Íslensk-ameríska félagið sem stofnað var 1940 er, eins og sambærileg félög á Norðurlöndum, systurfélag American Scandinavian Foundation. Félögin starfa að því að efla samstarf þjóða sinna og Bandaríkjanna í mennta- og menningarmálum í samvinnu við American Scandinavian Foundation. Eftir stofnun félagsins á styrjaldarárunum hófust námsdvalir Íslendinga í háskólum og öðrum menntastofnunum í Bandaríkjunum sem ætíð hafa haft mikla þýðingu.
Styrkhæft nám skal allt fara fram í Bandaríkjunum. Styrkirnir eru veittir framúskarandi umsækjendum sem hafa staðfestingu fyrir skólavist í masters- eða doktorsnámi í bandarískum háskóla.
Styrkirnir eru veittir til eins árs. Í fjárhagsáætlun umsóknarinnar þarf að sýna fram á þörf fyrir styrk. Upphæðir styrkjanna eru mismunandi eftir aðstæðum umsækjenda en undanfarin ár hafa styrkupphæðir verið 2.500-6.000 bandaríkjadalir. Almennar upplýsingar og tengill á rafrænt umsóknareyðublað má finna á heimasíðu félagsins.