Skiptinám í myndlist til Konstfack í Svíþjóð

Tanja Stefanía Rúnarsdóttir, myndlistarnemi

1.Segðu frá náminu þínu?
Ég stunda nám í myndlist við Listaháskóla Íslands. Ég sótti um skiptinám við listaháskólann Konstfack í Svíþjóð þar sem ég varði einni önn.

2.Afhverju ákvaðstu að fara í nám erlendis?
Mér fannst mikilvægt fyrir mig að prufa að fara erlendis í nám. Með því að nýta möguleikann á að fara í skiptinám fékk ég að prufa að fara erlendis í skóla en þó í ,,vernduðu umhverfi”, ég var enn nemandi í Listaháskólanum og var því á þeirra vegum nemandi í Konstfack.

3.Hvernig hefur þér fundist að stunda nám þitt erlendis?
Mér fannst það frábær reynsla. Það að prufa að stunda nám í öðru landi, einn síns liðs er eitthvað sem ég held að allir ættu að prufa. Ég var rosalega ánægð með mína dvöl í Svíþjóð. Í skólanum var aðeins ein íslensk stelpa fyrir en hún var í mastersnámi og því lágu leiðir okkar ekki oft saman í skólanum en það var kannski þess vegna sem ég lærði enn meira en námið var að mestu leyti á sænsku og stundum ensku. Ég lærði því ótrúlega mikið líka á því að ráðfæra mig alltaf á öðrum tungumálum en mínu egin. Að fá tækifæri á að prufa nám í stærsta listaháskóla Svíþjóðar, einum stærsta og leiðandi skóla norðurlandanna er eitthvað sem ég fer stollt með í reynslubankann.

4.Eitthvað sem hefur komið þér á óvart?
Nei í rauninni var ekkert sem kom mér stórkoslega á óvart. Ég var mjög ánægð allan tímann í Svíþjóð, en ég var þar frá ágúst til lok janúar. Skólinn var ótrúlega flottur og vel búinn öllum tækjum og tólum sem listnemar hafa hugarflug í að nýta sér. Það sem kom mér kannski mest á óvart var virðing fyrir skólanum sem ég sá þegar ég var spurð úti á götu hvað ég væri að gera í Svíþjóð. Það sást þó best þegar nemendur skólans héldu árlegan jólamarkað Konstfack (Konstfacks Julmarkand) þar sem utanaðkomandi fólk kom, og verslaði af listnemum. Það var röð útúr dyrum og hleypt inn í hollum, aðeins 2.000 manns í einu. Það var röð út götuna alla helgina en markaðurinn stóð yfir laugardag og sunnudag fyrstu helgina í aðventu. Fólk borgaði aðgangseyri og nemendur skólans voru að selja þvílíka glæsi muni. Allt frá glerskálum og skartgripum í ljósmyndir, málverk og ljós. Á jólamarkaðinn komu einnig fulltrúar frá öllum helstu hönnunarblöðum Svíþjóðar og tóku út nýja hönnun sem birtist síðan í blöðunum, sem er rosa afrek og viðurkenning þar sem sænsku hönnunarblöðin stjórna hönnunarblöðum frá Norðurlöndunum og þaðan síðan í heimsblöðin. Þessi helgi var ótrúleg að upplifa en á sama tíma beið fólk á Íslandi í röð eftir Kahler vasa. Það var þessa helgi sem áttaði ég mig á því að þó að það sé ekki tækifæri fyrir ýmislegt á Íslandi þá geta tækifærin beðið þín annars staðar.

5.Hefur verið erfitt að fjármagna námið þitt?
Þar sem ég fór í skiptinám þá borgaði ég skólagjöld í Listaháskóla Íslands en fékk tækifæri til að fara í virtan listaháskóla úti í heimi. Ég hafði stefnt að því að fara í skiptinám frá því ég byrjaði í Listaháskólanum og var því búinn að leggja frá pening fyrir dvölinni.

6.Einhverjar skemmtilegar sögur eða atvik sem þú hefur lent í?
Skólinn er staðsettur í gömlu höfuðstöðvum Ericson og er frekar miðsvæðis í Stokkhólmi, ég bjó í næstu götu við skólann og var hætt að kippa mér upp við að mæta bamba úti á götu.

7.Hvar sérðu þig fyrir þér í framtíðinni?
Ég held að í framtíðinni eigi ég eftir að fara aftur erlendis í nám og sækja frekari menntun. Ég mun örugglega starfa við listir og skapandi hugmyndavinnu.

8.Góð ráð handa þeim sem hyggja á nám erlendis?
Ef fólk er að spá í að fara erlendis í nám, að kýla á það. Það er skemmtileg og frábær reynsla sem þú býrð að alltaf. Á sama tíma minnkaði heimurinn þar sem þú ert kominn einn í annað land og annað tungumál og eignast á sama tíma frábæra vini út um allan heim! Mennt er máttur og með því að prufa nám erlendis öðlastu meiri víðsýni og reynslu. Ég mæli hiklaust með skiptinámi!

Top