Meistaranám í sjálfbærnistjórnun í Barcelona

Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Sara Júlía Baldvinsdóttir.

 

Frá því að ég kom heim frá Spáni eftir skiptinám árið 2016 hefur hugurinn reikað til Barcelona. Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík sumarið 2022 en á HR árunum gerði ég tilrunir (já í fleirtölu) að fara í skiptinám en að sökum heimsfaraldurs varð það ekki að veruleika. Að því sögðu var löngunin til að koma mér út aftur orðin virkilega mikil.

 

Fann nám sem smellpassaði mínu breiða áhugasviði

Eftir útskrift hafði ég ákveðið að gefa mér ár til þess að skoða prógrömm og sækja um. Fyrir tilviljun rak ég augun í prógramm í Barcelona sem smellpassaði mínu áhugasviði. Þar sem prógrammið er nýtt var enn opið fyrir umsóknir í ágúst. Ég hugsaði að þetta væri of gott tækifæri til þess að sækja ekki um og lét því verða að því. Í byrjun september, daginn fyrir afmælið mitt, fékk ég inngöngu í skólann og tilkynnti ég vinunum og fjölskyldu á afmælinu mínu að ég myndi fytja aftur til Barcelona í lok mánaðarins. Þetta kom fáum á óvart þar sem ég hef talað um að fara aftur til Barcelona í mörg ár. Mér til mikillar lukku kröfðust flutningarnir ekki mikils undirbúnings eða pappírsvinnu. Eina á listanum var að endurnýjun á evrópska sjúkratryggingarkortinu, kanna hvort vegabréfið sé ekki örugglega í gildi og kaupa flugmiða. Húsnæðismál voru aðeins annar handleggur en það gekk allt að lokum. Íslenskir nemendur þurfa ekki að sækja um visa fyrir dvölinni en innan þriggja mánaða frá komu þarf að skrá sig til búsetu. Það er stutt heimsókn í ráðhús með skilríki og undirritaðan leigusamning.

 

Ég sótti um í HR á sínum tíma án þess að hafa almennilega fundið mína hillu. Frá því ég var lítil hefur mig langað að vera hagfræðingur, sálfræðingur, verkfræðingur, listakona, viðskiptafræðingur og næstum því allt þar á milli. Í HR var boðið upp á valáfanga sem fjölluðu um sjálfbærnitengd málefni og loksins fannst mér ég finna sérgrein sem uppfyllti mitt breiða áhugasvið. Að því sögðu var ég að leita af námi sem tæklaði heildarmyndina en sjálfbærni er víðtækt hugtak en þar sem aukin áhersla á sjálfbærni er tiltölulega ný af nálinni var framboðið takmarkað. Óvænt rakst ég á M.Sc í Sustinability Management hjá UPF Barcelona School of Management (UPF-BSM) en námsáætlunin samanstóð af öllu því sem ég hafði hugsað mér. Námsáætlunin var sett upp á þremur önnum þar sem fyrsta önnin fór í fræðilegan grunn, t.d. vísindin bak við loftslagsbreytingar, sögu og þróun málefnaflokksins og flokkun umhverfisáhrifa. Önnur önnin hefur verið meira hagnýt þekking, t.d. útreikningar kolefnisfótspora, lífsferilsgreiningar og evrópsk löggjöf. Þriðja og síðasta önnin einkennist af valáfögnum þar sem við höfum tækifæri á því að auka þekkingu okkar á þeim sviðum sem við höfum áhuga á, t.d. félagslegt frumkvöðlastarf, græn orka og sjálfbær fjármál.

 

Námið hingað til hefur verið virkilega áhugavert en bekkurinn er tiltölulega lítill eða þrettán manns. Þrátt fyrir það erum við frá tólf mismunandi löndum, fimm mismunandi heimsálfum. Fjölbreytileikinn hefur skapað virkilega áhugaverðar samræður í kennslustofunni sem er dýrmætt, þá sérstaklega þegar það kemur að málefnum tengdum sjálfbærni. Við höfum rætt hvernig loftslagsbreytingar hafa núþegar og munu áfram hafa áhrif á okkar heimalönd, viðhorf samfélagsins og stjórnvalda gangvart loftslagsbreytingum og öðrum tengdum málefnum og deilt upplifunum og skoðunum á samfélagslegri sjálfbærni (e. social sustainability), sem er alls ekki minna áríðandi málaflokkur.

 

Vetrarkuldinn kom á óvart

Þar sem ég hef búið áður á Spáni var fátt sem kom mér á óvart í flutningunum. Það sem kom þó á óvart voru húsnæðismál. Ég sé fyrir mér að vera áfram í Barcelona eftir útskrift og var því að leita að langtímaleigu, sem flestar íbúðir fyrir nemendur bjóða ekki upp á. Á almennum leigumarkaði á Spáni er gríðarleg eftirspurn eftir íbúðum og því mikil samkeppni. Lög eru einnig í hag leigutaka og því fara leigusalar varlega í val á nýjum leigutökum. Þetta setti smá strik í reikninginn þar sem umsókn frá ungum erlendum nemanda fer ekki ofarlega í bunkann. Eftir nokkrar vikur af leit og margar umsóknir fékk ég loksins húsnæði með hjálp vinafólks frá því ég bjó hérna síðast.  Það sem hefur komið öðrum á óvart er vetrarkuldinn. Íslendingar eru vanir að ímynda sér Spán sem stuttbola land. Það er ekki raunin þar sem það getur verið virkilega kalt í Barcelona á veturnar. Mannvirkin eru ekkert sérstaklega hönnuð til þess að verjast þennan kulda og einkenndust því lærdómskvöld í vetur af teppum og ullarsokkum. Þetta er að hluta til mér að kenna þar sem húsnæði eru upphituð með gasi sem ég hef ekki haft í mér að hafa í gangi í marga klukkutíma á dag.

 

Draumaborgin Barcelona

Barcelona, að mínu mati, býður upp á allt sem námsmaður gæti óskað eftir. Borgin er við ströndina en einnig stutt frá fallegum fjallgörðum og býður upp á valmöguleika fyrir frábærar helgarferðir. Borgin einkennist af góðum mat, lífleika og skemmtilegu fólki. Hér er alltaf nóg um að vera, námsmannaparadís. Það er endalaust hægt að upplifa sem er ein af mörgum ástæðum afhverju ég sé fyrir mér að vera áfram í Barcelona eftir útskrift, ég einfaldlega hef ekki upplifað allt sem mig langar á þessum stutta tíma.

Ég verð eilífðar talsmaður þess að allir sem hafa kost á því að fara út fyrir landsteinana og kynnast nýjum menningarheimum og tungumálum eigi skoða þann valmöguleika. Nám erlendis gefur námsmanni svo mikið meira en einungis það sem fer fram í kennslustofunni.

A view from a hilltop over the city of Barcelona. In the forefront there are the feet and shoes of those who took the photo. The sky is blue and the sun is about to set.