Býrð þú ekki í Ungverjalandi?
Hvernig er það?
Svona byrja nánast undantekningalaust allar samræður sem ég á við frænkur, frænda eða vinkonur mömmu, þegar ég sný aftur til Íslands í sumar- eða jólafrí. Fyrri spurningin er auðveldari, vissulega bý ég í Ungverjalandi, en svarið við þeirri seinni hefur stundum vafist fyrir mér. Eftir nokkurra ára æfingar lýsi ég verunni sirkabát svona;
Lífið í Ungverjalandi, og skólagangan í Háskólanum í Debrecen er algjört ævintýri. Það bólar ekki enn á illri stjúpu, en ég hef farið á dansleik og sigrað nokkra dreka, svona skóladreka sko.
Þegar ég hóf nám í læknisfræði hér ytra, þá var skylda að bera með sér í lokapróf, litla græna innbundna leðurbók, þar sem árangur þinn skyldi skilmerkilega færður til bókar, að prófi loknu. Hér þótti ekki við hæfi að treysta töluvölvunni um of. Fyrir öran Íslending, þá getur manni á tímum fundist austrið dálítið gamaldags, og stundum minnir þetta mig á samskiptin við LÍN. Sama hvað ég er að gera, þá mun það taka 5-7 virka daga, og ég fæ sennilega neitun.
En þar með eru líka ókostir þess að sækja nám í Ungverjalandi upptaldir. Það var ekki lengi gert, enda frábært að fá tækifæri til að búa hér og læra, og Ungverjar gott fólk, nánast allir með tölu. Gott dæmi um þetta eru ungversku ömmurnar okkar, en ég ásamt öðrum, höfum verið svo heppin að vera tekin undir verndarvæng ungverskra nágranna okkar, sem banka upp á með nýbakað bakkelsi eða heimabruggað. Þessi samskipti fara yfirleitt fram á ungversku af þeirra hálfu, en ungv-ensku og handapati af okkar.
Í fréttaflutningi af Ungverjalandi ber oft á góma harka í innflytjendamálum og aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum þeirra sem minna mega sín, en ég bind vonir við að nágrannar mínir fari einnig að sjá auðinn sem býr í því fólki. Í læknadeildinni í Debrecen koma nemendur frá að minnsta kosti (40?) löndum.
Í því er fólginn mikill auður, bókstaflegur, enda skólagjöldin há, sem og menningarlegur, því að hér lærist líka menningarlæsi og umburðarlyndi fyrir náunganum, sem er ekki síður mikilvægt.
En aftur að grænu bókinni góðu, hana skyldum við að bera, rétt eins og Fróði með hringinn, þangað til að námi loknu. Það gerðist svo á síðasta ári, að græna bókin varð loks óþörf, og buðum við velkomið tölvukerfi til að halda utan um einkunnir nemanda. Ég viðurkenni, það var ljúfsárt, enda hafði ég séð fyrir mér að kasta bókinni í Dómsfjallið að Embættisprófi loknu.
Sem þriðja árs nemi, að stíga sín fyrstu praktísku spor á sjúkrahúsi, myndi ég halda að ef að ég væri á söguslóðum Tolkien, væri ég stödd í Entuskóginum núna. Allt í kringum mig standa vitrar kennara- eða lækna-entur, og ég agnarsmár hobbiti sem vill afar vel, en er yfirleitt frekar grunlaus.
Leiðin að útskrift er ennþá löng, en ef það er eitthvað sem ég hef lært í Ungverjalandi, þá er það þrautseigja og þolinmæði. Í raun er margt líkt með Ungverjum og læknanemum, við höldum í vonartýruna sem trúir á betri tíma framundan, við þurfum bara að standast næsta próf, hvort sem það er meinafræði eða sovíeskur kommúnismi.