Skiptinám í Bandaríkjunum – Oklahoma

Viðtal við Gylfa Má Sigurðsson

1. Hvar stundaðir þú námið?
Ég stundaði námi við University of Oklahoma (OU) í bænum Norman í Oklahoma-fylki í Bandaríkjunum og dvaldi þar frá ágúst 2011 til maí 2012.

2. Segðu okkur frá náminu þínu?
Ég stundaði nám í sagnfræði og tók m.a. grunnáfanga í bandarískri sögu. Námið var mjög fjölbreytt og ég valdi í raun bara áfanga sem mér þóttu spennandi og fannst mér námið ekkert sérstaklega krefjandi, sem gaf mér meiri tími til að njóta mín í Bandaríkjunum.

3. Afhverju ákvaðstu að fara í nám erlendis?
Mig hafði alltaf langað að prófa að búa erlendis og er þetta frábær leið að upplifa það. Þegar ég komst að því að ég borga bara gjaldið sem HÍ setur upp en ekki skólagjald við erlendan háskóla þá fannst mér einfaldlega heimskulegt að nýta sér þetta ekki. Ég kynntist bandarískum krökkum þarna úti og þau voru að eyða fleiri milljónum í námið sitt og á meðan ég borgað 45 þúsund krónur fyrir skólaárið.

4. Hvernig valdir þú námslandið?
Sara, kærasta mín, er hálf bandarísk og höfum við eytt miklum tíma í Bandaríkjunum hjá fjölskyldu hennar þar. Hún er með bandarískt ríkisfang og gat því flutt með mér út án allra vandræða (VISA og þess háttar). Ég valdi að fara í gegnum leið sem kallast MAUI (Mid-America Unversities International) sem telur á annan tug skóla í miðríkjum Bandaríkjanna. Mér fannst líklegra að komast inn ef ég veldi skóla sem ég teldi að færri myndu sækja um og varð OU þannig fyrir valinu. OU á sér ríka íþróttahefð í Bandaríkjunum og er lið þeirra, OU Sooners, eitt sigursælasta lið í amerískum háskólafótbolta.

5. Áttu góð ráð handa þeim sem hafa áhuga á að stunda nám sitt erlendis?

Njóta lífsins og ekki taka námið of alvarlega. Maður lifir á þessari reynslu alltaf og ég hugsa oft um hvað þetta var skemmtilegur tími. Ég mun muna eftir öllum ferðalögunum, NBA-leikjunum og tónleikunum sem við fórum á en ég man ekkert hvað stóð í kennslubókunum.
Við Sara ákváðum að njóta lífsins í botn og keyptum okkur notaðan bíl, bjuggum ekki inni á háskólasvæðinu sjálfu heldur rétt fyrir utan þar sem bandarískir nemar bjuggu. Við tókum ekki þátt í neinu sem var ætlað skiptinemum heldur kynntumst við bandarískum krökkum (og norskum í bland) og brölluðum ýmislegt með þeim. Við Sara fórum í ferðlag (roadtrip) til vesturs og fórum í gegnum Nýju Mexíkó, Arizona þar sem við kíktum á Miklagljúfur, Las Vegas og helstu borgir Kaliforníufylkis. Þegar dvölinni lauk keyrðum við svo til austurs til Washington D.C. þar sem pabbi hennar býr og flugum við heim þaðan. Eftir tæplega 10 mánaða dvöl tókst okkur að mæta degi of seint á flugvöllinn en blessunarlega fengum við að fara með vélinni heim þar sem við vorum tilbúinn til að komast aftur til Íslands.

6. Hvað reyndist erfiðast?
Þegar ég hugsa til baka þá var þetta bara eintóm hamingja og ég man ekki eftir neinu sem tók á. Það hjálpar auðvitað að vera ekki einn og gátum við Sara leyst úr öllu sem kom upp á sameiningu. Í apríl og maí er svokallað hvirfilbyljatímabil í miðríkjunum og kom einn stór hvirfilbylur nálægt okkur og olli nokkurri eyðileggingu. Það var búið að brýna fyrir okkur að fara í skjól um leið og neyðarbjöllur heyrðust en við, eins og sannir forvitnir Íslendingar, fórum út á svalir til að reyna sjá eitthvað. Nokkrum árum síðar gekk mannskæður hvirfilbylur yfir nágrannabæ okkar þarna úti og í fréttunum sáum við t.d. bíóið sem við fórum oft í jafnað við jörðu.

7. Eitthvað sem kom á óvart?
Kannski helst hvað mér fannst námið auðvelt. Ég var vissulega í tímum með nýnemum í háskóla en þeir eru 18 ára í Bandaríkjunum og ég að verða 25 ára.
Varðandi staðinn sjálfan þá er Oklahoma mjög trúað fylki og kallað sylgjan í biblíubelti Bandaríkjanna. Ég hef aldrei umgengist svo trúrækið fólk áður og þau sem ég kynntist fóru í kirkju a.m.k. einu sinni í viku og hittust reglulega til að ræða Biblíuna. Þetta þótti mér mjög merkilegt.

8. Annað sem þú vilt að komi fram?
Ég hvet fólk til að nýta tækifærið og víkka sjóndeildarhring og prófa að búa erlendis. Við munum lifa á sögunum frá Oklahoma alla ævi og eigum pottþétt eftir að fara þangað í heimsókn í framtíðinni.

Top