Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir og Friðrik Salvar Bjarnason létu draum sinn rætast og stunduðu nám í Bandaríkjunum.
Sigurlín:
Ég valdi Bandaríkin af því skólinn sem ég hafði áhuga á er þar og hann er á tveimur stöðum New York og Los Angeles. Ég valdi Los Angeles því hún er talin vera borg kvikmyndanna og ég vildi sérhæfa mig í kvikmyndaförðun og auðvitað var veðrið ekki að spilla fyrir manni. LA hefur líka alltaf heillað mig en ég hafði samt aldrei komið þangað áður, en þessi borg heillaði mig upp úr skónum.
Ferlið mitt byrjaði allt árið 2011 en þá fór ég fyrst að íhuga að fara nám til Bandaríkjanna en var þá í snyrtifræðinni hér á Íslandi. Ég hafði svakalegan áhuga á förðun og vildi fara út í förðunarnám. Árið 2012 tók ég þá ákvörðun að hætta í snyrtifræðinni. Ég byrjaði í fullri vinnu til þess að safna og á meðan var ég að ákveða í hvaða skóla ég vildi fara. Ég hafði alltaf viljað fara í Make up Designory skólann að taka Masterinn og hafði einnig tvo aðra skóla í huga. Næst var að fá lán frá LÍN og eini skólinn sem kom til greina var Make up Designory því hann er viðurkenndur á háskólastigi. Þetta var langt ferli enn komst í gegn, þá kom að því að sækja um hjá Make up Designory það var í raun ekki eins erfitt og ég hélt bara svolítil vinna. September 2012 kom að flutningum sem var bæði spennandi og líka smá hræðsla að flytja frá Íslandi í stórborg. Við fluttum fyrst inn á hótel nálægt Hollywood blvrd þar sem við leigðum hótel herbergi í mánuð og fórum svo að leita að íbúðum í nágrenninu. Við völdum Hollywood blvrd því það var nálægt skólanum hans Friðriks og líka lestastöðinni sem var mjög þægilegt fyrir mig því ég þurfti að taka lest og strætó til þess að komast í skólann minn sem er í Burbank. Á sama tíma og við gistum á hótelinu vorum við alltaf að leita að íbúð þar sem við vildum endilega vera á þessu svæði. Við löbbuðum bara hring um hverfið og það voru skilti út um allt um að það væri lausar íbúðir. Við fundum loks frábæra íbúð á Orchid avenue sem er beint fyrir aftan Chinese Theater sem er frábær staðsetning sem er reyndar á túrista svæði enn það skipti okkur engu máli því það var mjög fínt að vera þar.
Námið var æðislegt og sé alls ekki eftir því að hafa drifið mig í það. Náminu var skipt í nokkra flokka og byrjaði á beauty 101 og svo framvegis. Ég var mest spennt yfir ,,special effects 101″ og ,,special effects 201″, þar sem ég byrjaði að læra að búa til allt frá marblettum, skeggi og út í það að búa til sár. Lokaverkefnið fólst í því að búa til m.a. karakter og það er það sem ég er stoltust af. Þetta var mjög krefjandi verkefni sem tók mig 3 vikur að búa til frá grunni. Við byrjuðum á því að taka mót af módelinu okkar og þegar við vorum komin með mót kom að því að búa til karakter. Við notuðum leir til þess að móta og á endanum var þetta ,,full head silicone piece” sem er oft notað í stórum kvikmyndum eins og t.d. Lord of the Rings og Star Wars. Það sem gjörsamlega breytir karakternum er sílíkón sem er rosalega hreyfanlegt efni og þannig verður förðunin ekki gervileg. Í seinasta tímanum mínum var myndataka á lokaverkefninu og fékk ég einkunnina A fyrir verkefnið mitt
Það skemtilegasta við þetta var auðvitað bara allt við Los Angeles og námið, veðrið var alltaf æðislegt og það var bara svo margt að gera og skoða. Auðvitað var líka gaman að kynnast fullt af æðislegu fólki, kennurum, skólafélögum, einnig fékk ég einstakt tækifæri á að hitta mjög virta og fræga förðunarfræðinga og var það allt skólanum mínum að þakka. Þau voru oft með fyrirlestra eftir skóla og þekktir förðunarfræðingar komu til þess að segja frá ferli sínum. Skemmtilegast var að fá að hitta Kazuhiro Tsuji sem var hægri hönd Dick Smith og vann við förðun í t.d. kvikmyndunum How the Grinch stole christmas, Tron og The curious case of Benjamin Button. Það erfiðasta við allt þetta ferli var pottþétt byrjunarstigið að sækja um hjá Lín sem var frekar langt ferli og ég var oft á tíðum stressuð um að ég gæti ekki elt drauminn minn. En þetta gekk auðvitað allt saman og ég gæti ekki verið sáttari.
