Réttur námsmanna á Norðurlöndum
Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðasamstarf í heimi. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð eiga aðild að samstarfinu, auk sjálfstjórnarsvæðanna Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og hefur mikið vægi í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Í sameiningu er unnið að því að styrkja stöðu Norðurlanda í sterkri Evrópu. Norræna samstarfið miðar að því að efla hag og gildismat Norðurlanda í hnattrænum heimi. Sameiginleg gildi styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra landsvæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.
Norræna ráðherranefndin rekur góða vefsíðu sem gagnast vel þeim sem hyggja á flutninga á milli Norðurlandanna á öllum tungumálum þjóðanna. Aðgengileg og upplýsandi vefsíða: www.hallonorden.is
Réttur námsmanna – þegar upp koma alvarleg veikindi eða slys.
Mikilvægt er að hafa í huga að reglur og lög geta verið mismunandi eftir löndum og því vert að kynna sér málin vel áður en tekin er ákvörðun um flutning. Þegar námsmaður ákveður að flytja til Norðurlandanna þarf hann að huga að því að nauðsynlegt er að flytja lögheimilið sitt til þess lands þar sem stundað er nám. Ef námsmaður ákveður hins vegar að flytja til annarra landa Evrópu þarf hann ekki að flytja lögheimilið sitt til þess lands á meðan á námi stendur. Það að flytja lögheimilið sitt frá Íslandi getur haft ýmiskonar áhrif, til að mynda á rétt einstaklinga í almannatryggingakerfinu á Íslandi.
Ef svo illa vill til að námsmaður veikist eða slasast í námslandinu og þarf að þeim sökum á endurhæfingu að halda til að geta haldið áfram námi getur hann sótt um að fara í endurhæfingu á Íslandi en viðkomandi á að öllum líkindum engan rétt á endurhæfingarlífeyri þar sem hann var ekki með skráð lögheimili á Íslandi og verður því að bíða í 3 ár eftir því að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri.
Raunverulegt dæmi:
Drífa er 25 ára gömul kona, sem fékk synjun um endurhæfingarlífeyri hjá TR á grundvelli þess að hafa ekki verið búsett á Íslandi síðustu 3 ár fyrir umsókn. Drífa er fædd og uppalin á Íslandi en fór í nám erlendis þegar hún var rúmlega tvítug. Sökum þess að hún fór í nám til eins af Norðurlöndunum þurfti hún að flytja lögheimili sitt til námslandsins. Eftir að Drífa hóf nám hrakaði heilsu hennar mjög hratt og hún varð að minnka námið og loks hætta því. Hún komst ekki í endurhæfingu í námslandinu og flutti til Íslands, en þá hafði hún verið með lögheimili erlendis í 1 og ½ ár. Hún hefur engar aðrar tekjur en fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins og er gert að bíða eftir endurhæfingu þar til 3 ár eru liðin frá því hún flutti lögheimilið aftur til Íslands. Hún á ekki rétt á endurhæfingarlífeyri frá námslandinu.
Ef einstaklingur sem búsettur hefur verið erlendis fær úrskurðað örorkumat á Íslandi þá er það langt frá því að vera öruggt að viðkomandi fái greiðslur á móti búsetutímanum sínum á Íslandi metið í landinu sem búið var í. Ekkert samráð er á milli landa um örorkumat‚ hvorki innan Norðurlanda né Evrópu. Sérhvert land‚ þar sem einstaklingur hefur starfað‚ metur umsókn hans í samræmi við eigin reglur. Reglurnar eru það ólíkar eftir löndum að einstaklingur getur fengið örorkulífeyri í einu landi en verið synjað um hann í öðru landi.
Raunverulegt dæmi:
Fanney er 38 ára gömul kona, sem stundaði nám og bjó í 10 ár á einu Norðurlandanna eftir 18 ára aldur. Hún fékk örorkumat rúmu ári eftir að hún flutti aftur til Íslands. Fanney er með 56% búsetuhlutfall og mun það vera óbreytt á meðan hún fær lífeyrisgreiðslur frá TR. Fanney fær engar greiðslur frá fyrra búsetulandi, en í því landi geta einstaklingar yngri en 40 ára ekki fengið örorkumat. Þessum einstaklingum er ætlað að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði (flex job) fyrir fólk með skerta starfsgetu. Fanney býr á Íslandi og getur af þeirri ástæðu einni ekki nýtt sér „flex job“. Fanney hefur eingöngu búsetuskertan örorkulífeyri frá TR til framfærslu eða um 165 þúsund kr. á mánuði.
Valdís Ösp Árnadóttir
Verkefnisstjóri Halló Norðurlönd
Upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar
Raunverulegu dæmin eru unnin af vinnuhóp um endurskoðun búsetuskerðingar.