Sækja um nám
Hér getur þú skoðað það sem þarf að hafa í huga við umsóknir um nám erlendis.
Misjafnt er hversu mikið af fylgigögnum þarf að fylgja umsókn um háskólanám erlendis. Væntanlegir nemendur þurfa að vera viðbúin því að taka saman einhver eða öll af eftirfarandi gögnum: prófskírteini úr fyrra námi, ferilskrá, staðfesting á fjármögnun námsins, kynningarbréf og jafnvel meðmælabréf frá kennara eða öðrum og sé farið út fyrir Evrópu þarf staðfest afrit af sjúkratryggingum. Í listnámi þarf yfirleitt að fylgja verkefnamappa (e. portfolio) með fyrri verkum nemanda. Hér eru nánari upplýsingar um fylgigögn.
Þegar sótt er um nám erlendis gætu námsmenn þurft að þreyta inntökupróf. Yfirleitt er nauðsynlegt að fara til viðkomandi lands til þess að fara í slík próf en þó kemur það fyrir að þau séu haldin hér á landi eða rafrænt. Miklivægt er að kynna sér vel próftökudagsetningar og tímasetningar en einnig hvort einhver umsóknarfrestur sé í prófin. Í mörgum tilvikum eru inntökupróf haldin einu sinni á ári og því getur þurft að bíða í heilt ár áður en reynt er við prófin aftur. Sumir skólar taka fram hvaða kunnátta er prófuð í inntökuprófunum en einnig getur verið gott að leita sér upplýsinga um prófin á netinu til að undirbúa sig. Hér á vefnum er hægt að finna upplýsingar um inntökupróf í ákveðnum löndum á undirsíðunum um löndin ef slíkum upplýsingum hefur verið safnað saman.
Til að komast inn í skóla erlendis getur þurft að sýna fram á tungumálakunnáttu með því að framvísa niðurstöðum úr tungumálaprófum. Misjafnt er eftir skólum hvaða tungumálapróf eru tekin gild og því er gott að kynna sér það vel áður en próf eru valin. Athugið að sum próf er ekki hægt að taka á Íslandi og bjóði þau ekki upp á rafræna möguleika þarf einstaklingur að ferðast til annars lands til að taka prófið. Hér á vefnum er að finna lista yfir helstu tungumálapróf.
Upplýsingastofa um nám erlendis fær reglulega spurningar um hvaða skólar séu bestir í hinu og þessu fagi. Ógerlegt er fyrir okkur að leggja mat á slíkt enda skólar eins fjölbreyttir og þeir eru margir – og geta gæðin verið ólík innan landa og milli námsbrauta. Oft er hægt að finna umsagnir annarra nemenda um skóla með því að leita að nafni skólans og orðinu „review“ í leitarvél.
Til eru margir listar yfir gæðaháskóla um allan heim og eru skólarnir flokkaðir eftir ólíkum forsendum. Á þessari síðu er hægt að skoða nokkrar leitarvélar.
Umsóknarfrestir eru misjafnir eftir löndum. Í sumum löndum er bara eitt umsóknarkerfi sem nær yfir alla skóla en í öðrum eru sérstakir umsóknarfrestir fyrir hvern skóla og jafnvel í hverri námsgrein. Við mælum alltaf með að fólk leiti sjálft að þessum upplýsingum á netinu þar sem þær geta breyst með litlum fyrirvara. Gullna reglan er að byrja mjög tímanlega að skoða frestina, jafnvel heilu ári áður en áætlað er að fara í námið. Þessi listi getur gefið einhverja hugmynd um umsóknarfrestina.