Í dag bý ég á Íslandi, ég útskrifaðist frá Make up Designory Master class og eftir að ég kom heim hef ég verið að vinna sem ,,freelance” förðunarfræðingur að vinna fyrir myndatökur, auglýsingar, kvikmyndir og Borgarleikhúsið.
Ég hef alltaf sagt við fólk sem spyr mig hvort þetta sé þess virði að fara út í nám og mitt svar er að já þetta er svo þess virði og ég mæli með því að ef einhver er að pæla í námi erlendis að skella sér af stað.
Friðrik:
Tók það langan tíma frá því að þið tókuð ákvörðun að fara í nám þangað til að þið voruð komin út? Var flókið að sækja um?
Ég var búinn að vera með þessa hugmynd lengi áður en ég ákvað loks að hefja umsóknarferlið en það hófst rúmu ári áður en ég byrjaði í skólanum. Ég hafði samband við LÍN um sumarið 2011 og eftir að hafa fengið jákvæð svör frá þeim um lánshæfi skólans þá hófst umsóknarferlið hjá skólanum sjálfum. Það tók u.þ.b. 3 mánuði frá því að ég hafði fyrst samband við skólann og að ég fékk jákvætt svar frá þeim. Þá hófst í raun bið eftir því að komast út.
3.Eitthvað sem kom ykkur á óvart?
Það sem kom mér mest á óvart snéri aðallega að LÍN og hversu erfitt það var að fá lánið í gegn. En eftir að hafa verið kominn með alla pappíra frá skólanum í febrúar þá var það ekki fyrr en í ágúst sem LÍN afgreiddi allt. Það gerði það að verkum að ég var á síðustu stundu að útvega landvistarleyfi, panta flug og gera allskyns ráðstafanir sem ekki var hægt að gera fyrr en að allt var 100% staðfest.
4.Voruð þið ánægð með námið og skólana?
Ég var mjög ánægður með uppsetningu námsins því vikan skiptist þannig að mánudaga til miðvikudaga var maður í hefðbundnum tímum þar sem farið var yfir allt námsefnið en fimmtudagar og föstudagar voru ætlaðir starfsnámi hjá fyrirtæki í tónlistarbransanum. Ég var svo heppinn að ég var frekar fljótur að koma mér fyrir hjá miðasölufyrirtæki í Santa Monica þar sem mér var vel tekið og varð partur af hópnum.
5.Mæli þið með því að fólk fari í nám erlendis?
Já alveg hiklaust. Þetta víkkar sjóndeildarhringinn hjá manni og þetta er reynsla sem er alveg gífurlega gott að eiga til framtíðar. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég hafði flutt frá mömmu og pabba og kannski skrítið að vera bara einn með kærustunni á jólunnum en Skype og Facebook gerði það að verkum að manni fannst maður aldrei missa tengsl við neinn heima á íslandi.
6.Hvað hefur verið erfiðast/skemmtilegast?
Það er svo rosalega margt skemmtilegt sem fylgir því að vera 21 árs í Los Angeles. Maður var að fara á körfuboltaleiki, tónleika, leigja sér blæjubíl til þess að keyra á ströndina, labba fram hjá frumsýningum bíómynda í nánast hverri viku. Þannig að það er erfitt að nefna eitthvað eitt atriði. Það má segja að heildarupplifunin hafi verið það skemmtilegasta.