Meistaranemi í blaðamennsku í Columbia University

Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Ragnhildur Þrastardóttir.

 

Ég finn hvernig hjartað berst hraðar um leið og ég stend upp. Loftið er þungt, þrungið eftirvæntingu og stressi. Hver einasta manneskja í salnum horfir í áttina til mín, rétt eins og ég horfði á þau sem stóðu upp á undan mér. Ég finn hvað ég dauðöfunda þetta fólk. Það gat allt stunið upp úr sér nafni og uppruna án þess að verða sér til skammar. „Það er skiljanlegt. Þetta fólk á líka að vera hérna, annað en ég,“ hugsa ég, áður en ég opna munninn.

 

Það tók mig tvö ár að komast í þennan fyrirlestrasal, miðpunkt Pulitzer byggingarinnar í blaðamannaskóla Columbia. Ég hafði ætlað að sækja um árið áður en hætt við eftir að heimsfaraldur fór af stað.

 

„Ég geri þetta bara á næsta ári,“ hugsaði ég með sjálfri mér og ýtti í burt því sem ég vissi – að faraldurinn var bara átylla til þess að leggja ekki af stað í margra mánaða umsóknarferli sem gæti endað með akademískri höfnun. Ég hafði aldrei upplifað slíkt og var skíthrædd um að þau væru að leita að einhverju alveg sérstöku, sem væri ekki ég. Ég var viss um að höfnunin myndi smjúga inn í vitund mína og verða hluti af því hvernig ég sæi sjálfa mig.

 

„Hver heldur hún eiginlega að hún sé?“ rumdi djúp karlmannsrödd í höfðinu á mér.

 

En mér var ekki hafnað. Þau sögðu: „Gjörðu svo vel og hérna er svo reikningurinn.“ Ég kyngdi, vitandi eftir nokkur ár í stúdentapólitík að Menntasjóður námsmanna myndi aldrei lána mér nóg og sló upp endurfjármögnun húsnæðisláns hjá Íslandsbanka.

 

Pulitzer byggingin er ekki stór en hún getur verið yfirþyrmandi. Um leið og ég steig inn í anddyrið fannst mér ég vera að stíga inn í sögu sem ég væri ekki hluti af. Anddyrið lyktaði af pappír og bleki. Skreytingarnar í loftinu minntu á rómverskar fornminjar. Veggirnir voru skreyttir með útskornum brjóstmyndum af vel hærðum og löngu látnum skólastjórnendum. Svo stóð ég þarna. Agnarsmá og leit um öxl. „Skyldi einhver taka eftir því að ég hafi brotist hingað inn?“ hugsaði ég.

 

Það var ekki beint byggingin sjálf sem framkallaði þessa tilfinningu, frekar námið, sem þau sem þekkja til segja stundum að sé tveggja ára nám kennt á einu.

 

Frá því að ég steig inn í fyrsta tímann í grunnskóla, þá fimm að verða sex, hafði ég upplifað sjálfa mig sem afburðanámsmann. Minn sterkasti þáttur: að skrifa. Þetta voru tveir þættir sem voru mótandi í sjálfsmynd minni. Ég var klár og góður penni. Á fyrstu dögunum í Columbia molnaði þessi mynd mín af sjálfri mér.

 

„Er þetta fyrsta greinin sem þú skrifar?“ spurði prófessorinn minn þegar ég skilaði inn fyrsta verkefninu, grein um geðheilbrigðisuppistand í Brooklyn.

 

Ég svaraði honum ekki, beit bara á jaxlinn og pírði augun í von um að það myndi halda tárunum inni. Ég nefndi ekki að ég hefði starfað við blaðamennsku í nokkur ár og að þessi grein væri fjarri því að vera mín fyrsta.

 

„Ég vildi að þau hefðu fattað að hafna mér,“ hugsaði ég þegar ég lagðist á koddann í 11 fermetra svefnherberginu mínu sem ég greiddi um 200.000 íslenskar krónur fyrir mánaðarlega, um kvöldið. „Þetta voru ekki bara skelfileg mistök fyrir þau,“ hugsaði ég, „heldur líka fyrir mig.“

 

Ég hafði ekki séð drauminn fyrir mér svona. Ég hugsaði um allar milljónirnar sem ég var búin að borga, allar milljónirnar sem ég átti eftir að borga, alla dagana sem ég myndi eyða í burtu frá fjölskyldu og vinum. „Ætti ég kannski bara að fara aftur heim?“ spurði ég sjálfa mig.

 

En ég gerði það ekki.

 

Næsta dag fékk ég mér vínglas með samnemendum mínum. Og þegar ég þorði að nefna að mér liði eins og ég hefði óvart komist inn í námið opnuðust flóðgáttirnar í kringum mig. Fleiri höfðu gengið í gegnum nákvæmlega það sama.

 

Þá klikkaði eitthvað. Því það er svo gott að vera ekki sérstök. Það er hvetjandi tilfinning að vera agnarsmár fiskur í heilu hafi af svipuðum fiskum. Þá áttarðu þig á því að þú þarft einfaldlega að synda áfram.

 

Ég neyddi mig til þess að mæta á alla viðburði sem ég mögulega gat og eyddi óhóflegum tíma þess á milli við ráðhúsið, í Central Park og á Broadway til þess að leita uppi viðmælendur fyrir viðtöl og greinar. Svo sat ég og skrifaði og skrifaði og skrifaði, tók erfiða gagnrýni til mín með herkjum og jákvæðu viðbrögðin frá prófessorunum mínum fóru í kjölfarið að skila sér. Ég fann að ég hafði breyst, að ég var að styrkjast, ekki bara sem blaðamaður heldur líka sem manneskja, standandi algjörlega á eigin fótum í landi sem varð minna ókunnugt með hverjum deginum.

 

Hjartað hætti að hamast þegar ég kynnti mig á ensku. Og einn daginn þegar ég mætti í Pulitzer bygginguna og horfði beint framan í veggmynd af einum af þeim löngu látnu brosti ég til hans. Ég er ekki frá því að hann hafi brosað á móti. Þó svo að stresshnúturinn í maganum hefði ekki losnað að fullu var ég sannfærð um eitt. Ég var á réttum stað. Alla vega í bili.

Columbia University campus photo. Large tree in front of a building