Nám og fjarnám í Kosta Ríka
Frásögn eftir Kolfinnu Tómasdóttur, birtist fyrst í blaðinu Sæmundi sem gefið er út af SÍNE.
Síðasta vetur rættist langþráður draumur þegar umsókn mín um framhaldsnám í Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna í Kosta Ríka, UPEACE, var samþykkt. Ég hafði sótt um meistaranám í alþjóðalögum og úrlausn deilumála (e. International Law and the Settlement of Disputes) fyrir skólaárið 2020-2021, en þetta framhaldsnám var stór ástæða þess að ég valdi að læra lögfræði við Háskóla Íslands til að byrja með. Tilhökkunin var mikil, en mig grunaði ekki á þessum tímapunkti að ég myndi taka fyrstu önnina á Zoom heima hjá mömmu, en ekki í sumarlandinu fallega.
Stórar hugmyndir á litlu fjalli
Eftir strembna Covid-haustönn með tímamismun sem gerði dagana skrautlega, kom að því í lok síðasta árs að ég omst út og gat mætt í skólann. Friðarháskóli Sameinuðu þjóðanna er staðsettur í El Rodeo, sem er rétt fyrir utan bæinn Ciudad Colón, þar sem ég bý. Ciudad Colón er í um 20 mínútna fjarlægð frá höfuðborg Kosta Ríka, San José. Ciudad Colón skartar fallegum trjám og miklum gróðri og hefur allt til alls, þar á meðal dásamlegan bændamarkað alla þriðjudaga þar sem hægt er að kaupa ferskt grænmeti á góðu verði. Skólarútan sækir nemendur alla morgna, en aksturinn að skólanum er rúmur hálftími. Skólinn sjálfur er staðsettur uppi á litlu fjalli, en mér þykir það táknrænt hvernig við nemendurnir förum saman þangað alla morgna til að stunda fróðlegt nám og undirbúa okkur sem leiðtogar friðar í heiminum.
Í náminu í alþjóðalögum og úrlausn deilumála fæ ég góða innsýn í ólík deilumál innan lögfræðinnar, þ.á.m. á sviði vinnuréttar, hafréttar, efnahagsréttar, lýðræðis, mannréttinda, gerðardómstóla og almennrar úrlausnar deilumála. Ég er sannfærð um að þessi innsýn sé nauðsynleg fyrir þann heim sem við búum í til að tryggja áframhaldandi framþróun. Ég hef mikinn áhuga á stafrænu öryggi, mannréttindum og úrlausn deilumála milli ríkja og hef m.a. mikinn áhuga á að rannsaka frekar einhliða þvingunaraðgerðir milli þjóða, sem og stafræna glæpi og hryðjuverk, en miðlun slíkrar þekkingar frá kennurum UPEACE hefur verið framúrskarandi. Ég ákvað að fara í nám erlendis því ég vildi öðlast dýpri skilning á alþjóðlegu umhverfi. Ég skoðaði marga skóla og ýmsar námsbrautir, en kom alltaf aftur að alþjóðalögum í UPEACE og þeirri nálgun sem skólinn hefur gagnvart náminu. Að læra við háskóla sem leggur áherslu á mannréttindi og frið í öllum deildum námsins gerir upplifunina einstaka, en heildræna nálgunin með frið og úrlausn átaka sem rauða þráðinn í gegnum námið hefur verið ómetanleg. Viðhorf mitt til alþjóðamála hefur þroskast mikið og ég hlakka til að beita þekkingu minni í atvinnulífinu. Námsframboð skólans er fjölbreytt og áhugavert, en ég hef einnig fengið að sitja kúrsa í öðrum deildum.
Ný sýn á heiminn
Lagadeildin hér úti telur 20 einstaklinga frá 14 löndum, en í öllum skólanum erum við um 90 nemar frá 60 löndum. Kennararnir koma allsstaðar að, en við fáum einnig marga gestakennara sem eru sérfræðingar á heimsvísu á sínu sviði. Ég áttaði mig snemma á því að á þessu ári myndi ég ekki einungis læra mikið í krefjandi námi á öðru tungumáli, heldur hversu mikið ég myndi læra af samnemendum mínum frá öðrum menningarheimum. Það varð ljóst strax fyrstu vikuna í náminu þegar nemendur áttu að nefna helstu deilumálin í fjölmiðlum heima hjá sér þar sem nemandi frá Cameroon talaði um mánudags útgöngubannið og nemandi frá Nígeríu lýsti mótmælum sem voru orðin verulega ofbeldisfull – en á sama tíma var helsta deilumálið í fjölmiðlum á Íslandi um hvort það ætti að malbika veg í Öskjuhlíðinni eða ekki. Á svipstundu bliknuðu deilurnar sem ég upplifði í samanburði við daglegt brauð samnemenda minna. Til að byrja með átti ég mjög erfitt með fjalla um deilumál innan Íslands, en eftir því sem leið á námið fann ég styrk í því að Ísland sé friðsælt og að þar ríki mesta jafnrétti í heimi, þrátt fyrir að við eigum enn langt í land. Það eru nokkrir nemendur frá Myanmar í fjarnámi frá skólanum, en í hræðilegu ástandi þar hefur verið ótrúlegt að fylgjast með seiglu þeirra.
