Eins árs master í heimspeki á Bretlandi, á Explorer styrk

Bolli Steinn Hugsinsson er í meistaranámi í Bretlandi. Bolli fékk styrk úr Explorer sjóðnum. 

Ég er í eins árs Mastersnámi (M.Litt) við St. Andrews háskóla að læra heimspeki. Undanfarin þrjú ár hef ég verið í grunnnámi í heimspeki við HÍ en stefndi alltaf á það að fara erlendis í meistaranám. Stefnan var alltaf sett á nám á Bretlandseyjum eða í Bandaríkjunum, þar sem heimspekideildirnar þar henta best mínu áhugasviði. Eftir stutt skiptinám í Bandaríkjunum áttaði ég mig hins vegar á því að ég vildi ekki vera þar, og ákvað að sækja um meistaranám í Bretlandi. Þetta meistaranám heillaði mig þar sem þetta er þétt prógram yfir eitt ár, en ekki tvö, og heimspekideildin við St. Andrews háskóla er talin með þeim betri.

Flestir þeirra sem þekkja til St. Andrews tengja líklega bæinn frekar við golf en háskólann hér. En háskólinn hér hefur verið starfræktur hér síðan 1413 og meirihluti íbúa hérna eru nemar við skólann. Skólinn er staðsettur í Norður-Skotlandi, klukkutíma fjarlægð frá Edinborg, í eiginlegum sveitabæ. Staðurinn og skólinn heillar mjög, að vera í skóla hér er líkt og að vera í skóla á miðöldum, byggingarnar eru margar frá 15du og 16du öld og þeir halda mjög í hefðirnar.  Svo iðar bærinn einnig af lífi (sérstaklega um helgar) þrátt fyrir að hann sé lítill og það er aldrei langt í náttúruna hér. Náttúran, sagan og smæðin heillar mig, skapar skemmtilegan anda og hefur margt fram yfir það að vera í stórborg.

En eins og ég sagði þá hafði mig lengi langað að fara í meistaranám erlendis, bæði upp á það að komast í nýtt umhverfi og gott nám sem hentar mér. Í Bretlandi er að finna suma bestu háskóla í heiminum og það hefur verið eitthvað sem ég hef stefnt á. Einnig þá er fjarlægðin frá Íslandi mjög hentug, upp á það að geta skroppið heim og svo er það ekki verra að Bretinn er mjög skemmtilegur, og Skotinn jafnvel skemmtilegri.

Ég gat ekki með hreinni samvisku farið í nám til St. Andrews án þess að prófa það að sveifla golfkylfu, því ákvað ég að skrá mig á golfnámskeið hérna og vona svo að geta spilað á vellinum fræga. Skotinn heldur svo í margar skemmtilegar hefðir, hann heldur mikið upp á skoska matargerð og áhugavert (svo meira sé ekki sagt) að kynnast henni. Einnig hef ég fengið að kynnast skosku tónlistarhefðinni á ýmsum viðburðum þar sem mikið er dansað og sungið.

Mig langar að nýta verkfærin sem ég hef öðlast í náminu í lífi og starfi fyrst og fremst. Eins og er þá mun ég fara í starfsnám á vegum Geimferðastofununarinnar hér í Bretlandi og sjá svo hvert það leiðir mig.

Námið er krefjandi, vertu tilbúinn fyrir því. Einnig, þá er mikilvægt að kynna sér allt vel áður en sótt er um og áður en farið er út, skólagjöld, húsnæði, vegabréfsáritun, o.s.frv. Loks, ekki vera feiminn að sækja um styrki, maður fær þá ekki nema maður sækir um.

Eins og kom fram stefndi ég lengi á nám í Bretlandi og ætlaði ekki að láta á umdeildar ákvarðanir Íhaldsflokksins hér að stöðva mig í því. Eftir að Bretar ákváðu að ganga úr Evrópusambandinu var ekki að finna marga styrki þangað. En svo rakst ég á Explorer styrkinn og ákvað bara að taka af skarið.

Ekki vera feiminn að sækja um þótt að þú sért ekki að læra STEM-grein, það eru ekki einu vísindin.