Nemandi í Executive MBA í Rotterdam School of Management
Ég hóf nám í MBA í janúar 2017 við Rotterdam School of Management (RSM). Námið er 22 mánuðir og mun ég því ljúka því í lok þessa árs. Við erum 107 í heildina og af 40 þjóðernum. Okkur er skipt upp í tvo hópa sem eru stokkaðir upp á hverri önn og 25% af hópnum eru konur. Alls hafa 5 nemendur hætt eða frestað námi og allt eru það konur sem mér finnst mjög miður.
Náminu er skipt upp í fjórar annir og er ég núna á þeirri þriðju. Á hverri önn er hópnum skipt upp í 6 manna hópa sem vinna öll hópaverkefni saman en svo eru einnig mörg einstaklingsverkefni og próf. Kennsla er aðra hverja helgi og hefst alltaf á föstudegi. Farið er yfir mikið efni í tímunum og mikilvægt að vera vel undirbúinn fyrir hverja kennslustund og hluti af einkunnum er þátttaka í tímum og fyrir vikið verða tímarnir oft líflegir og áhugaverðir. Nemendur eru mikið að deila sinni reynslu og áskorunum og fólk er ófeimið að tjá sig. Það hjálpaði mikið hvernig skólinn startaði náminu með ýmsum verkefnum og leiðum sem náðu okkur út fyrir þægindarammann og brutu ísinn.
Ég hafði hugsað þó nokkuð lengi um að fara í MBA nám og langaði að gera það erlendis. Maðurinn minn kláraði MBA frá Copenhagen Business School fyrir rúmum 10 árum og mér fannst það svo spennandi og það var aldrei spurning í mínum huga um hvort heldur hvenær. Við fjölskyldan bjuggum í Rotterdam í Hollandi fyrir um 10 árum síðan og maðurinn minn hefur unnið mikið hér síðastliðin 20 ár. Þegar ég fór að skoða námið fyrir alvöru fannst mér RSM vera spennandi kostur og er námið þar vel metið í alþjóðlegum samanburði. Það varð því úr að ég flutti í annað skiptið út til Rotterdam og byrjuðum bæði ég og 10 ára sonur minn í nýjum skóla í sömu vikunni. Ég er mjög ánægð með þessa ákvörðun og hef notið þess mikið að fara í gegnum þetta lærdómsríka ferðalag. Auðvitað var áskorun að setjast aftur á skólabekk eftir fremur langt hlé en námið hefur gengið vel og ég hef lært mikið, bæði af prófessorunum og samnemendum. Þar sem maðurinn minn hefur einnig lokið MBA deilum við því áhugamáli að ræða nýjungar og áherslur í umhverfi fyrirtækja.
Aðstaðan í skólanum er mjög góð. Þar eru nokkrir stórir kennslusalir, mikið af fundarherbegjum og básum sem hægt er að notfæra sér. Gott aðgengi að bókasafni, bæði rafrænu og á pappír. Það er hugsað mjög vel um okkur og umgjörðin til fyrirmyndar. Prófessorarnir koma víða að úr heiminum eða m.a. frá Suður Afríku, Bandaríkjunum, Kanada, Englandi, Belgíu og Hollandi. Það er mikill metnaður lagður í námið og óhætt að segja að álagið sé mikið. Mikil áhersla var lögð á undirbúning fyrir námið þar sem við þurftum að taka próf og fá að lágmarki 70% í þeim áður en námið hófst. Þetta reyndist mér vel til að koma mér í gírinn og vera betur undir það búin að hefja námið.
Heilt á litið finnst mér öll fögin áhugaverð þó sum veki meiri áhuga en önnur. Það sem stendur upp úr eins og staðan er núna er breytingastjórnun, fjármál og stefnumótun og einnig heimsóknir og fyrirlestrar frá stjórnendum alþjóðlegra fyrirtækja. Þá fórum við í lærdómsríka og eftirminnilega námsferð til Jóhannesarborgar í Suður Afríku í fyrra. Mikið var lagt upp úr undirbúningi fyrir ferðina og ýmis verkefni unnin. Auk þess fengum við tækifæri til að kynnast atvinnulífinu þar, bæði hjá stórum og minni fyrirtækjum ásamt heimsóknum og kynningum frá einyrkjum sem maður dáist að. Við fórum t.d. inn í fátækrahverfi sem heitir Alexandra þar sem við hittum fyrir heimafólk sem hafði komið sér upp eigin starfsemi. Það sem einkenndi þau var dugnaður og jákvæðni og að gefast ekki upp. Við fórum inn á hárgreiðslustofu þar sem eigandinn var að gefa nokkurra mánaða barni sínu brjóst og var að bíða eftir næsta viðskiptavini. Það vakti sérstaka athygli okkar að það var vatnslaust á stofunni þennan dag en eigandinn lét það nú ekki stoppa sig og bað viðskiptavininn að mæta með vatn með sér. Við hittum einnig ungan mann sem var búinn að vera að framleiða tónlist í 9 ár. Hann var með stúdíóið inni í herberginu sínu sem var 6 fermetrar og bjó að auki þar með bróður sínum. Hann er ekki með nettengingu heima hjá sér og þarf því að hugsa í lausnum. Mörg af lögunum hans hafa náð vinsældum og þegar við spurðum hann hvort hann væri ekki hræddur um að búnaðinum sem hann var búinn að safna lengi fyrir yrði stolið sagðist hann ekki hafa neinar áhyggjur af því þar sem nágrannarnir passa hver upp á annan. Við heimsóttum einnig einkarekna heilsugæslu í hverfinu þar sem fólk getur greitt eitt gjald og fengið aðstoð og greiningu og lyfin eru innifalin í gjaldinu. Þetta hefur verið mikil bylting fyrir fólk þar sem oft var erfitt að komast að hjá lækni og mikil bið, en um 50% íbúa þessa hverfis eru smitaðir af HIV sem er stórt vandamál í landinu.
Ég mæli klárlega með náminu og að fara í það erlendis skemmir ekki fyrir. Hér koma saman ólíkir menningarheimar, bakgrunnur og reynsla og verður til alþjóðlegt net og sambönd sem ég met mikils.
Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér frekara námi og það erlendis ráðlegg ég að vera ekki að ofhugsa það. Stundum er gott að henda sér í djúpu laugina og það er aldrei of seint að setjast aftur á skólabekk. Það er svo gaman að takast á við ný verkefni og áskoranir og sérstaklega í því umhverfi sem við lifum og hrærumst núna þar sem tæknin og nýjungar eru óþrjótandi eru möguleikarnir miklir. Umfram allt er mikilvægt að reyna að njóta námsins vel.
Félagslífið hjá nemendum er öflugt og meðal annars hefur verið farið í skíðaferð til Austurríkis, siglingu í kringum Grikkland, reglulegir fótbolta- og tennisleikir, golf spilað, matarklúbbar og nú er verið að skipuleggja dans- og jógakvöld.
Ég mun skila lokaverkefninu mínu í lok ágúst og strax í framhaldinu fer ég í námsferð til Shanghai. Ég hlakka mikið til að heimsækja Shanghai en þangað hef ég aldrei komið. Kínverska hagkerfið hefur vaxið gríðarlega og það verður spennandi að fá tækifæri til að upplifa borgina og kynnast atvinnulífi og menningu innanfrá en ekki sem ferðamaður.