Í námi erlendis
Hér eru upplýsingar sem er gott að vita á meðan námi stendur.
Mikilvægt er að þau sem fara erlendis í nám hafi í huga hvaða áhrif flutningurinn erlendis hefur á skattamál þeirra. Það þarf t.d. að skoða hvort betra sé að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Þetta getur verið mikilvægt því með því halda námsmenn öllum réttindum sem búseta hér á landi veitir en slíkt fer líka eftir lengd áætlaðrar dvalar erlendis. Hafa þarf í huga að sækja þarf árlega um að halda skattalegri heimilisfesti í skattframtali og láta viðeigandi gögn fylgja. Frekari upplýsingar eru á vef ríkisskattstjóra en einnig er hægt að lesa nánar um málið hér á vefnum.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands er nemandi sem á lögheimili hér á landi og dvelst erlendis við nám áfram tryggður meðan á námi stendur, ef nemandinn er ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Það sama gildir um maka nemanda og börn. Þegar fólk færir lögheimili sitt vegna náms gæti annað gilt og því þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Við hvetjum fólk til að athuga hvort evrópska sjúkratryggingakortið gildi um þau þegar stundað er nám í Evrópu en í námi utan Evrópu getur þurft að kaupa sérstakar tryggingar. Við hvetjum fólk til að lesa vel þessa undirsíðu um sjúkratryggingar.
Þegar nemendur erlendis eignast börn geta þau átt rétt á fæðingarstyrk frá fæðingarorlofssjóð, uppfylli þau ákveðin skilyrði. Hægt er að lesa nánar um fæðingarstyrkinn á vef sjóðsins en gott er að kynna sér hver skilyrði úthlutunar eru, þá sérstaklega varðandi skilyrði um lögheimili. Foreldrar þurfa alla jafna að hafa haft lögheimili hér á landi og hafa búið á Íslandi í 12 mánuði fyrir fæðinguna en veittar eru undanþágur fyrir þau sem búa erlendis vegna náms. Nánar um þetta á vef sjóðsins.
Rafræn skilríki á farsímum virka ekki alltaf erlendis. Samskipti með rafrænum skilríkjum eiga sér stað með SMS boðum, ferlið brotnar þar sem viðkomandi fær ekki heimild frá sínu símafélagi til að senda boð til baka þegar hann á að staðfesta persónu sína. Boð berast þannig frá Auðkenni en svar notandans ekki til baka. Það þarf að tryggja að opið sé fyrir þjónustu sem leyfir sms sendingu frá útlöndum í símanúmerinu sem er tengt við rafrænu skilríkin. Hér má finna nánari upplýsingar um hvernig leysa má úr þessu.