Víðsýni og þverfagleiki í Hollandi

Ég er einn af þeim mörgu sem átti erfitt með að vita hvaða stefnu ég ætti að taka í lífinu. Það tók mig þrjú ár að fara í háskóla eftir menntaskólann og jafnvel þá var ég ekki viss hvað ég ætti að læra. Það var líka erfitt að velja eitthvað sérstakt nám því hvað ef mig líkaði það ekki? Svo ég valdi eitthvað sem var a.m.k. hagnýtt, viðskiptafræði. Jei.

Það var ekki ömurlegt í viðskiptafræði og ég sé ekki eftir neinu, en ég var ekki tilbúinn að segja að ég væri búinn að læra allt sem mig langaði að vita eftir útskrift 2016. Ég var ánægður að vita meira um hagfræði og viðskipti í heiminum, en hvað með taugavísindi, pólitík, sálfræði, eðlisfræði og sögu. Það er svo margt sem ég væri til í að vita! En það var þó eitthvað við alla þessa óvissu, og jafnvel erfiðleika, sem fékk mig til að hugsa dýpra um það sem mig langaði að gera og hvað ég taldi að væri í rauninni mikilvægt að gera. Það mætti segja að þetta væri ég í leit að einhverskonar tilgangi.

Ég áttaði mig á því að mig langaði að gera eitthvað sem skipti máli. Eitthvað þýðingarmikið. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvernig. Það sem heillar mig að vita er hvernig heimurinn virkar. Alveg niður í agnarsmáar einingar og lengst út í geim. Mig langar að skilja hvernig mannfólkið er búið til og hvernig við virkum, af hverju við hegðum okkur eins og við gerum og hvernig við getum breytt og bætt þá hegðun. Hagfræði, pólitík, sálfræði, taugavísindi, eðlisfræði, saga, og fullt fleira, eru allt fræði sem vinna óhjákvæmilega saman við að skapa heildarmynd af því hvernig við sjáum heiminn og hvernig heimurinn virkar. Því meira sem við vitum og skiljum því betur getum við skipulagt okkur og gert hlutina betur. Það er ekki langt síðan það voru ekki til bílar og fólk lifði varla til fimmtugs. Við erum ekki komin á endastöð þar sem hlutir hætta að þróast, og við getum heldur ekki verið handviss um að þróunin verði alltaf til hins betra. Ef þróunin á að verða til hins betra, þá verða líklega einhverjir ábyrgir og sterkir leiðtogar að vera í fararbroddi í þeirri stefnu. Ég veit ekki með Trump, en kannski einhverjir aðrir. Kannski þú?

Ég tel mig hafa verið ótrúlega heppinn að hafa fundið Leadership Summer School. Það var í gegnum skemmtilegar tengingar við fólk sem ég kynntist að ég heyrði af vefsíðu sem bauð upp á ákveðin námskeið sem maður gat sótt um að taka þátt í. Vefsíðan hét Salto-youth, sem ábyggilega margir kannast við. Ég vissi ekki mikið um þetta árið 2016 en námskeiðið reyndist verða vendipunktur í mínu lífi. Flestir í námskeiðinu voru nú þegar í leiðtogastöðu í samtökum eða fyrirtækjum og það kom mér verulega á óvart hvað það voru nú þegar mikið af samtökum og fyrirtækjum að gera frábæra hluti fyrir samfélagið og heiminn. Það kom mér líka á óvart hversu mörg námskeið voru til með nákvæmlega sömu markmið – að styrkja og þjálfa ábyrga leiðtoga og sterka einstaklinga. Ég var nýbúinn með viðskiptafræðina á þessum tíma og opnaði mig fyrir öllum tækifærum sem voru í boði. Þetta varð að einhverjum snjóbolta og ég þróaði mig sem þjálfara á slíkum námskeiðum sem einblíndu aðallega á sjálfstyrkingu og leiðtogahæfni. Síðan þá hef ég verið að þjálfa víðsvegar um Evrópu.

Það sem ég stefni nú að er að vinna að samfélagsbreytingum. Hljómar eins og eitthvað ómögulegt, en mér finnst það ekki lengur. Í gegnum námskeið og þjálfun er hægt að byggja upp samkennd og ábyrga forystu. Þetta snýst í rauninni bara um að opna öruggt rými fyrir fólk til að vinna saman, fræðast um sjálfan sig og aðra og íhuga stöðu og stefnu mannkynsins í dag. Eftir svona námskeið myndast líka samfélag með sömu undirliggjandi markmiðin um að gera heiminn betri, sem er mikill hvati og stuðningur að vera hluti af.

Að lokum. Ég byrjaði á að tala um viðskiptafræðina og hvað það var ekki nóg fyrir mig að skilja bara hagfræði og viðskipti í heiminum, mig langar að vita meira um það hvernig heimurinn og mannfólkið virkar. Á mínu fyrsta námskeiði var ég einmitt að tala um þetta við aðra þátttakendur og fékk fullkomna hugmynd frá þeim. Liberal Arts and Science heitir námið sem þau mældu með og ég var einmitt að hefja það nám við University College Utrecht í Hollandi. Liberal Arts and Science er gömul hugmyndafræði sem byggir á víðsýni og þverfagleika. Maður velur sjálfur þá áfanga sem maður vill einbeita sér að og útskrifast með. Markmiðið er að snerta öll svið að einhverju leyti – hugvísindi, félagsvísindi og náttúruvísindi. Persónulega stefni ég á tvöfalda aðalgrein, sem þýðir tvö lokaverkefni, og mun þá útskrifast með taugavísindi og alþjóðasamskipti sem aðalgreinar. Ég er að læra lögfræði, eðlisfræði, sögu, pólitík og taugavísindi á háskólastigi við góðan háskóla. Víðsýnin er málið! Ef það vekur áhuga þinn, þá mæli ég með að lesa um hvað Liberal Arts and Science býður upp á. Ef þér finnst ekki nóg að læra t.d. bara viðskiptafræði eða bara stjórnmálafræði, heldur frekar einhverja blöndu af áhugaverðum námsgreinum þá gæti Liberal Arts and Science verið eitthvað fyrir þig. Fyrir utan víddina og gæðin, þá eru annirnar líka stuttar og sumarfríin löng og því góðir möguleikar fyrir aðra vinnu og önnur verkefni; fullkomið fyrir 26 ára gæja sem hefur nóg að gera og veit loksins í hverju hann vill snúast.