Sjálfboðastarf erlendis – Þýskaland
Hafþór Freyr Líndal segir frá:
Eins og svo mörgum öðrum samnemum mínum langaði mig að loknu stúdentprófi að byrja nýtt og spennandi líf erlendis. Það var einhvern veginn á allra vörum; sumum langaði að ferðast, öðrum langaði að flytja og sumir vildu eitthvað allt annað. Það sem við áttum flest sameiginlegt er að við töluðum endalaust um það en fæstir stigu út fyrir þægindarammann og ganga svo langt að leggja nógu mikla vinnu á sig til að láta drauminn erlendis verða að raunveruleika.
Ég vildi sjálfur ekki vera hluti af þessum meirihluta. Ég hafði sjálfur farið ári fyrr í framhaldsskóla og fannst mér ég hafa unnið mér inn eitt ár í frí. Þar af leiðandi byrjaði leitin að rétta tækifærinu um leið og ég byrjaði í framhaldsskóla. Þegar um hálft ár var til stefnu var tími til kominn að láta vaða þurfti og taka ákvörðun um hvað ég vildi gera. Ég var sjálfur fallinn fyrir EVS prógraminu. Ég dæmi ekki þá sem vildu eyða himinháum upphæðum í ýmisskonar rándýra afþreyingu út í heimi en mér fannst EVS hitta algjörlega í mark; allur nauðsynlegur kostaður s.s. ferðalög, uppihald, vasapenininga, tungumálaskóli, námskeið er dekkaður, prógramið er öruggt og það leit út fyrir að bjóða upp á fjölmörg tækifæri og kosti sem aðrir möguleikar, sem ég hafði líka hugleitt, buðu ekki upp á.
Ég hafði sjálfur heillast mikið að Þýskalandi frá því að ég kynnist Þjóðverja á leikskólaaldri og eftir að ég byrjaði sjálfur í þýsku í framhaldsskóla var ekki aftur snúið. Umsóknarferlið gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig, eins og fátt sem ég kem nálægt, þó ég hafi byrjað tímanlega. Ég var búinn að finna mér nokkur draumaverkefni og kominn vel á veg í umsóknarferlinu en án þess að vita af var ég ekki lengur með neitt í höndum örfáum dögum fyrir umsóknarfrest. Ég var hins vegar staðráðinn í að ná markmiði mínu og með aðstoð og snöggum viðbrögðum Alþjóðlegra ungmennaskipta fann ég eitt laust verkefni á lokasprettinum sem ég gat hugsað mér að sækja um.
Þetta var svona allt eða ekkert tilboð sem ég vildi alls ekki sleppa, þó þetta væri fyrir mér talsverð óvissa. Innan við mánuði fyrir brottför bárust mér þær fréttir að umsóknin mín væri samþykkt. Þegar maður þarf að pakka saman eigin líf á Íslandi og pakka öllu saman í litla tösku sem maður gæti þurft á að halda fyrir eitt ár voru nokkrar vikur í undirbúning verulega stuttur tími og þar af leiðandi mikið stress. Það var ekki fyrr en ég stóð á lestarstöðinni í Nidda og beið eftir að vera sóttur þar sem mér gafst tími til að hugleiða og átta mig á að ég vissi í raun ekkert hvað ég væri búinn að koma mér úti og hvers mætti vænta á komandi mánuðum.
EVS verkefnið sem ég hafði fundið mér var í litlum smábæ nærri Frankfurt. Þetta var barnaheimili þar sem 40 börn áttu fasta búsetu. Hópurinn var mjög breiður; þriðjungur áttu við fötlun að stríða, annar þriðjungur við mikla einhverfu og síðan voru börn á vegum barnaverndar sem höfðu verið tekin af heimilum sínum. Voru þau á aldrinum 3ja til 22ja ára.
Barnaheimilið hefur tekið á móti allt að tveimur sjálfboðaliðum á ári í rúmlega 35 ár og því hefur verið vel búið um þá sem þar koma. Mín helstu verkefni snéru að daglegri vinnu með íbúum en mitt stærsta verkefni var að skipuleggja ýmisskonar þjálfanir, æfingar og sérverkefni í samráði við fagaðila. Dæmi um verkefni voru þjálfanir til athafna í daglegu lífi s.s. lestarferðaræfingar (kaldhæðnislegt að fá einhvern frá landi þar sem engar lestar eru að vinna fyrir verkefnið), stoðæfingar til að bæta hæfni sem miðar að veikleikum einstaklinganna og þátttaka í verkefnum og ferðum á vegum þroskaþjálfa s.s. skoðunarferðir.
Fyrir mér var það þannig séð ekki mikill menningarmunur að flytja til Þýskalands . Ég fann sjálfur mikið fyrir svokölluðum „jákvæðum rasisma“, m.ö.o. vegna þjóðernis míns var ég betur meðhöndlaður en aðrir útlendingar og tók maður þannig upp á að byrja á að tilkynna þjóðernið þegar manni vantaði eitthvað.
