Frásögn eftir Valgerði Önnu Einarsdóttir (Völu), birtist fyrst í blaðinu Sæmundi sem gefið er út af SÍNE.
Það eru kostir og gallar sem fylgja því að alast upp á landi þar sem búa u.þ.b. 356.000 manns. Heimurinn minn var lítill. Ég er fædd og uppalin í vesturbænum, fór í Melaskóla, Hagaskóla, MR, fór í íþróttir í KR, lærði að synda í Vesturbæjarlauginni og æfði á fiðlu í DoReMí. Ég var samt mjög heppin og ferðaðist mikið með fjölskyldunni, bæði innanlands og utan en ég var bókstaflega á sama 10km radíusnum í 19 ár.
Þorstinn í nýjar upplifanir byrjaði snemma
Ég ákvað eins og svo margir að taka mér pásu eftir menntaskóla. Ég vildi prófa eitthvað nýtt, eitthvað allt annað en Ísland. Ég ákvað að flytja til Hawai’i og vann sem Au Pair fyrir bandaríska fjölskyldu í ár. Já, að vera 19 ára, vinna og búa í Honolulu er jafn geggjað og það hljómar. Ég man samt alltaf eftir því hvað það var ógeðslega erfitt að fara frá Íslandi. Mér leið eins og ég myndi aldrei koma aftur, heimþráin í Leifsstöð var óbærileg og ég í alvörunni grét alla leiðina. Þó svo að ár sé ekki langur tími þegar maður horfir til baka, er það samt langur tími. Sérstaklega þegar maður er einn og langt frá vinum, fjölskyldu og íslenskum mat.
Eftir að ég kom heim byrjaði ég í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og allt í einu var ég komin aftur á sama gamla 10km radíusinn. Kannski er það bara ég en þegar maður er búinn að fara einu sinni og prufa eitthvað alveg nýtt þá er það ávanabindandi. Ég varð þyrst í nýjar upplifanir, fara til nýrra landa, krefjandi áskoranir og þar fram eftir götunum. Eftir tvö ár í námi ákvað ég að fara í skiptinám í gegnum HÍ. Háskóli Íslands býður uppá ótrúlega skiptináms möguleika út um allan heim og er í samstarfi við yfir 400 erlenda háskóla. Eins og áður, þráði ég eitthvað alveg nýtt og spennandi (og helst sólríkt). Haustið 2015 pakkaði ég aftur í eina 23kg tösku og við tók 51 tíma ferðalag til Gold Coast á austurströnd Ástralíu. Gott er að taka það fram að það er hægt að ferðast þangað hraðar en ég var fátækur námsmaður og valdi ódýrustu en lengstu leiðina með verstu tengiflugunum. Ég mæli með að eyða aðeins meira og komast hraðar og betur á áfangastað!
Þegar ég flutti til Gold Coast var ég að fara í fyrsta sinn alveg sjálfstæð. Það var engin fjölskylda sem tók á móti mér á flugvellinum. Griffith University er stórkostlegur háskóli sem er með mikið stuðningsnet fyrir alþjóðlega nemendur. Það er allt gert til þess að hjálpa manni að aðlagast nýju lífi í nýju landi. Griffith er með háskólasvæði á fimm stöðum í Queensland fylki, ég valdi Gold Coast. Gold Coast er eins og Las Vegas þeirra Ástrala. Eins og nafnið gefur til kynna er borgin staðsett á strandlengju sem spannar 70 km og þarna fara fullt af Áströlum í frí. Ég blikkaði augunum og árið á Gold Coast var búið. Eitt af skemmtilegastu árum lífs míns. Stútfullt af ævintýrum, ferðalögum og lærdómi. Eins og það var gott að koma heim og hitta fjölskylduna vissi ég að ég væri alltaf að fara aftur út.
Lærdómur, ævintýri og nýjar upplifanir
Þremur árum eftir að ég kom heim ákvað ég að fara í meistaranám og eina ferðina enn, vildi eitthvað öðruvísi. Ég ákvað að fara aftur til Ástralíu í meistaranám í viðskiptum með áherslu á markaðsfræði við University of New South Wales og bjó í Sydney í 1,5 ár. Námið var 4 annir með mikla áherslu á raunverkefni, nýsköpun og nýja þekkingu í viðskiptum. Það er hægt að velja úr fjórtán mismunandi aðalgreinum, t.d. markaðsfræði, alþjóðaviðskipti, áhættustjórnun og nýsköpun- og frumkvöðlafræði. Ekki misskilja mig, ég valdi ekki bara þessa staði til þess að liggja á ströndinni í heilt ár þó svo að það hafi verið partur af planinu. Skólarnir sem ég fór í bæði, Griffith University og UNSW eru stórkostlegir skólar með virkilega flott nám, ýmis námskeið sem eru ekki kennd á Íslandi, tækifæri og sterka umgjörð fyrir alþjóðlega nemendur. UNSW er 67. besti háskóli í heiminum samkvæmt Times Higher Education World University Rankings.
Þú getur alltaf komið aftur heim
Nú hef ég gert þetta nokkrum sinnum og alls ekki hætt svo ég held að ég geti talað af reynslu. Mín ráð fyrir alla sem eru að velta fyrir sér að fara að vinna, í skiptinám eða læra erlendis er bara að gera það. Þetta er ósköp einfalt, það þarf bara að loka augunum, kaupa flugmiða, henda sér út í djúpu laugina og prófa! Það er ótrúlega þroskandi, gefandi, erfitt, skemmtilegt en ég lofa að þú munnt kynnast sjálfum þér betur, gera hluti sem þú hefðir aldrei gert í bómullinni heima við, skapa minningar, verða klárari og eignast vini fyrir lífstíð. Ekki bara það, þá verðuru verðmætari starfskraftur með alþjóðlega reynslu fyrir vikið. Þú sem einstaklingur verður heildsteyptari, sterkari, hugrakkari og hefur getu til að takast á við krefjandi áskoranir í atvinnulífinu sem tekur við að námi loknu.
Svo er mjög mikilvægt að muna að það er alltaf hægt að koma aftur heim. Það er frekar styrkur en skömm í því að segja að eitthvað sé ekki fyrir sig. Þá notar maður bara tækifærið nýtur þess að skoða nýja borg og fer svo aftur heim. Maður getur alltaf farið til útlanda að læra og leika sér ef manni sýnist svo. Það sem þarf að hafa í huga er að það tekur tíma fyrir mann að aðlagast, græja símanúmer, bankareikning, finna stað til að búa á, eignast vini, kynnast skólasvæðinu, læra á almenningssamgöngur, skoða borgina og svo framvegis. Aðalatriðið er að gefa þessu smá tíma til að verða skemmtilegt og sérstaklega gefa sjálfum sér tækifæri á að geta búið einn í öðru landi.