Algengar spurningar
Hér má finna svör við algengum spurningum
Farabara er vefsíða með gagnlegum upplýsingum um nám erlendis. Undir lönd er hægt að skoða skólakerfið í ólíkum löndum - löndin sem eru á síðunni mynda ekki tæmandi lista, það er vel hægt að fara í nám til landa sem við höfum ekki talið upp. Inni á löndunum eru líka tenglar á styrki, en hér á síðunni má finna leitarvél um fjölmarga styrki sem eru í boði fyrir nám erlendis. Þetta eru ekki styrkir sem við sjáum um, heldur bara styrkir og leitarvélar um styrki, sem við vitum af. Hér á vefnum eru líka góð ráð og það sem þarf að hafa í huga þegar fólk hefur í huga að fara í nám erlendis.
Nám erlendis, hvort heldur er skiptinám eða heil námsgráða, veitir nemendum ýmislegt meira en bara námsgráðuna. Árið 2014 gáfu Finnar út ritið Hidden competences, sem byggðist á rannsóknum hugveitunnar Demos Helsinki. Meginniðurstöðurnar voru að nemendur bæta ekki bara tungumálafærni og menningarlæsi, heldur fylgir einnig ýmis önnur hæfni. Þar voru nefndir þættir eins og seigla, forvitni og meiri framleiðni. Atvinnurekendur leggja mikla áherslu á að ná í starfsfólk sem hefur þessa eiginleika en nemendur gera sér oft ekki grein fyrir að dvöl erlendis þroskar þau og eflir. Menntun erlendis getur þess vegna aukið starfsmöguleika einstaklinga bæði hér og annars staðar í heiminum.
Erasmus+ styrkir eru alla jafna ekki veittir til fulls náms erlendis (nema þegar um er að ræða sérstakt Erasmus+ Mundus meistaranám, sjá fyrir neðan). Erasmus+ er viðbót við þau tækifæri sem nemendur á Íslandi hafa í gegnum samstarfsskóla íslensku háskólanna í útlöndum. Þá geta nemendur tekið 1-2 annir (eða styttri dvalir) í skiptinámi við stofnun sem skólinn á Íslandi er í samstarfi við eða í starfsnámi við vinnustað erlendis. Nemendur fá dvölina erlendis metna inn í námið hér og á dvölin ekki að lengja námsferilinn. Þeir nemendur sem ákveða að fara í skiptinám eða starfsnám til Evrópu geta sótt um Erasmus+ styrk til síns háskóla á Íslandi. Það þarf því alltaf að hafa samband við námsbraut og alþjóðaskrifstofur skólans til að fá nánari upplýsingar. Sjá nánar hér.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Menntasjóðs námsmanna er háskólanám lánshæft ef gerðar eru sambærilegar kröfur og til háskólanáms á Íslandi. Þetta þýðir að aðeins er veitt lán til náms sem fer fram í alþjóðlega viðurkenndum háskólum. Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Lánið er þó ekki greitt út fyrr en sýnt er fram á innritun í frekara lánshæft nám í sama landi eða málsvæði. Ekki er lánað til tungumálanáms til undirbúnings ef um er að ræða ensku, dönsku, norsku eða sænsku. Á vefnum er að finna skrá yfir lánshæfa skóla. Þetta er þó ekki tæmandi listi og ef skólinn sem þig langar til að stunda nám við er ekki á listanum má senda fyrirspurn til sjóðsins á netfangið [email protected].
Margir erlendir skólar óska eftir að nemendur taki tungumálapróf til að staðfesta kunnáttu þeirra í tungumáli landsins eða þess máls sem námið fer fram á. Hér er listi yfir tungumálapróf.
Umsóknarfrestir eru misjafnir eftir löndum. Í sumum tilvikum er eitt umsóknarkerfi sem nær yfir alla skóla en í öðrum er það bundið við hvern skóla fyrir sig og jafnvel námsleiðum. Hér á eftir má finna yfirlit yfir helstu umsóknarfresti þeirra landa sem íslenskir stúdentar hafa helst verið að fara til. Frestirnir eiga við grunnám nema annað sé tekið fram. Við mælum alltaf með að fólk leiti sjálft að þessum upplýsingum á netinu þar sem þær gætu hafa breyst síðan þær voru settar inn á vefinn.
Ástralía: 4 til 5 mánuðum fyrir skólabyrjun.
Austurríki: 1. september fyrir vetrarönn og 1. febrúar fyrir sumarönn.
Bandaríkin: fjórum til fimm mánuðum fyrir upphaf náms, en mælt er með að hefja undirbúning umsóknar ári fyrir umsóknarfrest.
