Tannlæknanám á Kýpur
Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Kári Hrafn Ágústsson.
Ég heiti Kári Hrafn Ágústsson og er á þriðja ári í tannlæknisfræði á Kýpur. Ég skrifa þennan pistil við standarbakkann með kaffibolla, stari á Miðjarðarhafið og sé sólina glampa í gárunum. Ég hóf nám við European University Cyprus (EUC) haustið 2020 þegar COVID-19 vírusinn blómstraði. Stiklað verður á stóru varðandi lífið hér á Kýpur og hvernig skólinn er.
Umsóknarferlið og afhverju Kýpur?
Umsóknarferlið er tiltölulega einfalt. Hægt er að sækja um á vefsíðu skólans, þar sem allar tilheyrandi upplýsingar varðandi ferlið er hægt að finna. Auðvelt er að hafa samband við starfsfólkið sem fer yfir umsóknir í síma eða tölvupósti. Ég myndi ekki hika við að hringja og spyrja, þar sem ég þekki orðið starfsfólkið og ég get vottað fyrir mjög mannlegum og þægilegum samskiptum. Þau virkilega hjálpa manni að sækja um og segja þér skref fyrir skref hvað þú þarft að gera til að halda áfram með umsóknarferlið, þ.e. hvaða áfanga þú þarft, TOEFL o.s.frv.
Ég fór ekki þessa hefðbundnu leið. Upphaflega tek ég clausus á Íslandi. Átta mig fljótlega að ég á ekki séns í þessa samkeppni og leita annað. Ég komst í samband við þýskt umboð sem sá um umsóknir í skóla og stefndi ég á að fara til Bratislava í Slóvakíu (sem kom svo í ljós var algjört scam). Eyði miklu púðri í að læra fyrir inntökupróf fyrir skólann í Slóvakíu sem fer svo allt saman í skrúfuna út af COVID. Ég þarf að hugsa hratt, og rekst á skólann á Kýpur. Ég færi öll gögn sem ég hafði safnað fyrir umsóknarferlið inn fyrir Slóvakíu yfir til EUC. Fljótlega eftir allt þetta fíaskó fæ ég samþykkt inn í EUC. Ég hafði enga hugmynd hvernig framhaldið yrði hjá mér þar sem þetta voru ótroðnar slóðir.
Í kjölfarið geri ég smá rannsókn og kemst þá að því að nokkrir íslendingar eru að læra á Kýpur. Ég kemst í samband við “fellow” Hafnfirðing og við mælum okkur mót á kaffihúsi þar sem hún selur mér þessa litlu eyju algjörlega. Hún talaði um fegurðina, sólina og samfélagið.
Námið
Óhætt er að segja að námið sé mjög krefjandi. Námið fer allt fram á ensku. Fyrstu tvö árin eru mest megnis bókleg, og eftir það er meirihlutinn verklegur. Fjöldi nemenda er breytilegur milli ára þar sem skólinn er að stækka, en á fyrsta ári eru rúmlega 100 nemendur. Námið er byggt á Evrópskum og Norður-Amerískum stöðlum. Útskrifaðir tannlæknar úr EUC mega starfa sem tannlæknar í öllum 32 löndunum innan Evrópusambandsins og innan EFTA ríkjanna (Ísland er innan EFTA). Námið í heild sinni tekur 5 ár. Námsgjöldin eru há, eða um 21.000 evrur árið. LÍN lánar bæði fyrir skólagjöldum og í framfærslu. En með háum skólagjöldum getur skólinn splæst í bestu tækin og tólin.
Námsgæðin finnst mér ótrúlega góð og prófessorarnir eru góðir (en auðvitað eru einhver slæm epli inn á milli). Bekknum er skipt í 5 hópa fyrir verklega hlutann, sem veitir persónulega kennslu þrátt fyrir stóran bekk. Það sem stendur sérstaklega upp úr hjá mér er verklegi hlutinn.
Skólinn
Skólinn var fyrst menntaskóli sem breytist svo í háskóla árið 2007. Tannlæknadeildin opnaði 2017. Þar sem deildin er tiltölulega ný hafa miklar breytingar orðið á mínum skólaárum. Ný bygging er í vinnslu þar sem tannlæknadeildin mun tvöfaldast. Klíníkin fer úr 20 stólum í 40 stóla. Áætlað er að byggingin klárist haustið 2023. Tannlæknadeildin fær mikið pláss fyrir kennslu, og finnst mér kennslustofurnar vel hannaðar. Annað sem vert er að minnast á, er hreinlæti. Fólkið sem starfar við þrif á skólanum eru ótrúleg. Skólinn er alltaf hreinn og fínn sama hvort það sé kennslustofa eða klósett. Starfsfólk skólans er almennt gott. Mjög auðvelt að tala við og allir vilja hjálpa þér, sama þótt það sé ekki á þeirra starfsviði. Sveigjanleiki er góð lýsing á starfsfólkinu.
