Óperusöngnám í Þýskalandi

Frásögn eftir Einar Dag Jónsson, birtist fyrst í blaðinu Sæmundi sem gefið er út af SÍNE.

Ég hóf óperusöngnám árið 2018 við Tónlistarháskólann í Karlsruhe í Þýskalandi (Hochschule für Musik Karlsruhe) og er ég núna að ljúka bakkalársgráðunni minni. Námið mitt er hið venjulega 8 anna kerfi sem lýkur með bachelor gráðu eða eins og sagt væri á ensku B.M (Bachelor of music). Aðalgreinin mín eru söngtímar hjá prófessornum mínum og fer ég til hans tvisvar í viku. Þar vinnum við saman að söngtækni og æfum mismunandi óperur. Ég fer einnig í píanótíma, leiklistartíma, tónfræði og tungumálatíma. Í píanótímunum fer kennarinn yfir tæknina mína og lætur mig spila mismunandi lög. Í leiklistartímunum er unnið með sviðstækni og framkomu sem óperusöngvari þarf á sviðinu. Tónfræðitímarnir fara aðallega í nótnalestur, greiningu á tónlist og hljómfræði. Ég ferð í sérstaka tíma til þess að æfa þýskan framburð, þar sem við erum látin lesa mismunandi texta, ljóð og senur úr leikritum. Einnig skylda hjá okkur að fara í samskonar ítölsku tíma þar sem þó nokkrar óperur eru skrifaðar á ítölsku. Í rauninni mætti lengi telja hvers konar tíma við förum í. Allt frá förðunartímum fyrir sviðið til sviðsskylmninga.

Betri kostir erlendis
Mig langaði alltaf til þess að fara erlendis í nám, þar sem óperusöngnám á Íslandi er því miður ekki eins vel fjármagnað og spennandi eins og staðan er í dag. Þó svo að miklar breytingar hafa orðið á náminu á Íslandi er það ekki komið á þann stall sem nám erlendis er á. Þess vegna var alltaf klárt að ég yrði að fara frá Íslandi til þess að halda áfram námi mínu og fyrir valinu varð Þýskaland. Þýskaland er eitt stærsta landið þegar kemur að óperusöngnámi. Landið sjálft heldur mikið upp á þessa grein og styður hana gríðarlega vel fjárhagslega. Í næstum hverju þorpi eða borg er eitt leikhús þar sem hinar klassísku listir eru settar á svið; leikrit, óperur og ballett. Þess vegna ákvað ég að fara til Þýskalands eins og svo margir sem vilja hefja feril í klassískum listum. Maður sér það einnig á skólanum mínum. Þar eru nemendur af 68 mismunandi þjóðernum!

Í rauninni var það alltaf planað hjá mér að fara í þetta nám. Eftir að móðir mín hafði tuðað um það í dálítinn tíma tók ég minn fyrsta söngtíma þegar ég var 17 ára í Söngskóla Reykjavíkur hjá Agli Árna Pálssyni. Eftir nokkur ár í Söngskólanum varð mér það ljóst að þetta væri nákvæmlega það sem mig langaði að gera.

Eins galið og það er stundum að segja að maður sé að læra óperusöng erlendis  og starfa við það var það eini vegurinn sem kom til greina eftir fyrsta söngtímann minn í Söngskólanum. Ég varð svo heillaður af listgreininni og í rauninni var aldrei aftur snúið. Þess vegna ákvað ég að leggja af stað í þessa vegferð til þess að þróa hæfileika mína sem og stunda söngnám á háskólastigi.
 
Mín persónulega skoðun er að allir Íslendingar ættu að fara í nám erlendis ef völ er á. Ekki bara er það rosalega gefandi að búa í öðru landi heldur eignast maður fullt af nýjum vinum, sögum, reynslu. Ef maður er rosalega duglegur nær maður tökum á  nýju tungumáli sem er reynsla sem ekki fæst keypt og gefur manni algjörlega nýja sýn á heiminn. Við Íslendingar erum svo heppnir að geta farið til annarra landa og stundað þar nám, jafnvel ókeypis og jafnvel í landi sem er töluvert ódýrara að lifa í eins og til dæmis Þýskalandi. Ég gæti í rauninni sagt að ég beinlega spara á því að stunda námið mitt hér.

Ekki vera hrædd og prófið nýja hluti!
Best ráð sem ég get gefið þeim sem hyggja á nám erlendis er að vera ekki hrædd eða hræddur. Þetta er mjög stressandi fyrir marga að fara til annars lands til þess að stunda nám en láttu verða að því ef þig langar! Það er mikið auðveldara en maður heldur og sérstaklega þar sem Ísland er hluti af Evrópu auðveldar það manni að ferðast og stunda nám í öðrum löndum innan Evrópu. Ef völ er á, finndu Íslending sem býr í landinu sem þig langar til og spurðu hann eða hana spjörunum úr varðandi námið og borgina. Við getum talið okkur heppinn að vera fámenn þjóð og að náungakærleikurinn meðal Íslendinga er oftast mikill og maður getur auðveldlega fengið góð ráð. Komdu þér vel fyrir og reyndu að skrá þig í allskonar hópa með öðru fólki sem er að gera svipaða hluti, sem dæmi Erasmus félög eða annarskonar hópa ætlaðir fyrir erlenda námsmenn.