Bretland: Umsóknarfrestur fyrir læknisfræði, dýralækningar og tannlækningar er 30. júní fyrir erlenda nemendur. Umsóknarfrestur fyrir grunnnám er 15. janúar.
Danmörk: Frestur til að sækja um grunnnám rennur út 15. mars fyrir klukkan 12:00. Frestur fyrir meistaranám fer eftir því námi sem sótt er um.
Eistland: Mismunandi en algengt er að það sé í lok júní.
Frakkland: Frá 20. janúar til 20. mars.
Finnland: Mismunandi eftir skólum og námsleiðum.
Holland: Sumir skólar taka inn í janúar en í flesta skóla er lokað fyrir umsóknir 15. maí.
Írland: 1. febrúar.
Ítalía: Maí – júlí.
Japan: Að minnsta kosti fjórum mánuðum áður en nám hefst. Fyrir enskumælandi nemendur er september/október.
Kanada: Umsóknarfrestir í flesta skóla eru frá desember fram í mars. Mælt er með því að hefja undirbúning umsóknar ári fyrir frest.
Kína: 6 mánuðum áður en nám hefst.
Noregur: 15. apríl í grunnnám en mismunandi eftir skólum og námsleiðum á meistara og doktorsstigi.
Nýja Sjáland: Fjórum til fimm mánuðum áður en nám hefst.
Spánn: Fer eftir skólum en umsóknartímabilið er á tímabilinu maí – ágúst.
Sviss: 30. apríl fyrir haustönn og 30. nóvember fyrir vorönn.
Svíþjóð: 15. apríl fyrir haustönn og 15. október fyrir vorönn.
Þýskaland: 15. júlí fyrir vetrartönn og 15. janúar fyrir sumarönn.
Yfirleitt bjóða skólar upp á útskriftarskírteini bæði á ensku og íslensku án aukakostnaðar. Ef svo er ekki eða ef skólinn biður um þýðingu yfir á önnur tungumál er nauðsynlegt að leita til löggilts skjalaþýðanda. Á vefnum sýslumenn.is er að finna skrá yfir alla löggilta skjalaþýðendur á Íslandi og er hann flokkaður eftir þeim tungumálum sem þeir þýða á.
Fyrst er alltaf best að leita til alþjóðaskrifstofur háskólanna ef þú ert í háskólanámi eða námsráðgjafa ef þú ert í framhaldsskóla. Ef frekari spurningar vakna er best að hafa samband við sendiráð eða ræðisskrifstofu viðkomandi ríkis á Íslandi fyrir nákvæmar upplýsiningar.
Íslenski einkunnaskalinn er þýddur nokkurn veginn yfir á ABCD skalann í bandarísku einkunnakerfi þannig:
íslenskar einkunnir á bilinu 9 – 10 jafngilda A í bandaríska kerfinu
íslenskar einkunnir á bilinu 7 – 8 jafngilda B í bandaríska kerfinu
íslenskar einkunnir á bilinu 5 – 6 jafngilda C í bandaríska kerfinu
íslenskar einkunnir á bilinu 1 – 4 jafngilda D í bandaríska kerfinu
Það skiptir máli hve margar einingar hvert námskeið er og hver einkunnin er fyrir hvert námskeið.
Þegar grade point average er reiknað út er:
A = 4 stig
B = 3 stig
C = 2 stig
D = 1 stig
Í þessu tilfelli er fjöldi eininga = 14, stig einkunna = 35
GPA er fundið út með því að deila stigum með einingafjölda 35:14. Útkoman er 2,5. Hér eru margar skýringarmyndir sem e.t.v. geta hjálpað einhverjum áleiðis.
Hver háskóli á Íslandi hefur sinn alþjóðafulltrúa eða rekur alþjóðaskrifstofu sem aðstoðar nemendur hverrar stofnunar fyrir sig ef þeir hyggja á skiptinám eða aðra dvöl erlendis sem tengist námi þeirra við viðkomandi skóla.
Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessu samhengi er náms- og starfsráðgjöf séð sem tæki til þess að auka möguleika fólks til að læra og vinna innan allra landa Evrópu og að fá reynslu sína og hæfni metna í öðru landi.
Íslensk og bresk yfirvöld hafa undirritað samning sem tryggja óbreytt réttindi Íslendinga í Bretlandi eftir Brexit. Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þurfa Íslendingar núna að sækja um dvalarleyfi fyrir námsmenn. Þetta er einfalt ferli sem hægt er að gera rafrænt og tekur einungis nokkra daga til að fá samþykkt ef öll gögn eru komin til skila. Hægt er að lesa meira um nám í Bretlandi hér.
