Nám í upptökustjórnun í Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi

Viðtal við Hauk Hannes Reynisson

Hvar stundaðir þú námið?
Ég flutti til Svíþjóðar fyrst 2011 og hóf nám í tónsmíðum við Linneus háskólann í Växjö. Árið 2012 komst ég inn í nám í upptökustjórn í sama skóla og útskrifaðist með B.A. gráðu þaðan vorið 2015. Ég hóf svo nám í Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi haustið 2015 og útskrifaðist í júní 2017 með M.A. gráðu í upptökustjórn.

Segðu okkur frá náminu þínu?
Fyrsta árið var 60 ECTS eininga diplómunám í tónlist með áherslu á tónsmíðar. Bachelorsnámið sem ég fór svo í 2012 var upptökustjórn með áherslu á meðal annars upptökur, hljóðblöndun, tónsmíðar, höfundarrétt og fyrirtækjahagfræði fyrir upptökustjóra. Þar fékk ég tækifæri til að læra allt á milli himins og jarðar sem viðkemur upptökustjórn og tónvinnslu. Síðust tvö árin í Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi hef ég einbeitt mér að eigin verkefnum innan upptökustjórnar, en einnig tekið skemmtilega kúrsa í meðal annars tónlistarsálfræði og tónlistarlegri leiðtogaþjálfun. Stærsti kosturinn við mastersnámið var möguleikinn á að fá bæði fjárhagslegan og námslegan stuðning við eigin listræn verkefni sem hafa gefið mér tækifæri til að þróast mikið sem upptökustjóri og tónlistarmaður.

Afhverju ákvaðstu að fara í nám erlendis?
Annarsvegar skortur á möguleikum fyrir sambærilegt nám á Íslandi og einnig einhver þörf til að prófa eitthvað nýtt, sjá heiminn, læra nýtt tungumál og víkka sjóndeildarhringinn.

Hvað réð námsvali?
Ég hef alltaf viljað vinna við tónlist sem hefur einfaldað mér mjög í námsvali alla ævi. Þegar ég var yngri var draumurinn að verða gítarhetja en fljótlega fór ég að finna fyrir áhuga á upptökum og tónsmíðum sem eru einnig aðeins praktískari möguleikar þegar kemur að starfsmöguleikum. Ég sótti um í marga skóla og er mjög þakklátur fyrir að hafa komist inn þar sem ég komst inn því þar fékk ég tækifæri til að prófa mig áfram í ólíkum hlutum sem tengjast tónlist. Það gerði mér kleift að finna mitt aðaláhugasvið og ég sé ekki eftir sekúndu.

Mælir þú með að íslenskir námsmenn fari í nám erlendis? Afhverju?
Auðvitað, því fleiri því betra. Heimurinn er svo mikið stærri en litla Ísland og þó maður fái ekkert annað út úr því þá er svo verðmætt að fá að upplifa menningarmun og að læra að aðlagast einhverju nýju. Í dag sé ég Ísland í nýju samhengi sem hefur ýtt undir gagnrýna hugsun og kennt mér að meta þá kosti sem Ísland hefur (og sömuleiðis sjá ákveðna galla sem ég sá ekki áður).

Áttu góð ráð handa þeim sem hafa áhuga á að stunda nám sitt erlendis?
Ekki reiða þig á enskuna. Ef markmiðið er að læra tungumálið er alveg ,,krúsjal“ að hoppa í djúpu laugina og reyna. Það er engin skömm í að mistakast í fyrstu.
Sömuleiðis hef ég reynt að kynnast menningunni eins og ég mögulega get þannig að ég geti bæði tekið meiri þátt í henni og lært að meta hana enn meira. Ég mæli hiklaust með því að hafa það hugarfar, sama hvert maður fer í nám.

Hvað reyndist erfiðast?
Tungumálið var líklega erfiðast fyrir mig en það var að öllum líkindum afleiðing hræðslunnar við að mistakast. Það tók mig næstum þrjú ár að byrja að þora að tala sænsku þó ég hafi verið farinn að skilja það mesta í kring um mig eftir hálft ár. Þegar ég svo byrjaði að þora kom allt mjög hratt.
Svo var alltaf stressandi að sjá til þess að ná öllum kúrsum til að geta tryggt áframhaldandi aðgang að LÍN. Það gat verið erfitt því kerfið hér er „átómatiserað“ þannig að skólarnir og CSN (sænska Lín) eru samantengd mjög þægilega fyrir sænsku nemendurna. Svíar geta verið örlítið „Kafka“-legir og þess vegna var það yfirleitt svolítið vesen að fá einingarnar inn þannig að ég gat komið þeim til LÍN, en það reddaðist alltaf á endanum.

Eitthvað sem kom á óvart?
Að staðalímynd Íslendinga í Svíþjóð virðist byggast helst á kvikmyndinni Hrafninn flýgur. Margir Svíar sjá þessa mynd í gagnfræðiskóla og flestir muna eftir þeirri fleygu setningu, „Þungur hnífur? Þessi hnífur á að vera þungur“. Sumir upplifa Íslendinga sem forvitnislega „exótískar“ verur en lang flestir vilja bara sýna að þeir geti borið fram „Tungur knífur“.
Einnig varð maður svolítið öfundssjúkur út í námslánakerfið hér sem virðist vera mikið þægilegra fyrir nemendur hér en kerfið heima.

Annað sem þú vilt að komi fram?
Ekki hræðast það að fara í nám erlendis. Að alltaf „play it safe“ er drepleiðinleg leið til að lifa lífinu og ávísun á að maður fái aldrei breiðari mynd af tilverunni en sú sem maður fær á Íslandi. Það er fullt af þekkingu til staðar hinum megin við landsteinana sem er ekki til heima og einhver verður að ná í hana ef við viljum hafa hana á Íslandi.