Ekki missa þig í djamminu, það getur stundum gerst þegar Íslendingar fá aðgang að ódýru áfengi og er á stað þar sem hægt er að djamma oftar en bara á föstudögum og laugardögum. Reyndu að nýta tímann sem þú hefur þarna til þess að ferðast. Hjá mér í grenndinni eru til dæmis : París, Alparnir, München og Bæjaraland. Stærsta ráðið sem ég get gefið öllum er að læra tungumálið! Sérstaklega ef þú ert í námi til lengri tíma og ert að jafnvel að pæla að ílengjast. Það gefur þér svo miklu meiri ánægju, þú tengist staðnum mun betur og allt verður 10 sinnum auðveldara. Það að eiga samtal við manneskju sem talar ekki ensku á því tungumáli sem þú ert búin/n að læra er eitt það magnaðasta sem maður getur upplifað. Ekki gleyma! Það að læra nýtt tungumál tekur tíma, mikinn misskilning, bugun og stundum langar manni bara að gefast upp. En að ná tökum á nýju tungumáli er svo rosalega gefandi og það opnar fullt af nýjum tækifærum fyrir þér, vinalega, vinnulega og vitsmunalega. Hlutirnir verða bara svo miklu betri á alla vegu og það er í rauninni algjör synd að stunda nám einhversstaðar og enda á því að læra aldrei tungumálið.

Skemmtilegt en erfitt ferli
Það að komast inn í tónlistarháskóla í Evrópu er ekkert grín. Maður er stundum að keppast við fleiri hundruð manns um örfá pláss. Maður þarf að undirbúa sig gríðarlega vel. Tala tungumálið í inntökuprófinu og keppast við fullt af öðru hæfileikaríku fólki. Maður þarf að ferðast til borgarinnar, hitta kennara og syngja fyrir þá. Síðan þarf maður að koma aftur til þess að fara í inntökurnar sem eru oftast nokkrir dagar og fela í sér allskonar inntökupróf. Í mínu tilviki voru þrjár umferðir af söngprófi, svo var nótna og hljómfræðipróf, píanópróf, leiklistarpróf og að lokum flutningur af ljóði/texta á þýsku.

Í skólanum mínum þarf maður að standast B2 í þýsku til þess að fá inngöngu. Þannig að ég þurfti á einum mánuði að standast fyrst B1 prófið og mánuðinn þar á eftir B2. Það að standa einhversstaðar og skilja hvorki upp né niður í mikilvægu samtali tók svo sannarlega á. Það að geta ekki tjáð sig eins og maður vildi getur verið gífurlega þreytandi og pirrandi til langs tíma. Hinsvegar eftir hundruði klukkutíma, mikinn misskilning og svita er það rosalega gefandi að vita að manni tókst að ná tökum á nýju tungumáli. 

Að þurfa að yfirgefa vini, fjölskyldu og maka til þess að fara í nám getur tekið mjög á og sérstaklega til lengri tíma. Aðeins draumurinn um hvert maður ætlar að stefna er það sem gefur manni kraft í lífið daglega.

Fjárhagslegur stuðningur til skólanna mun meiri
Það kom mér mjög á óvart hversu gríðarlega vel skólarnir hér eru fjárhagslega studdir. Sem dæmi getur maður fengið borgað fyrir að gegna allskonar störfum innan veggja skólans. Ég var heilt ár í nemendafélagi skólans og fékk borgað fyrir þá stöðu frá skólanum. Allskonar auka störf eru einnig í boði hjá skólanum, til dæmis kenna öðrum á hljóðfæri, vera í nefndum, starfa við tónleikahald og svo lengi mætti áfram telja.

Einnig kom mér það mjög á óvart að hér vinna mjög fáir meðfram náminu. Á Íslandi er það mjög algengt að fólk er í aukavinnu til þess að fjármagna nám sitt og uppihald. Hér er það nokkuð öðruvísi. Hér eru krakkarnir fjárhagslega studdir af foreldrum sínum eða fá styrki sem hægt er að sækja um á ýmsum stöðum. Það að vera ekki í 50% starfi meðfram náminu var mjög undarleg tilfinning til þess að byrja með.

Nýtum okkur Evrópusamstarf
Ísland á hlut að mjög fallegu samstarfi sem kallast Evrópusambandið. Það að geta farið til annars lands og stundað þar nám án þess að þurfa að fara í gegnum bunka af pappírsvinnu og eiga hættu á að fá ekki framlengingu á landvistarleyfi er eitthvað sem er ekki sjálfsagt. Þetta er stórt  vandamál fyrir krakkana sem ekki koma frá Evrópu. Þau þurfa að borga 20 föld skólagjöld, borga fyrir landvistarleyfi og sækja um leyfi fyrir til þess vera í Evrópu eftir að náminu lýkur. Þetta er ekkert grín. 

Nýtið ykkur það að fara í nám til annars lands! Það getur verið gott og blessað að stunda nám heima í þægindum en það gefur manni svo mikið að fara erlendis og sjá nýja hluti og sérstaklega ef farið er til annarra landa en Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar eða þeirra landa sem flestir fara til.
Lokaorð: Áfram Evrópa!