Samfélagið
Innan samfélagsins á Kýpur er hægt að finna margt sem líkist Íslensku samfélagi. Lítið og krúttlegt. Allir vilja hjálpa hvor öðrum. Eitt sem ég tek sérstaklega eftir er að það er ekkert stress á fólki hérna. Ég þurfti aðeins að venjast því. Allt tekur tíma hérna. Ég líki ríkisreknum stofnunum á Kýpur við Ísland fyrir 15 árum síðan.
Kýpur er skipt í tvo hluta. Þrátt fyrir litla eyju eru “landamæri” á milli norður og suður Kýpur. Skiptingin átti sér stað fyrir 50 árum síðan og er fólki frjálst að flakka á milli. Gríska er töluð í landinu og þar af leiðandi grískt stafróf líka. Minnsta mál að læra stafrófið, en tungumálið er mjög erfitt. Persónulega hef ég alfarið lært af samnemendum mínum og með því að lesa umferðarskilti. Skólinn býður hinsvegar upp á grísku áfanga ef áhugi er fyrir.
Menningin hér er öðruvísi. Kýpur er mjög nálægt Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Fólkið í landinu er af allskonar mismunandi menningarheimum, sem gerir almúgann mjög fjölbreytilegan. Ég persónulega fagna fjölbreytileikanum, en ég myndi ekki segja að það sé auðvelt að aðlagast samfélaginu. Maður þarf aðeins að venjast fólkinu hérna og gefa sjálfum sér tíma til að kynnast því. Nú þegar ég er búinn að búa á Kýpur í rúm þrjú ár, þá finnst mér þessir mismunandi menningarheimar æðislegir! Allur maturinn, listin, hefðir, sagan, trú og hugarfar er eitthvað sem ég mun taka með mér þegar ég held heim að námi loknu. Mitt uppáhald hérna á Kýpur eru helstu þjóðargersemirnar Halloumi ostur og souvlaki.
Djammið er geggjað. Miðbærinn í Nicosia er ekkert sérstakur að mínu mati. En heimapartýin og sérstöku viðburðirnir (þ.e. hátíðir, latin party, carnival o.fl) eru snilld. Eftirminnilegt djamm hjá mér var þegar mér var boðið í afmæli til vinkonu minnar frá Keníu. Kom í ljós að hún þekkti ekki marga af mínu þjóðerni og þegar allir voru mættir þá var ég eini hvíti einstaklingurinn í partýinu. Þetta var eitt besta partý sem ég hef upplifað. Fólkið var frá mismunandi löndum í Afríku en þau voru öll tryllt góð í að dansa og tónlistin þeirra er mögnuð.
Náttúran er einstök
Kýpur býr yfir mjög fallegri náttúru. Há fjöll og fullt af ströndum. Hægt er að fara á skíði og synda í sjónum með 40 mínútu millibili. Þrátt fyrir tímafrekt nám, þá finnst mér ég hafa nóg tíma til að ferðast. Bíll er nauðsynlegur fyrir ferðalög hér á Kýpur. Samgöngur eru ekki góðar (mjög sambærilegar samgöngum heima á Íslandi).
Strendurnar eru af öllum stærðum og gerðum. Fínn sandur, grófur sandur, steinar, klettar.. allt sem maður getur ímyndað sér (engin eins og Reynisfjara samt). Sjórinn er svo tær að ef maður er með góð sundgleraugu þá sér maður eins langt og augað eygir. Mikið sjávarlíf er hægt að finna við strendur Kýpur. Snorkl er vinsælt í læripásum hjá mér, sérstaklega skjaldbökustrendur. Ein skemmtileg upplifun til að minnast á var þegar ég mætti í Oral Surgery tíma um morguninn og sökum forfalla, fengum við 6 klukkutíma pásu. Ég nýtti tækifærið og brunaði beint að Green Bay Beach og synti með skjaldbökum og allskonar öðrum lífverum. Mætti svo í verklegan tíma seinna um daginn. Persónulega fannst mér þetta mjög súrrealískt ævintýri.
Fjöllin á Kýpur eru líka eitthvað sem mér sem Íslending fannst magnað að sjá. Fallegir skógar þekja fjöllin að mestu leyti og útsýnið ekki amalegt. Á góðum degi er hægt að sjá fjöllin í Tyrklandi. Og á mjög góðum degi á að vera hægt að sjá Líbanon (á enn eftir að upplifa það).
Hæst ánægður með ævintýrið
Ég gæti skrifað endalaust um Kýpur. Þessi litla eyja hefur komið mér mjög á óvart og þykir mér mjög vænt um hana. Þetta ævintýri hjá mér hefur að sjálfsögðu ekki allt verið dans á rósum, en þegar á heildina er litið er ég hæst ánægður með skólann og landið sem ég bý í.
P.s. ekki hika við að hafa samband við mig fyrir fleiri upplýsingar um lífið á Kýpur.