Nám erlendis með styrk frá sendiráði Frakklands

Reynslusaga Patreks birtist fyrst á vefsíðu sendiráðsins og er birt með leyfi höfundar og sendiráðsins.

Ég heiti Patrekur Nordquist Ragnarsson og hlaut námsstyrk frá Franska sendiráðinu fyrir námsárið 2023-2024. Umsóknarferlið fyrir námsstyrkinn var þægilegt og ég kunni vel að meta að fá frönskukennslu frá Alliance Francaise áður en ég fór út. Námsstyrkurinn kom mér að góðum notum og dugði mér fyrir leigu og gott betur. Því tel ég að Franska sendiráðið eigi hrós skilið fyrir þetta flotta framtak!

Ég stundaði meistaranám í fjármálum við HEC Paris sem er einn besti viðskiptaháskóli í Evrópu. Námið hófst í ágúst og ég fékk stúdentaíbúð á vegum skólans sem var mjög rúmgóð og flott. Skólinn er staðsettur u.þ.b. klukkutíma fyrir utan miðborg Parísar og það hafði sína kosti og galla. Skólasvæðið er eitt það stærsta í Evrópu og langflestir nemendur búa á skólasvæðinu sem skapar skemmtilegt andrúmsloft þar sem auðvelt er að kynnast nýju fólki. Skólinn er mjög alþjóðlegur og enska var aðal tungumálið innan skólans. Helstu gallarnir við staðsetninguna er að það er lítið að frétta fyrir utan skólalóðina. Það tekur klukkutíma í lest að komast til Parísar en einnig eru skipulagðar rútuferðir á vegum skólans til Parísar sem voru vinsælar, sérstaklega á föstudags- og laugardagskvöldum.

Námið hófst með mikilli keyrslu á haustönn en ég naut þess mikið að læra frá helstu fræðimönnum í heimi á þessu sviði. Það sem stóð einna helst upp úr var námsferðin sem farin var til London þar sem ég kynntist betur samnemendum mínum og heimsótti helstu fjármálafyrirtæki Evrópu. Allt var þó ekki dans á rósum, því í byrjun október varð mikill eldur í stærsta sal skólans og allt nám færðist yfir á netið í tvær vikur. Sem betur þá fór allt vel og enginn skaðaðist. Vorönnin var aðeins rólegri og þá gafst meiri tími til að skoða sig um og ég fór meðal annars til Étretat í góðra vina hópi. Í heildina litið var námið mjög áhugavert og ég kunni að meta tengingu við atvinnulífið þar sem oft komu reyndir starfsmenn að kenna og segja frá sinni sögu.

Að búa í Frakklandi er frábær reynsla og ég mæli með því við hvern sem er. Ekki er leiðinlegt að geta farið á næsta götuhorn og fengið frábært baguette og croissant. Að lokum vil ég þakka Franska sendiráðinu enn og aftur fyrir þetta frábæra framtak!

A person in a graduation cap and gown with a light blue stole stands on a grassy area with trees in the background, smiling at the camera