Skiptinám í Bretlandi

Haustið 2012 hóf ég nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ég hafði ekki hugrekkið sem það tekur að stökkva í grunnnám erlendis á þessum tíma, fannst heimurinn yfirgnæfandi stór og var hreinlega ekki viss um að ég gæti farið á eigin vegum. Ég gat þó ekki losað mig við ævintýraþránna sem ólgaði innra með mér og langaði út fyrir landsteinana. Tækifærið kom árið 2014. Snemma það ár tók ég ákvörðun um að fara til Bretlands í skiptinám í gegnum Erasmus samtökin og úr hópi spennandi háskóla valdi ég University of Southampton.

Það var kaldur og blautur mánudagur þegar ég keyrði suður eftir Reykjanesbraut. Með eina ferðatösku, bakpoka og langþráð hugrekki að vopni tókum við á loft með stefnuna á London. Fyrstu dagarnir í London og ferðalagið til Southampton eru ekki skýrir í huga mér. Í hálfgerðu móki skoðaði ég nýja landið mitt og óvissan helltist yfir mig.

Eftir fyrstu daganna í Southampton áttaði ég mig þó á því að borgin var þægileg, aðgengileg og samfélag skiptinema öflugt. Á öðrum degi kynntist ég einstaklingum, öðrum skiptinemum, sem ég mun vonandi vera í sambandi við alla mína ævi. Eftir fyrstu ,,skálina” þá brosti ég innra með mér og tók meðvitaða ákvörðun um að opna huga minn og njóta hvers einasta dags. Erasmus félagið í skólanum var yndislegt og bauð upp á mikinn stuðning, hvort sem það hafði með námið að gera eða viðburði. Vinahópurinn minn valdi sér fljótt uppáhalds bar og þar eyddum við ófáum kvöldum. Ég lærði það á fyrstu vikunum hvað ég heillast af pöbb menningu Breta. Enn þann dag í dag hugsa ég til þess hversu skemmtilegt það væri að geta hitt vini mína á pöbbnum yfir bjór. Veðrið lék við borgina og ekki get ég nefnt marga daga sem hitastigið fór undir tveggja stafa töluna, þótt ótrúlegt sé.

Að fara í nám erlendis er ákveðið stökk. Pappírsvinna, skráningar og uppbygging kennslu er oft ólík því sem maður þekkir en það er mikilvægt að gera hlutina með opnum huga og jákvæðni undir beltinu. Undirstaðan í náminu er sú sama í flestum heimshlutum, með skipulagi og stórum sem smáum markmiðum er hægt að gera hvað sem er. Muna bara; draga andann djúpt, brosa og njóta.

Höfundur: Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir

Top