Starfsnám í Danmörku og fjarnám á Íslandi

Farabara.is er í samstarfi við SÍNE, þessi reynslusaga birtist fyrst á vef SÍNE: https://sine.is/vilborg-i-kaupmannahofn-starfsnam-i-dk-og-fjarnam-a-islandi/

Ég heiti Vilborg og er 27 ára gömul með nokkuð fjölbreyttan bakgrunn. Ég hef unnið mikið í ungmennastarfi og er núna í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (MPA) við Háskóla Íslands. Námið mitt hefur gefið mér innsýn í flókna en spennandi heim stjórnunar og stefnumótunar, og ég hef sérstakan áhuga á málum sem tengjast velferð og menntun. 

Ég hafði alltaf haft áhuga á að prófa að búa erlendis og fannst það fullkomið tækifæri að taka skyldustarfsnámið mitt erlendis. Þetta gaf mér alþjóðlega reynslu sem hefur bæði verið spennandi og lærdómsrík. Ég vildi fá tækifæri til að upplifa nýja menningu og fá innsýn í hvernig hlutirnir ganga fyrir sig annars staðar. Það má kannski segja að ég tilheyri nýrri kynslóð íslenskra námsmanna erlendis þar sem ég er í fjarnámi frá Íslandi. Mér fannst ég verða að prófa að búa erlendis en hafði þegar ákveðið að læra MPA á Íslandi, tækifæri nútímans eru svo mögnuð að ég þurfti ekki að velja á milli drauma námsins og drauma borgarinnar.

Ég bý í kollegi-íbúð og það hefur verið algjör draumur. Lífið hér er mjög skemmtilegt og fjölbreytt. Ég hef verið í starfsnámi alla virka daga þessa önnina, og þegar ég er ekki að vinna, nýt ég þess að hlaupa (það er frábært að hlaupa hér því Danmörk er svo flöt) og gera skemmtilega hluti með vinum mínum. Fyrstu önnina var ég bara í áföngum í fjarnámi, sem gaf mér tækifæri til að koma mér inn í landið og menninguna. Ég vinn líka í afleysingum á sambýli þegar ég hef tíma. Mér líður mjög vel hérna og myndi gjarnan vilja vera lengur, en auðvitað sakna ég fjölskyldunnar heima á Íslandi. Það er dýrt að búa erlendis og ég get ekki fengið SU-styrk eins og þeir sem eru skráðir í skóla hér, en kostirnir vega samt upp á móti.

Ég hef fengið mjög skemmtileg tækifæri í Kaupmannahöfn. Það var mjög gaman að fá starfsnemastöðu hjá Save the Children DK, sem eru næst stærstu frjálsu félagasamtökin í Danmörku. Ég lærði mikið um starfsemi á þessari stærðargráðu og fékk mjög vel mótað starfsnám. Síðan var ég líka valin til að taka þátt í starfsþjálfun á vegum TEPSA, Evrópuþingsins og ActEU. Að því sem ég best veit er minna um starfsnám heima en mun algengara hér í Danmörku en hér er það valkostur í öllu námi, starfsnámin eru því vel mótuð, þó þú hafir alveg tækifæri til að læra nánar það sem þú hefur nákvæmlega áhuga á og móta starfsnámið þitt eftir því. 

Þetta eru tækifæri sem ég er ekki viss um að ég hefði fengið á Íslandi. Gallarnir eru að það er dýrt að búa hérna og í fjarnámi frá Íslandi gat ég ekki fengið SU, en á sama tíma er heilbrigðisþjónustan ódýr og góð, og aðgengi að stjórnsýslunni er auðvelt.

Námið mitt og starfsnámið hér í Kaupmannahöfn hefur verið ótrúlega gefandi. Í starfsnáminu hef ég fengið að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki og lært mikið um hvernig stærri stofnanir og samtök starfa. Þessi reynsla hefur verið ómetanleg fyrir mig. Þetta hefur samt sem áður ekki alltaf verið auðvelt. Ég hef þurft að vera mjög sjálfstæð og skipulögð með námið mitt, að sækja um starfsnám og sinna ýmsum verkefnum sjálf. Ég hef þurft að treysta mikið á sjálfa mig, en í leiðinni hef ég lært ótrúlega mikið og orðið miklu sterkari og hæfari fyrir vikið. En það sem mér finnst mest spennandi við að búa erlendis er hversu auðvelt er að komast í snertingu við fjölbreytta menningu og fólk. Kaupmannahöfn er svo lífleg og fjölbreytt borg, og ég nýt hverrar stundar sem ég hef hér. Ég get svo sannarlega mælt með þessu fyrirkomulagi fyrir alla námsmenn sem vilja prófa að búa erlendis í lengri eða styttri tíma.