Að velja nám
Hvað þarf að hafa í huga?
Þetta skref hjálpar þér velta mikilvægum hlutum fyrir þér í upphafi ferilsins. Við mælum svo með að lesa einnig um löndin hér á síðunni.
Það er margt ólíkt sem fólk tekur til greina þegar áfangastaður er valinn. Mörgum finnst skipta máli að komast auðveldlega heim (t.d. með beinu flugi) á meðan öðrum finnst fjarlægðin spennandi. Þá getur verið gott að skoða borgina þar sem skólinn er staðsettur og athuga t.d. hvernig húsnæðismálum er háttað á háskólasvæðinu. Þá getur verið gott að velta einnig fyrir sér hvernig almenningssamgöngur eru í landinu eða veðurfar. Fyrir sumt fólk skipta þessi atriði meira máli en önnur. Það er undir hverju og einu komið að velja hvað þeim finnst mest spennandi. Hér á vefnum er hægt að lesa sér til um fjölmörg ólík lönd og skólakerfin í þeim.
Þegar nám er valið er oft gott að byrja að skoða áhugasvið og námskeiðslýsingar. Yfirleitt mælum við með að fólk noti leitarvélina Google þar sem hún veitir yfirleitt hlekki beint inn á heimasíður háskóla, þó mikilvægt sé að nota rétt leitarorð. Nám getur verið ólíkt milli landa og það er því alltaf góð regla að kynna sér vel hvað er í boði í hverjum skóla fyrir sig. Sumum finnst best að ákveða landið fyrst og finna svo nám út frá því, á meðan öðrum finnst auðveldara að skoða fyrst og fremst hvað þau vilja læra og sjá svo hvar slíkt nám er í boði.
Flest alþjóðlegt háskólanám er viðurkennt á Íslandi en það er mikilvægt að fólk athugi það vel áður en nám hefst, sérstaklega þegar um er að ræða lögvernduð starfsheiti. Þá er átt við hvort námið veiti réttindi til að starfa til jafns á við þá sem stundað hafa námið hér á landi. Ef starfsheiti er lögverndað þarf starfsleyfi frá ráðuneyti eða undirstofnun. Starfsleyfi þarf frá landlæknisembættinu til að starfa sem dýralæknir, tannlæknir, hjúkrunarfræðingur o.s.frv. og frá viðeigandi ráðuneyti til að starfa sem verkfræðingur, bifvélavirki eða innanhússhönnuður svo eitthvað sé nefnt. Gott er að hafa samband við fagfélag í því námi sem á að stunda til að ganga úr skugga um hvort námið veiti starfsréttindi. T.d. Verkfræðingafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Dýralæknafélag Íslands og fleiri.
Það getur einnig skipt máli að athuga hvort Menntasjóður meti námið lánshæft, en nám er yfirleitt lánshæft hjá sjóðnum ef það er á háskólastigi eða er sérnám sem veitir starfsréttindi. Sjá kynningu á reglum sjóðsins á síðu Menntasjóðs. Einnig getur verið mikilvægt að háskóli hér á landi meti námið til áframhaldandi náms. Í þeim tilvikum þarf að hafa samband við viðkomandi menntastofnun eða skrifstofu ENIC/NARIC á Íslandi. Listi yfir skóla á háskólastigi hér á landi.
Grunnnám er byrjunarnám á háskólastigi, þ.e. nám til bachelor gráðu, sem tekur yfirleitt þrjú ár í Evrópu en þrjú til fjögur ár í Norður-Ameríku. Einnig getur grunnnám átt við um diplómagráðu á grunnstigi sem yfirleitt er eins til tveggja ára nám en diplómur veita ekki alltaf aðgöngu í framhaldsnám. Aðgangskrafan í grunnnám við erlenda háskóla er oftast stúdentspróf en auk þess getur þurft lágmarkseiningar í einstökum fögum. Val á námsbraut í framhaldsskóla getur haft áhrif á hvaða nám er hægt að velja beint eftir stúdentspróf. Til að sækja um þarf að hafa þýðingu á stúdentsskírteininu á ensku en það er yfirleitt hægt að fá hjá skólanum sínum.
Það hefur komið fyrir að ungt fólk sem ætlar í nám á Norðurlöndum vanti einingar í ensku, stærðfræði og raunvísindum (þegar sótt er um nám í raunvísindum). Þess vegna mælum við með að skoða aðgangskröfur tímanlega og bæta við sig áföngum ef þess þarf. Athugið að það er líka hægt að bæta við sig áföngum eftir útskrift og algengt að fólk geri það.
Með framhaldsnámi er átt við háskólanám eftir grunnnám, þ.e. meistaranám eða doktorsnám. Aðgangskrafa í framhaldsnám er yfirleitt grunnnám, Bachelor (BA eða BS) gráða, í viðkomandi fagi eða skyldu fagi. Þegar fólk er ekki með bachelor gráðu í sama eða skyldu fagi, getur verið mögulegt að taka auka áfanga til að standast kröfurnar. Val á nemendum í meistaranám er yfirleitt í höndum hverrar deildar fyrir sig. Lokaeinkunn í grunnnámi skiptir miklu máli en gott kynningarbréf (e. motivation letter) sem skýrir hvers vegna viðkomandi velur námið getur einnig haft áhrif á val umsækjenda. Áður en slíkt bréf er skrifað er gott að vera búinn að kynna sér hvað viðkomandi deild eða skóli leggur áherslu á. Stundum getur líka verið gott að fá meðmælabréf frá kennurum.
Framhaldsnám nám er oftast kallað master's degree á ensku en getur einnig verið postgraduate studies (Bretland) eða graduate studies (Bandaríkin). Athugið að í sumum löndum Evrópu skiptist háskólanám ekki niður í grunn- og framhaldsnám heldur er það 5-6 ára nám í einni lotu sem lýkur oftast með lokaprófi.