maður um hálfsárs leyfi til að vinna rannsókn og hliðrar náminu um eina önn. Þessa leið ákvað ég að fara og mun því útskrifast eftir sex og hálfs árs nám. 

Í SDU er urmull af nemendafélögum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi er SAKS (studerendes almene kirurgiske selskab) sem er nemendafélag fyrir læknanema með áhuga á skurðlæknisfræði. Á þeirra vegum eru haldin allskonar námskeið, fyrirlestrar, kanóferðir og ýmislegt fleira. Ég varð virkur meðlimur í SAKS strax á mínu fyrsta ári hér við SDU, og kynntist þar dönskum samnemendum á öllum námsárum. 

Þrátt fyrir að síðasta ár hafi verið töluvert öðruvísi en ég bjóst við þegar ég flutti til Danmerkur og ég sakni þess að hafa ekki verið meira í skólanum, get ég ekki verið annað en hæst ánægð með námið og kennsluna. Nú er því svo komið að árgangurinn minn fær að mæta í um það bil  einn tíma á viku og námið fer að líkjast því sem það var.

Fullorðnast hratt erlendis

Nú hef ég búið erlendis í að verða fimm ár. Það er fátt eins þroskandi eins og að flytja að heiman og þurfa að standa alveg á eigin fótum í fyrsta sinn. Auðvitað getur verið erfitt að koma sér inn í allt þetta praktíska, kannski þarf að læra nýtt tungumál og maður getur fengið heimþrá. En á sama tíma fullorðnast maður hratt, kynnist nýju fólki sem seinna verða manns bestu vinir og fjölskylda á námsárunum. Maður fær tækifæri til að ferðast hagstætt og svo margt fleira jákvætt. Jákvæðu hliðar náms erlendis vega að mínu mati upp á móti þeim neikvæðu. 

Þegar upp er staðið hefði ég ekki viljað fara neina aðra leið í náminu. Síðustu ár hafa mótað mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og kennt mér að takast á við hluti sem ég er nokkuð viss um að ég hefði ekki gert heima í kjallaranum hjá mömmu og pabba. Háskólanám erlendis fær mína hæstu einkunn og ég hvet alla til að nýta sér það!