Sýningarstjórnunarnám í Tokyo University of the Arts í Japan

Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Katrín Björk Gunnarsdóttir.

Ég byrja á að skrifa þessa grein þar sem ég sit í gluggasæti á kaffihúsinu í hverfinu mínu. Hverfið heitir Oji 王子, sem þýðist sem prins, og er í norður hluta Tókyó. Ég fylgist með tveimur eldri mönnum ræða málin á meðan bílar, lestar og shinkansen þjóta hjá. Allt í kring er hljóðheimur sem er ansi ólíkur heimalandinu, tungumál sem ég er aðeins farin að kroppa í yfirborðið á.

 

Mikil undirbúningsvinna

Ég flutti til Japans í lok Maí 2022 sem svokallaður MEXT nemandi. Ég var svo heppin að verða valin til þess að stunda nám í Japan á styrk frá Japanska ríkinu. Umsóknarferlið var ansi langt og margt sem þurfti að skila inn til þess að fá að vera tekin til umhugsunar af valnefndinni. Allt ferlið fer í gegnum sendiráð Japans á Íslandi en þessi styrkur er auglýstur ár hvert og einn nemandi valinn hverju sinni. Innifalið í styrknum eru skólagjöld, flug út og heim að námi loknu ásamt uppihaldi sem greitt er mánaðarlega. Ég mæli eindregið með að sækja um ef áhuga er fyrir námi í Japan!

        Ástæða þess að ég ákvað að sækja um nám í Japan kom aðallega til út frá áhuga á japanskri menningu, þá sérstaklega varðandi þeirra hugsunarhátt um rými. Það er hugtak sem er mikið notað í Japan, sem er erfitt að lýsa með orðum, sem snýst um ákveðið non-space, ákveðið millibil og kallast Ma (間). Mín tenging við þetta tiltekna hugtak er að skoða tengingu þess við sýningarrýmið sjálft og hversu mikilvægt það er fyrir upplifun sýningarinnar að skoða bilið á milli verkanna.

Ég sótti um með það markið að stunda nám við Tokyo University of the Arts í sýningarstjórnun undir handleiðslu Hasegawa Yuko. Hún er þekktur sýningarstjóri og safnstjóri á einu af mínu uppáhaldssafni, 21st Century Museum of Contemporary Art í Kanazawa. Áður en ég gat þó hafið námið þá bauðst mér það tækifæri að taka 6 mánaða prógramm í japönsku. Það þáði ég, og þrátt fyrir afar strembna mánuði, sem hófust í fjarkennslu á milli 3 og 7 um nótt frá Íslandi og héldu svo áfram alla virka daga á milli 9-16 hér úti, þá er ég afar þakklát að hafa þegið þetta boð. Það er eiginlega nauðsynlegt að hafa grunn í japönsku til þess að búa hér. Þegar ég kom fyrst þurfti ég fyrst að sækja um vísa fyrir manninn minn svo hann gæti einnig flutt út, svokallað dependent vísa. Þá þurfti að heimsækja útlendingastofnunina og þar talaði enginn ensku. Einhvern veginn náðum við í sameiningu, ég og yndislegan konan sem tók á móti mér, að klóra okkur fram úr samskiptunum en það hjálpaði einnig mikið að hafa fengið góðar upplýsingar frá vinafólki sem hafði rétt áður gengið í gegnum sama ferli og gat því upplýst okkur nákvæmlega um alla þá pappíra sem við þurftum. Úlfur, maðurinn minn, kom svo loks til mín nærri 4 mánuðum seinna. Við erum búin að koma okkur vel fyrir hér í fínni íbúð, en íbúðir hér í Japan eru yfirleitt minni en það sem gengur og gerist á Íslandi. Við ákváðum að reyna að finna íbúð sem væri í ágætri stærð og fundum notalega 40fm íbúð í norðurhluta Tókýó.