Þrátt fyrir að þýsk tunga sé falleg og skemmtileg gekk ekki allt smurt fyrir sig. Við komu til Þýskalands var, eins og Þjóðverjum sæmir, ekki boðið upp á neinar upplýsingar á ensku af fyrra bragði. Ég lifði fyrsta daginn af með takmarkaða þýskukunnáttu og var því staðráðinn í að afneita ensku til að tjá mig í Þýskalandi, og geri ég enn. Þar sem þýska og íslenska eru að miklu leyti svipuð gengur oft vel að beinþýða beint á milli tungumálanna. Oftast gekk það vel en stundum var ég of djarfur í tilraunum mínum til að gera mig skiljanlegan. Eftirminnilegt er að segja frá helsta stórslysinu þegar eitt barnið var að púsla, kom með púsl með kú og spurði hvað dýrið héti. Ég gat alls ekki munað hvað það héti á þýsku en eins og maður getur sagt „mjá mjá“ um kisu, „voff voff“ um hund var ég viss um að ég gæti líka sagt „mumu“ um kú. Um leið og ég sleppti þessu út úr mér sneri vinnufélagi minn sér hneykslaður við og sagði að þetta væri eitthvað sem ég mætti alls ekki segja. Eftir nokkrar tilraunir til að útskýra diplómatískt hvað ég hefði sagt að lét hann vaða í blákalda skilgreiningu að þetta þýddi „móðurmunnur“. Síðan þá hefur þetta verið sífellt aðhlátursefni þar sem ég hef notað þetta til að rökstyðja að þýskt mál getur stundum verið ansi strembið.
Helsti menningar og málfarsmunurinn sem ég fann við að flytja til Þýskalands er þérunin. Í Þýskalandi eru til þumalputtareglur um hvenær maður þú-ar og hvenær maður þérar. Ólíkt okkur Íslendingum sem þú-um alla, sama hvort um er að ræða forsetann eða foreldra okkar, er stór munur á milli persónufornafnanna í Þýskalandi. Ég er jafnvel ennþá enn í vanda með að velja á milli þar sem þetta getur oft verið vafa atriði um hversu formlegur maður vill vera og hvort hinn aðilinn vilji slík formlegheit. En til að forða mér frá fleiri vandræðalegum uppákomum þar sem ég þú-a lögreglu eða aðra opinbera aðila ómeðvitað, þéra ég frekar en þú-a. Á hinn bóginn hef ég líka verið skammaður fyrir að gera of mikið úr aldri viðmælanda með því að þéra í samræðum í óformlegra lagi. Þetta er bara eitt af þeim dæmum í þýsku máli hversu vel maður þarf að greina aðstæður í þaula áður en maður talar.
Áður en ég flutti til Þýskalands lifði ég í þeirri trú að hér væri regla og stundvísi höfð í hávegum. Strax við komu til Þýskalands fannst mörgum áhugavert að vita hvað Íslendingar segja um Þjóðverja og lét ég þessa hugmynd mína vaða og uppskar aðhlátur frá öllum sem heyrðu. Ég var ekki lengi að komast að því að í Þýskalandi er stundvísi alls ekki sjálfssögð, en hinsvegar er skriffinnska það. Ég komst fljótt að því að lestir eru t.d. langt frá því að vera stundvísar – sem útskýrir af hverju þýskukennarinn minni í menntaskóla lagði svo ríkulega áherslu á að skilja orðið „seinkun“ í sambandi við kaflann um ferðalög. Svo getur skrifræði í Þýskalandi verið langt umfram það sem þekkist á Íslandi; einfaldir hlutir geta verið flæktir á ótrúlegan hátt og ekki aðstoðar það að Þjóðverjar eru ekki jafn rafvæddir og við heima.
Þessu til viðbótar hef ég svo fjölmargar sögur og minningar sem gáfu lífinu mínu lit. Ákvörðunin að gefa frá mér fjölmörg tækifæri heima á Íslandi var ekki einföld ákvörðun en ævintýraþráin varð yfirsterkari. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og að fara erlendis sem EVS sjálboðaliði, þrátt fyrir allar efasemdirnar sem maður leyfði sér í óvissunni. Þetta er ómetanleg upplifun og skilar þekkingu sem maður getur hvergi annarstaðar aflað sér. Ég mæli sjálfur eindregið með verkefninu og bendi eindregið á Alþjóðleg ungmennaskipti sem eru tilbúin til að svara öllum spurningum sem og aðstoða áhugasama við að fá möguleika á sambærilegu tækifæri.
Hvar er ég sjálfur eftir EVS? Ég get enn sem komið er ekki hugsað mér að yfirgefa Þýskaland og bý núna í Frankfurt. EVS var fyrir mig stökkpallurinn sem gerði mér kleift að komast í háskólanámið sem mig langaði í hér úti og margt fleira spenanndi mun taka við. Ég er sjálfur enn í virku sambandi við vinnufélaga frá barnaheimilinu sem og EVS vettvanginn minn svo EVS ævintýrinu er þannig séð ekki lokið þrátt fyrir að nýjir hlutir hafa tekið við.