Með skattalegri heimilisfesti eru námsmanni tryggð réttindi til að vera skattlagður eins og hann hefði verið heimilisfastur hér á landi allt árið. Þetta þýðir að við skattlagningu er tekið tillit til þeirra skattafslátta og bóta sem hann hefði átt rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér á landi. Má þar nefna persónuafslátt allt árið, vaxtabætur og barnabætur. Á sama hátt hafa tekjur og eignir erlendis áhrif á skattlagninguna og barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis koma til lækkunar á barnabótum hér á landi.
Hér er góð vefsíða sem að veitir upplýsingar um skattamál á Norðurlöndunum. Einnig er gott að kynna sér vefsíðu Ríkisskattstjóra.
Réttindi veitt í eitt ár í senn
Námsmaður sem óskar eftir að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti þarf að sækja um það á framtali fyrir hvert ár á meðan námið er stundað. Á hverju ári þarf að leggja fram nýjar upplýsingar um námið ásamt staðfestingu frá skóla og tekjuvottorði frá skattyfirvöldum erlendis.
Tekna aflað erlendis
Afli námsmaður tekna í landi sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við getur hann átt von á því að vera skattlagður í báðum löndum, hafi hann haldið skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Því getur borgað sig fyrir einstaklinga sem reiða sig fyrst og fremst á tekjur sem aflað er í ríki sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við, að sækja ekki um skattalega heimilisfesti hér á landi. Athugið þó að með slíku fyrirgerir viðkomandi rétti sínum til ýmissa bóta og persónuafsláttar hér á landi, auk þess sem hugsanlegar tekjur á Íslandi verða skattlagðar í báðum löndum. Einnig hefur flutningur lögheimilis áhrif á rétt viðkomandi til greiðslna frá almannatryggingum. Því er öllum ráðlagt að kynna sér þessi mál vandlega áður en ákvörðun um slíkt er tekin.
Þau lönd sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við eru:
· Bandaríkin
· Bretland
· Danmörk
· Eistland
· Finnland
· Frakkland
· Færeyjar
· Holland
· Kanada
· Kína
· Lettland
· Noregur)
· Portúgal
· Sviss
· Svíþjóð
· Þýskaland
Unnið er að því að gera samninga við fleiri ríki.
Íslenskur námsmaður sem flutt hefur lögheimili sitt úr landi til að stunda nám erlendis getur sótt um að fá að halda hér á landi skattalegri heimilsfesti, hafi hann verið búsettur hér á landi síðustu 5 árin áður en nám erlendis hófst. Dvelji maki námsmannsins eða börn hans eldri en 16 ára einnig erlendis og dvöl þeirra er bein afleiðing af námi hans, geta þau einnig sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti. Óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði skattalaga um samsköttun.
Nám erlendis sem uppfyllir skilyrði fyrir skattalegri heimilisfesti
Til að halda skattalegri heimilisfesti hér á landi þarf námið sem stundað er erlendis að uppfylla ákveðin skilyrði. Þessi skilyrði eru:
· að stundað sé reglulegt nám í viðurkenndri menntastofnun á framhalds- eða háskólastigi.
· að námið sé ætlað sem aðalstarf.
· að námið sé eigi skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári.
Til náms í þessu sambandi telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda, enda séu skilyrði þau sem sett eru að öðru leyti uppfyllt. Nám í grunnskólum, menntaskólum og sambærilegum menntastofnunum telst ekki til náms í þessu sambandi nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.
Sækja þarf um skattalega heimilisfesti á skattframtali. Ekki er gerð krafa um sérstakt eyðublað heldur nægir að greina frá búsetu erlendis í athugasemdadálki á 1. síðu framtals og vísa í tilskilin gögn sem fylgja eiga framtalinu. Gögnin sem þurfa að fylgja skattframtali eru eftirfarandi:
· Vottorð um nám erlendis. Árlega þarf að leggja fram staðfestingu frá skóla þar sem fram kemur hvaða nám var stundað og hve lengi á tekjuárinu, hvenær nám hófst og áætluð námslok.
· Upplýsingar um tekjur erlendis. Námsmaður og maki hans þurfa að leggja fram staðfestingu um tekjur eða tekjuleysi erlendis frá viðkomandi skattyfirvöldum. Nægilegt er að leggja fram staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram, skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum, erlenda álagningarseðla eða staðfestingu á skattauppgjöri.
· Staðfesting á barnabótum eða sambærilegum greiðslum fengnum erlendis á tekjuárinu.
Námsmenn erlendis fá ekki sent áritað skattframtal. Þurfa þeir eða umboðsmenn þeirra að snúa sér til skattstjóra til að fá nauðsynleg eyðublöð. Á skattframtali þarf að koma fram póstfang námsmannsins erlendis eða umboðsmanns hér á landi og hvert hafi verið síðasta lögheimili námsmanns hér á landi.