 

Að hefja rannsóknarvinnu

Námið í háskólanum hófst svo í Október 2022. Annirnar hér eru ólíkar þeim heima en vetrarönnin er frá október og fram í janúar / febrúar, sumar önnin er frá apríl og út júlí, en skólaárið hefst í apríl. Ég kom því inn í námið á miðju skólaári. Þegar þú kemur til Japan sem MEXT styrktarnemandi þá hefur þú yfirleitt námið sem svokallaður rannsóknarnemandi. Þá ert þú aðallega að vinna að rannsóknarplani til þess t.d. að sækja um í meistaranám/doktorsnám. Þú getur sótt þá tíma sem þú vilt en ert ekki undir kvöðum að skila inn verkefnum. Rannsóknar tímabilið getur verið allt að tvö ár en ef þú hefur metnað til þess að sækja um í masternám þá er það yfirleitt opið eftir hálft ár af rannsóknarvinnu. Hins vegar í mínu tilviki þá er prófessorinn minn að hætta og nýr að taka við. Því hef ég ekki tækifæri til þess að sækja um meistaranámið sjálft fyrr en eftir eitt og hálft ár af rannsóknarvinnu, sem gefur mér ansi góðan tíma til þess að fínpússa hugmyndir fyrir mastersnámið.

Deildin sem ég stunda nám við kallað Global Arts og er eina deildin í háskólanum sem er kennd á ensku, alþjóðleg deild, þar sem hægt er að læra sýningarstjórnun, menningarstjórnun og stunda rannsókn á efni tengdu hinum alþjóðlega listaheimi. Ein önn er núna liðin af mínu rannsóknartímabili og hefur það einkennst af lestri á ýmsum bókum og greinum varðandi rannsóknarverkefnið mitt, ásamt fyrirlestrum frá kennurunum við deildina. Þar sem deildin er ekki mjög stór þá eru tímarnir ansi persónulegir og sambandið verður náið milli kennara og annara nemanda. Mikið er lagt upp úr umræðum þar sem allir leggja eitthvað til málanna og umræðan er afar opin. Þessi reynsla hefur gert mig ófeimnari og óhræddari við að segja mína eigin skoðun.

 

Japönsk menning er einstök
            Ég flutti út á skrítnum tímum þar sem aðgangur inn í landið var ansi takmarkaður. Því var undirbúningsferlið ansi flókið og margir pappírar sem þurfti að undirbúa. Mér fannst þó gott að vera búin að undirbúa tímabundna íbúð til þess að búa í fyrst um sinn sem ég gat farið beint í eftir ansi langt ferðalag. Annars mæli ég eindregið með því ef áhugi er fyrir námi í Japan að skoða einhversskonar tungumálanámskeið eða bara duolingo aðeins áður en flutt er út! Hér er einnig allt annað ritmál svo gott að vera búin að kynna sér það aðeins.

Tókýó er einstök borg. Hér er allt hægt að sjá og gera. Endalaust er hér af listasöfnum og galleríum sem er voða gaman fyrir nema í sýningarstjórnun. Þrátt fyrir gríðarlega mannmergð í Tókyó, en þetta er stærsta borg heims (34 milljónir manns búa á höfuðborgarsvæðinu) þá er ansi auðvelt að komast í ró og næði hér, í þögnina. Ef þú ferð rétt út fyrir neon skiltin sem einkenna Shinjuku og Shibuya hverfin þá getur þú oft fundið götur og hverfi sem einkennast af lágum eldri húsum og rólegheitum. Japönsk menning leggur mikið upp úr tilliti til nágrannans. Það tekur maður helst eftir þegar þú ert staddur í stútfullri lest en samt er nær algjör þögn, þú heyrir aðeins hljóðin í lestinni sjálfri og kannski eitt og eitt hvísl á milli vina. Hér er gott að vera.

Ef einhver sem les þessa grein og hefur áhuga á að sækja um MEXT styrk eða að koma í nám til Japan má alltaf hafa samband við mig!

Instagram   katrinbjorg

Young woman standing in front of a red brick fence with Japanese letters on it.  She has blond hair and is wearing a white shirt and black trousers.