Staða námsmanna erlendis oft erfið
Það kom mér á óvart hversu erfið staða námsmanna erlendis er ef horft er til framkvæmdar Menntasjóðs námsmanna. Til að mynda fæ ég einungis greitt námslán fram í maí, en námið er fram í miðjan júní. Lokaverkefnið sem ég sinni í haust er svo ekki lánshæft, því það er ekki nægilega margar einingar. Samt sem áður er lokaverkefnið héðan full vinna í þrjá mánuði. Ég sé því fram á að vera framfærslulaus síðustu fjóra mánuðina af náminu, bara því reglurnar eru þannig. Ég vil taka fram að þetta er ekki tekjutengt, heldur eru reglurnar svona. Ég fékk greiddan ferðastyrk þegar ég kom út, en hann náði ekki yfir flugmiðann hingað til Kosta Ríka, og ég fæ engan ferðastyrk fyrir leiðinni heim. Ég treysti því sterklega á endurgreiðslu frá RSK í júní og geng hratt á þann litla sparisjóð sem ég á. Það er virkilega dapurlegt að námsmenn séu settir í aftursætið þegar kemur að því að þurfa að lifa, en það er því miður ekki nýtt af nálinni. Barátta SÍNE er hér gríðarlega mikilvæg til að bæta stöðu íslenskra námsmanna erlendis.
Tico-time
Í námi erlendis er mikilvægt að vera með góða tryggingu ef eitthvað kemur uppá, en vera líka með nauðsynlega hluti meðferðis, eins og lyf og þess háttar, en það er ekki endilega auðvelt að senda slíkt milli landa. Eitt það mikilvægasta er þó að vera opin fyrir nýjum gildum og ólíkum menningarheimum, og skilja hversu ólík við erum. Árekstrar vegna tungumálaörðugleika eða mismunandi upplifana geta komið frá ólíklegustu athæfum, en það þykir t.d. virkilega dónalegt að benda í sumum löndum, á meðan Íslendingar hika oft ekki við það. Öryggið sem við búum við á Íslandi, bæði í gegnum hin ýmsu kerfi sem og minni líkur á hættulegri árás, gera það að verkum að við getum verið berskjaldaðri fyrir ýmsum ókvæðum annars staðar. Í Kosta Ríka gengur allt á öðru tempói en heima, en hið svokallaða „tico-time“ felur í sér að fólk er alls ekki að drífa sig og er almennt seint þegar það mælir sér mót. Það tók mig t.d. tvo klukkutíma að fá SIM-kort hér, þrátt fyrir að enginn annar kúnni hafi verið í búðinni, og ég hafi verið með öll rétt gögn klár. Þú getur reiknað með að þjónn á veitingastað taki pantanirnar hjá öllum gestum og spjalli við þá í leiðinni, áður en hann sendir þína pöntun inn í eldhús. Rútu- og strætó dagskrá getur verið óáreiðanleg, og kóríander er vinsæll í matargerð hér. Mikilvægast af öllu er þó að vera vel undirbúin og fara út með opinn hug fyrir nýjum ævintýrum, því þetta verður magnað.
Þroskandi reynsla
Námið við UPEACE hefur verið gríðarlega gefandi og undir lok skólaársins get ég með sanni sagt að þetta nám hefur haft mikil áhrif á sýn mína á heiminn og hvernig ég mun í framtíðinni leysa úr hinum ýmsu deilumálum í starfi og einkalífi. Ég er sannfærð um að þessi óvænta reynsla haustannarinnar á Zoom og upplifun af Covid í nýju landi muni gera mig sterkari og þakklátari fyrir lífið og tilveruna og ég hlakka til að læra meira. Ég hvet íslenska námsmenn eindregið til að sækja nám á framandi slóðum, en lærdómurinn sem fylgir nýju umhverfi er ómetanlegur. Það er einstaklega þroskandi að kynnast fjölda fólks frá ólíkum löndum og læra af þeim, en vináttan sem myndast í jafn fjölbreyttu námsumhverfi er ómetanleg.